Heimsmynd - 01.03.1991, Síða 68
ún skelfur eins og henni sé kalt þar sem hún sveip-
ar sig rauðu, mexíkósku sjali í sófanum í stofunni.
Uti er niðdimmt vetrarkvöld og ískalt. Húsið er
uppljómað af kertaljósum - eldgamalt, vinalegt
bakhús við Vesturvallagötu sem hún leigir af vin-
um sínum sem dvelja erlendis. Stofan er í viðbygg-
ingu þar sem smiður á að hafa fyrirfarið sér fyrir langalöngu.
En hún skelfur ekki vegna þess að hún og aðrir skynji nærveru
hins ógæfusama manns - og ekki er það sviðskrekkur leikhús-
konunnar sem sjálf hefur oft setið í sporum blaðamanns og
skyggnst inn í sálarlíf viðmælenda sinna.
Þessi fínlega, fertuga kona, íklædd svörtu og rauðu, er
Signý Pálsdóttir, nýráðinn leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akur-
eyrar. Þegar HEIMSMYND fór þess á leit við hana að hún
kæmi í viðtal af því tilefni svaraði hún mjúkri og lágri röddu:
„Já, ef þið farið vel með mig.“ Hún veit að athyglin beinist
ekki alfarið að henni vegna
nýju stöðunnar. Hún hefur
verið á milli tannanna á fólki
vegna einkamála sinna og er
eðlilega taugaóstyrk vegna
þess. Hún er kaþólsk og nýfrá-
skilin, þriggja barna móðir og
ástfangin af manni í svipaðri
aðstöðu og hún sjálf. Hún
geislar af hamingju sem mörg-
um fyndist syndsamlegt af kaþólikka við þessar kringumstæð-
ur. En Signý Pálsdóttir hefur gert upp hug sinn. „Ástin á rétt
á sér.“
Kvöldið áður hafði hún verið í veislu ásamt systkinum sín-
um. Hún sýnir mér mynd af hópnum, fimm systur og þrír
bræður. Hún er áberandi dekkst yfirlitum og segist óspart
hafa strítt foreldrum sínum á því að eitthvað væri bogið við
ætterni sitt. „En þau höfðu svör á reiðum höndum. Níu mán-
uðum áður en ég kom í þennan heim voru þau í Mexíkó og
stríddi ég þeim oft á því að einhver Mexíkómaður hefði komið
í spilið. Pabbi sagði mér að einmitt á þeim tímapunkti sem ég
var getin hefði ástin blossað á milli þeirra og ég hefði orðið til
á ferðalagi einhvers staðar á milli austur- og vesturstrandar
Bandaríkjanna."
Faðir hennar, Páll S. Pálsson hæstaréttarlögmaður, dó fyrir
átta árum. Móðir Signýjar, Guðrún Stephensen, ólst upp í
Kanada en kom til Islands í kreppunni, sextán ára gömul. Álls
eignuðust þau hjónin átta börn og Signý minnist æskuheimilis
síns með hlýju. „Heimilið var opið og vinir okkar streymdu út
og inn.“ Faðir hennar hafði mikinn áhuga á leiklist og gerði
það að vana að fara með börnin í leikhús. „Ég fór á fyrstu
sýninguna fjögurra ára gömul og það var viss passi á afmælis-
dögum hans að hann byði okkur í leikhús. Hann langaði til að
verða leikari sem ungur maður og lærði hjá Soffíu Guðlaugs-
dóttur og Haraldi Björnssyni. Hann náði aldrei lengra en að
verða hvíslari eða í smáhlutverkum. Síðar sagðist hann hafa
fengið útrás fyrir þennan áhuga sinn sem lögmaður þótt hann
saknaði þess að hafa ekki kviðdóm.
Ég smitaðist snemma af leikhúsbakteríunni og dreymdi um
að verða leikkona. Sem barn var ég hins vegar hlédræg og til
baka því ég var fitubolla og léleg í leikfimi. Ég var kosin síð-
ust í alla leiki. Því naut ég engra sérstakra vinsælda og hafði
mig lítið í frammi. Það er þó athyglivert þegar litið er til baka
að á þessum árum leituðu galvösku foringjarnir í krakkahópn-
um til mín, ef til vill vegna þess að ég ögraði ekki stöðu þeirra
eða þau fundu hjá mér traust. Ég hlusta meira en ég tala og er
svo mikill fiskur í mér að mér finnst yfirleitt allir hafa eitthvað
til síns máls. Ég er ekki týpan sem lem í borðið nema réttlæt-
iskennd minni sé gersamlega ofboðið. Ég gekk í Melaskólann
og var síðan vikið úr Kvennaskólanum fyrir slæma hegðun.
Ég tók landspróf frá Hagaskóla og varð stúdent frá Mennta-
skólanum í Reykjavík 1969.“
Nýlega sýndi sjónvarpið upptöku af leikritinu Bubba kóng
þar sem Signý lék annað aðalhlutverkið á móti Davíð Odds-
syni. En það var á þessum árum sem áhugi hennar á leiklist
blossaði upp og það var ekki fyrr en tæpum tveimur áratugum
síðar að hún sætti sig við að hafa ekki orðið leikkona. Þess í
stað fór hún í nám í leikhúsfræðum til Kaupmannahafnar.
