Morgunblaðið - Sunnudagur - 15.09.2019, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - Sunnudagur - 15.09.2019, Blaðsíða 4
HEIMURINN 4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15.9. 2019 Langar þig í ný gleraugu! Smáralind – Sími 517 0317 – www.plusminus.is PLUSMINUS | OPTIC Válegt andlát Dags Hammar-skjöld, framkvæmdastjóraSameinuðu þjóðanna, árið 1961 er enn hulin ráðgáta. Svíinn Hammarskjöld var á leið til Ndola í Ródesíu (nú Sambía) 18. september 1961 í því skyni að stilla til friðar í Kongó þegar vél hans hrapaði. Í fyrstu var sagt að um slys hefði verið að ræða, en brátt komu fram kenn- ingar og vísbendingar um að vélinni hefði verið grandað. Mikið var í húfi. Kongó hafði ný- verið öðlast sjálfstæði og í Katanga hafði sjálfstæðisleiðtoginn Moise Tshombe lýst yfir sjálfstæði. Þar voru miklar auðlindir og var bresk- belgíska námafyrirtækið Union Mi- niere eins og ríki í ríkinu. Það hefði verið mikið högg fyrir land með nýfengið sjálfstæði að missa Katanga og yfirvöld í Kongó biðluðu til Sameinuðu þjóðanna um hjálp. Friðargæsluliðar voru sendir á vett- vang og voru átök milli þeirra og liðs- manna Tshombes ástæðan fyrir för Hammarskjölds, sem var í óþökk bandarískra og breskra stjórnvalda. Danski kvikmyndagerðarmaður- inn Mads Brügger fór að vinna að gerð heimildarmyndar um dauða Hammarskjölds eftir að sænskur hjálparstarfsmaður, Göran Björkdal, greindi frá því að hann teldi að Hammarskjöld hefði verið ráðinn af dögum. Björkdal fann dældaða málmplötu með götum, sem hefðu getað verið eftir byssukúlur, úr fór- um foreldra sinna þegar hann var að hjálpa þeim að flytja árið 2007. Plöt- una hafði faðir hans fengið þegar hann fór til Ndola á vegum Samein- uðu þjóðanna árið 1975 og var sagt að hún væri úr vél Hammarskjölds. Björkdal fór til Ndola og ræddi við vitni að slysinu. Frásagnir þeirra urðu til þess að hann fór að sökkva sér ofan í skjöl um málið og fjalla um það opinberlega. Brügger er þekktur fyrir að fara eigin leiðir, beita háði til að afhjúpa viðfangsefnið og sigla undir fölsku flaggi líkt og í myndinni Sendiherr- anum (The Ambassador). Þar kaupir hann sér á svörtum markaði skilríki sendiherra Líberíu og sýnir hversu auðvelt er að komast inn á gimsteina- markaðinn með þau í höndum. Í Óleyst mál Hammarskjölds (Cold Case Hammarskjöld) fylgir hann Björkdal eftir í leit hans að vísbend- ingum. Í upphafi segir Brügger með sterkum dönskum hreim að annað- hvort sé hér á ferð „mesta morðgáta heims eða heimskulegasta samsær- iskenning heims“. Leynileg málaliðasamtök Liggur slóðin fljótlega til samtaka, sem kalla má Hafrannsóknastofnun Suður-Afríku (South African Insti- tute for Maritime Research eða SAIMR), leynilegra málaliðasamtaka með það að markmiði að viðhalda völdum hvíta mannsins í Afríku. Nafn samtakanna kom fram í störfum sannleiks- og sáttanefndar Suður- Afríku í kjölfar endaloka aðskilnaðar- stefnunnar. Í skjölum var gefið til kynna að SAIMR hefði verið viðriðið ráðabrugg um að ráða Hammar- skjöld af dögum. Erfitt er að átta sig á hvort SA- IMR hefur verið raunverulegt afl á bak við tjöldin, eða áhrifalaus vett- vangur firrts leiðtoga þeirra. Brügger kemur fram í hvítum föt- um líkt og Keith Maxwell, leiðtogi SAIMR, og gengur um með hvítan, barðastóran hálfkúluhatt, eins og dæmigert var fyrir hvíta manninn á nýlendutímanum. Hann ræður einnig til sín tvær svartar konur í ritarastörf og sýnir í myndinni þegar hann les þeim fyrir og spyr þær álits á því, sem hann hefur fram að færa. Um miðja mynd játar Brügger allt í einu að hann hafi aldrei haft áhuga á Hammarskjöld og enga trú haft á verkefninu og þess vegna hafi hann beitt brögðum til að gera myndina áhugaverða: „Fyrir mér var Dag Hammarskjöld fyrst og fremst að- göngumiði að öllu því sem mér finnst virkilega skemmtilegt – að þefa uppi belgíska málaliða, hrollvekjandi sög- ur af hvítklæddum illmennum, orð- rómar um afrísk leynisamtök.