Fréttablaðið - 07.11.2015, Page 108
TónlisT
John Grant kom fram með Sin-
fóníuhljómsveit Íslands ásamt
rytmasveit. Stjórnandi Christopher
George.
HHHHH
Ég var einu sinni á rokkfestívali í
Belgíu þar sem Marilyn Manson
kom fram. Þegar hann steig fram
á sviðið var leikin byrjunin úr
hæga kaflanum í Es-dúr tríóinu
eftir Schubert. Af hverju var ekki
ljóst. Þetta er „íkonísk“ tónlist,
hún hefur heyrst í mörgum bíó-
myndum, t.d. í vampírumyndinni
Hunger. Manson hefur gefið sig út
fyrir að vera djöfladýrkandi, svo
kannski var það tengingin.
Ekki er heldur á hreinu hvers
vegna John Grant notaði prelúdíu í
cís-moll opus 3 nr. 2 eftir Rakman-
ínoff sem inngang að einu laginu
sínu. Hann kom fram með rytma-
sveit og Sinfóníuhljómsveit Íslands
á fimmtudagskvöldið á Airwaves.
Rétt eins og með Schubert þá er pre-
lúdían mjög þekkt. Hún er drunga-
leg, jafnvel spúkí. Þetta er einhver
þunglyndislegasta tónlist sem er til.
En drunginn var í skemmtilegri
mótsögn við teknókenndan hama-
ganginn sem tók við. Fram að þessu
höfðu tónleikarnir verið býsna
rólegir, en nú kvað við annan tón.
Þetta var líflegur gerningur. Teknóið
var grípandi og tilfinningastigið
magnaðist upp úr öllu valdi með
aðkomu sinfóníuhljómsveitarinnar.
Tónlist Grants var falleg. Laglín-
urnar voru einlægar og blátt áfram,
þær komu greinilega frá hjartanu.
Ýmislegt í textanum var nokkuð
groddalegt, og það var í sérkenni-
legri andstöðu við hjartnæmar
melódíurnar, sem voru allsráðandi
á undan Rakmanínoff. En að öðru
leyti voru lögin fremur hefðbundin,
það var ekkert frumlegt eða óvana-
legt við þau.
Það sem „gerði“ tónleikana var
hversu vel tónlistin var flutt. Mjúk
baritonrödd Grants var ákaflega
fögur, og hún var alltaf tandurhrein.
Rytmasveitin var líka pottþétt, og
leikur Sinfóníunnar var stórbrotinn.
Útsetningarnar voru hóflegar, aðal-
lega liggjandi hljómar sem juku á
ástríðukennda stemninguna. Sumt
minnti jafnvel á kvikmyndatónlist
John Barry heitins. Það var eitt-
hvað mjög sjarmerandi við það allt.
Grant sjálfur, sem hefur búið á
Íslandi í nokkrun tíma, virðist vera
viðkunnanlegur náungi. Hann er
HIV-smitaður og hefur háð baráttu
við Bakkus og haft betur. Það er
eitthvað brothætt og mannlegt
við hann sem gerir bæði hann
og tónlist hans aðlaðandi. Við-
tökurnar á tónleikunum í Eldborg
voru í samræmi við það. Fólk
bókstaflega æpti af hrifningu og
undirritaður var þar á meðal.
Jónas Sen
niðursTaða Stórgóðir tónleikar
Johns Grant og Sinfóníuhljómsveit-
ar Íslands. Tónlistin var heillandi,
flutningurinn framúrskarandi.
Stórbrotinn og ástríðukenndur
Bækur
Gildran
HHHHH
Höfundur Lilja Sigurðardóttir
JPV
Oddi
Kápuhönnun Halla Sigga K
344 bls.
Íslenskir spennusagnahöfundar
hafa notið töluverðrar velgengni
á erlendri grund undanfarin ár og
þessi velgengni hefur orðið til þess
að fleiri og fleiri rithöfundar hafa
árætt að leggja fyrir sig spennu-
sagnaskrif sem þóttu varla teljast
til alvöru ritstarfa hérlendis lengi
framanaf. Þeir og þær hafa fengið
tækifæri til að þjálfa sig í þessari
listgrein sem er ansi harður hús-
bóndi þar sem kröfuharðir les-
endur krefjast að minnsta kosti
einnar bókar á ári og gamalla og
gróinna hugmynda í stöðugt nýjum
búningum.