„Ég kynntist manninum mínum í menntaskóla. Það var vor-
ið sem ég var í fimmta bekk. Þá var ég staðráðin í að fara til
útlanda í leiklistarnám að afloknu stúdentsprófi og hafði feng-
ið inni í ítölskum leiklistarskóla. I ársbyrjun 1970 eignaðist ég
dóttur og þá fuku áformin um leiklistina út í veður og vind.
Ég hóf nám í tungumálum við háskólann en ári síðar héldum
við til Kaupmannahafnar og vorum þar í fjögur ár. Við Ólafur
Torfason höfðum gift okkur í kaþólsku kirkjunni sumarið eftir
að ég tók stúdentspróf. Hann var alinn upp í kaþólskri trú og
varð ég að ganga til prests áður og lofa því að ala börn okkar
upp í kaþólskri trú. Sú ákvörðun truflaði mig ekkert. Ég hafði
mína barnatrú en Ólafur var ekki mjög trúrækinn á þessu
tímabili. Ég ólst upp við sterka trúarvitun en amma starfaði
með Hjálpræðishernum. Það var ekki fyrr en nokkrum árum
síðar að ég tók kaþólska trú og um líkt leyti sneri Ólafur aftur
til kirkjunnar. Ég missti annað barnið mitt skömmu eftir fæð-
ingu. Það var lítil telpa sem fæddist fyrir tímann og ég ásakaði
sjálfa mig fyrir að hafa ekki farið nógu vel með mig á með-
göngunni.“ Henni vöknar um augu og hún bandar hendinni
frá. „Mér fannst sökin alfarið vera mín. Mér leið hræðilega
illa, var ráðvillt og fannst ég ómöguleg manneskja. Það var
skömmu fyrir jólin 1973 að ég gekk af tilviljun inn í kaþólska
kirkju á Nörrebro og var þá nýhafin messa. Það setti að mér
óstöðvandi grát en um leið varð ég fyrir trúarlegri uppljómun.
Mér fannst ég finna hlýju og yl frá altarinu og fá þá fyrirgefn-
ingu sem ég var að leita eftir. Frá þeirri stundu ákvað ég að
gerast kaþólsk.“ Hún verður álút þegar hún rifjar upp þennan
erfiða tíma í Kaupmannahöfn. En rúmu ári síðar var hún aftur
orðin ófrísk. „Kaþólska kirkjan leyfir ekki nema eðlilegar
getnaðarvarnir og á sjö árum eignaðist ég fjögur börn.“
Það vottar fyrir daufu brosi þegar hún lítur upp og segir:
„Það er alvarlegt mál þegar yfirlýstir kaþólikkar skilja. Ég
dýrkaði manninn minn. Leit óskaplega upp til hans. Bæði var
hann eldri en ég og svo fannst mér hann svo gáfaður og hæfi-
leikaríkur að ég var sannfærð um að einn góðan veðurdag yrði
hann frægur listamaður. Mér fannst hann gera allt betur en
ég. Hann var séníið í skólanum. Sú virðing sem ég bar fyrir
honum var í beinu framhaldi af dýrkun minni á föður mínum.
Eftir á að hyggja lít ég svo á að ég hafi aldrei verið sjálfstæð.
Fór beint úr foreldrahúsum í hjónaband og þótt baslið hafi
byrjað snemma var ég ætið rög að standa á eigin fótum. Ef til
vill áttum við að skilja löngu fyrr. Það gekk ýmislegt á í okkar
hjónabandi áður en við stigum stóra skrefið. Umburðarlyndi
kaþólskra presta gagnvart hjónaskilnaði fer svolítið eftir þeim
trúarreglum sem þeir eru aldir upp í. Sá prestur sem ég kaus
að ræða við er ungur og í hópi þeirra sem kallast heimskirkju-
prestar og er því ekki háður þeirri reglu sem hann starfar fyr-
ir. Á sama hátt eru nunnureglurnar ólíkar. Hér á íslandi eru
starfandi þrjár ólíkar reglur. Nunnurnar í Stykkishólmi til-
heyra reglu heilags Franz frá Assisi, eru glaðværar og starfa
úti á meðal fólksins. Við bjuggum í Stykkishólmi í sjö ár og
þær reyndust börnunum okkar frábærlega vel. Sánkti Jóseps-
systur starfa einnig úti á meðal fólksins en þær eru frá Þýska-
landi og eru nú flestar sestar í helgan stein. Karmelsysturnar í
Hafnarfirði lifa mest á bónbjörgum og helga sig nær eingöngu
bænahaldi.“
„Það er alvarlegt mál þegar yfirlýstir kaþólikkar skilja
Ég dýrkaði manninn minn. Leit óskaplega upp til hans.
Bæði var hann eldri en ég og svo fannst mér hann svo
gáfaður og hæfileikarfkur. . .“
68 HEIMSMYND
eftir HERDÍSI ÞORGEIRSDÓTTUR
HEIMSM1-25.