“ En þá hafi allt breyst. Fyrirspurnir Brüggers um SAIMR leiða hann til Alexanders Jones, sem var félagi í samtökunum. Jones segir að sam- tökin hafi grandað vélinni. Sprengjan í vitnisburði hans er þó að á síðustu tveimur áratugum tuttugustu ald- arinnar hafi þau tekið þátt í aðgerð- um til þess að breiða út alnæmi með bólusetningum meðal svartra íbúa Afríku. „Við vorum í stríði,“ segir Jones í myndinni. „Svart fólk í Suður- Afríku var óvinurinn.“ Myndin fékk viðurkenningu á Sundance-kvikmyndahátíðinni þegar hún var frumsýnd þar í janúar, en viðbrögðin hafa ekki verið á einn veg. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að þar sé ásökunum slegið fram með óá- byrgum hætti. Tíðni alnæmis er mjög há víða í Afríku, ekki síst í Suður- Afríku, og ýmsar samsæriskenningar hafa komið fram um uppruna sjúk- dómsins. Þá sé tortryggni gegn bólu- setningum næg fyrir og vafasamar fullyrðingar um að reynt hafi verið að breiða út alnæmi meðal svartra með bólusetningum bæti ekki úr skák. Dregið hefur verið í efa að það hafi verið hægt tæknilega að breiða út al- næmi vísvitandi. Á þeim tíma hafi að- eins verið hægt í örfáum rannsóknar- stofum í heiminum að leggja grunn að slíku og nánast útilokað að samtök eins og SAIMR hafi ráðið við slíkt. Trúverðug frásögn? Í New York Times var frásögn Jones dregin í efa og látið að því liggja að Jones hefði í upphafi neitað að al- næmisaðgerðin hefði verið til staðar hjá samtökunum. Hann hefði hins vegar sagt frá aðgerðinni þegar við- talið var tekið upp eftir að hafa fengið upplýsingar hjá kvikmyndagerðar- mönnunum. Brügger viðurkenndi í samtali við fréttaveituna AFP að upplýsingar „gætu hafa smitast á milli“ vegna þess að tökuliðið varði það miklum tíma með Jones. „En ég veit fyrir víst að kjarninn í því sem hann segir okkur er ekki eitt- hvað sem við mötuðum hann á,“ sagði hann og bætti við að það væri dæmi- gert að uppljóstrarar „opnuðu sig og segðu meira eftir því sem tíminn liði“. Brügger sagði að hann hefði velt vandlega fyrir sér hvaða skaða full- yrðingin um bólusetningarnar gæti valdið, en ákveðið að það sem Jones hefði að segja þyrfti að birtast. Aðferð Brüggers setur svip á myndina og verður á köflum erfitt að taka hana alvarlega þrátt fyrir alvar- leika efnisins. Samsæriskenningarn- ar eru settar fram, en með kúnstum leikhússins er gefið í skyn að þeim beri að taka með fyrirvara. Myndin Óleyst mál Hammar- skjölds verður sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, RIFF, sem hefst 26. október. Leitað í braki vélarinnar, sem Dag Hammarskjöld fórst með í Sambíu 13. september 1961. AP Danski kvikmyndagerðarmaðurinn Mads Brügger hugðist gera mynd um það hvort Dag Hammar- skjöld, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefði verið ráðinn af dögum 1961, en slóðin leiddi hann að ráðabruggi hvítra málaliða um að breiða út alnæmi í Afríku með bólusetningum. Myndin Óleyst mál Hammarskjölds verður sýnd á RIFF. Karl Blöndal kbl@mbl.is Dag Hammarskjöld, framkvæmda- stjóri Sameinuðu þjóðanna, ásamt Cyrille Adoula, forsætisráðherra Kongó, og Antoine Gizenga, vara- forsætisráðherra, í Leopoldville í Kongó 1961. AP Á slóð samsæriskenninga í Afríku Mads Brügger leikstjóri myndarinnar Óleyst mál Hammarskjölds. AFP

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.