Lilja Sigurðardóttir er einn þeirra
íslensku höfunda sem hefur fengið
útgáfusamninga við erlend fyrir-
tæki en þriðja bók hennar, Gildran,
kom út á dögunum. Sagan gerist
eldgosaveturinn 2010-2011 og
fjallar um Sonju, sem eftir erfiðan
skilnað stendur uppi eignalaus og
án forræðis yfir syni sínum. Hún
skuldar stórfé sem aðeins býðst
að greiða á einn veg: með því að
smygla kókaíni til landsins. Hún
lítur á þessa iðju sem neyðarúr-
ræði rétt á meðan hún kemur undir
sig fótunum en smyglhringurinn
sem hefur leitt hana í þessa gildru
hefur annað í huga. Inn í þessa sögu
fléttast svo ástarsamband Sonju
við bankakonuna Öglu, sem milli
stormasamra ástarfunda situr í yfir-
heyrslum hjá sérstökum saksókn-
ara, og saga tollvarðarins Braga sem
þrjóskast við að fara á eftirlaun þar
sem konan hans er komin á elli-
heimili og hann hefur að engu að
hverfa þegar hann kemur heim.
Sagan er spennandi og söguþráð-
urinn vel ofinn, persónusköpun er
skýr og vel tekst að byggja upp og
halda spennu. Einkalíf persóna
er oft miðlægt í glæpasögum og
í þessu tilfelli er skemmtileg til-
breyting að fá að skyggnast inn í
ástarsamband lesbískra elskenda,
einkum þar sem önnur er hikandi
við að gangast við tilfinningum
sínum og er því sífellt að biðja hina
um að segja sér „lesbíuleyndarmál“
sem eru ýmist fyndnar klisjur eða
staðreyndir sem ýmist koma þeirri
forvitnu á óvart eða setja hana úr
jafnvægi.
Helsti galli bókarinnar (og það
má vissulega deila um hvort það er
galli) er að hún klárast ekki alveg
eins og formúlan segir til um. Les-
andinn býr sig undir að allir þræðir
sögunnar komi saman í lokin þar
sem lausn á einu vandamáli hrindir
af stað keðjuverkun sem leysir öll
hin eins og á vanda til að gerast í
glæpasögum af því tagi þar sem
sjónarhornið er ekki hjá lögregl-
unni (það er ein lögga nafngreind
í sögunni og hún kemur tvisvar
við sögu í stutta stund) heldur hjá
glæpamanninum sem hefur samúð
lesandans óskipta. Endirinn er
að mörgu leyti ófullnægjandi og
þræðirnir koma ekki saman eins
og á þann hátt sem lesandinn óskar
sér. Í sögu þar sem ótrúlegar en
vissulega haganlega fléttaðar tilvilj-
anir ráða stundum framvindunni
er næstum eins og ekki hafi gefist
nægur tími til að ganga frá lausum
endum og hnýta þá saman. En svo
má aftur hrósa höfundi fyrir að
leika sér með hefðina og láta ekki
kröfur fastsetts forms og ímynd-
aðra lesenda stjórna sköpun sinni
og skrifum.
Og þetta truflar auðvitað ekki
ánægjuna af því að lesa góða glæpa-
sögu. Brynhildur Björnsdóttir
niðursTaða Skemmtileg og
spennandi glæpasaga og endirinn
kemur á óvart.
Kókaínsmygl og lesbíuleyndarmál
Bæjarlistamaður
Seltjarnarness 2016
Menningarnefnd Seltjarnarness auglýsir eftir umsóknum frá
listamönnum búsettum á Seltjarnarnesi og/eða rökstuddum
ábendingum um nafnbótina Bæjarlistamaður Seltjarnarness
2016.
Bæjarlistamaður Seltjarnarness skal vera reiðubúinn að vinna
með menningarsviði bæjarins að því að efla áhuga á list og
listsköpun á Seltjarnarnesi og taka þátt í viðburðum bæjarins
með það að leiðarljósi.
Í umsókninni skulu koma fram ítarlegar upplýsingar um
náms- og starfsferil viðkomandi og hugmyndir um á hvern
hátt nýta eigi styrkinn við listsköpun.
Nafnbótinni fylgir starfsstyrkur að upphæð einni milljón króna.
Umsækjendur eru beðnir um að haga umsóknum í samræmi
við reglur um Bæjarlistamann sem finna má á heimasíðu
bæjarins www.seltjarnarnes.is.
Umsóknum og/eða ábendingum skal skilað á Bæjarskrifstofur
Seltjarnarness, Austurströnd 2, 170 Seltjarnarnesi merkt:
„Bæjarlistamaður 2016“ eða á netfangið
soffia.karlsdottir@seltjarnarnes.is fyrir 25. nóvember.
Menningarnefnd Seltjarnarness
www.seltjarnarnes.is
„Tónlist Grants var falleg. Laglínurnar voru einlægar og blátt
áfram og þær komu greinilega frá hjartanu,“ segir í dómnum.
Mynd/ALexAnder MATuKnO
7 . n ó v e m B e r 2 0 1 5 l a u G a r D a G u r64 m e n n i n G ∙ F r É T T a B l a ð i ð
menning