Fréttablaðið


Fréttablaðið - 14.12.2002, Qupperneq 24

Fréttablaðið - 14.12.2002, Qupperneq 24
24 14. desember 2002 LAUGARDAGUR Margrét Sverrisdóttir hefurverið framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins frá stofnun hans 1998. Á þeim tíma hefur fylgi flokksins löngum mælst lítið í skoðanakönnunum og ósjaldan hef- ur því verið spáð að saga flokksins væri á enda. Margrét neitar því þó að erfitt sé að starfa við slíkar að- stæður, hún þekki einfaldlega ekk- ert annað. „Við höfum alltaf sigrast á skoðanakönnunum. Nokkrum dögum fyrir kosningar vorið 1999 var Gallup að mæla okkur með ein- hver 2 til 2,5%. Þá fengum við 4,2% og náðum inn tveimur mönnum. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor var alveg það sama uppi á ten- ingnum. Nokkrum dögum fyrir kosningar mældumst við þannig að við áttum ekki að vera með mann inni. Það kom mér reyndar á óvart þar sem ég var alveg sannfærð um að við værum komin upp í svona fimm prósent miðað við þann fjöl- da fólks sem ég var að eiga sam- skipti við.“ Þeir voru ekki margir sem könnuðust við Margréti þegar hún tók til starfa hjá Frjálslynda flokknum nokkrum mánuðum fyrir síðustu alþingiskosningar. Hún hafði þá starfað um fimm ára skeið að samstarfsverkefni menntamála- ráðuneytisins og Íþrótta- og tóm- stundaráðs á vegum Evrópusam- bandsins þar sem unnið var að menningarlegum ungmennaskipt- um. „Það var mikill reynsluskóli að kynnast Evrópusambandinu svolít- ið innan frá. Þó svo ég hafi ekki orðið mjög hrifin af öllu sem ég sá þarna var þetta mjög skemmtilegt. Ég var í raun að móta þetta starf hér á Íslandi. Ég byrjaði með tóma tölvu og þurfti að byggja upp landsskrifstofu hér á landi.“ Margrét segir að í raun hafi hún notið góðs af þessu eftir að hún tók til starfa hjá Frjálslynda flokknum. Það mætti jafnvel segja að hún hafi verið í starfsþjálfun þarna sem hafi nýst henni vel þegar kom að því að byggja upp nýjan flokk. „Ég stóð frammi fyrir því að stofna stjórnmálaflokk. Það var heilmikið átak og er enn. En ég held að það skemmtilega við að vera í svona litlum flokki sé að þurfa að berjast fyrir sínu á öllum vígstöðvum.“ Fiskað með pabba fyrir vestan Þegar blaðamaður hringdi í Mar- gréti síðasta sumar var hún í fríi fyrir vestan og rétt komin í land. Hún hafði þá farið á sjó með Sverri Hermannssyni, föður sínum, til að veiða í soðið. „Við hjónin eigum gamlan bóndabæ, Kirkjubæ við Skutulsfjörð, og mamma og pabbi eiga með móðursystur minni sum- arbústað sem er í 200 metra fjar- lægð. Við pabbi erum því í nánu samneyti allt árið. Þangað förum við til að hvíla okkur og það er lífs- spursmál fyrir mig að komast í sveitina. Mér finnst alveg meiri- háttar að fara út á trillu. Við höfum ekki verið að veiða mikið, við höfum tekið smávegis af þorski, saltað og borðað á veturna. Þetta er kónga- fæða.“ „Það skiptir mig rosalega miklu að komast þangað. Ég er tarna- manneskja, ég get unnið eins og skepna en svo vil ég líka taka frí þar sem ég kúpla mig yfir í eitthvað allt annað. Þannig hleð ég batteríin upp á nýtt. Það gæti hvarflað að fólki að það geti verið erfitt fyrir mæðgin að vinna svo náið saman allan ársins hring. Margrét segir að svo sé ekki, samstarfið hafi gengið mjög vel. „Ég ætla ekki að leyna því að við erum skapmikil og tökumst stund- um kröftuglega á. En samstarf okk- ar pabba er virkilega gott. Ég mæli samt ekki með því að hjón vinni saman. Ég prófaði einu sinni að vinna með manninum mínum, ég bæði réð hann og eiginlega rak hann líka,“ segir Margrét og hlær áður en hún útskýrir að fólk sé stundum erf- iðara við þá sem standa því næst, aðrir komist upp með meira. „Við pabbi erum miklir vinir og það hafa ekki komið upp nein leiðindi og aldrei þannig að ég hugsi að ég nenni ekki að vinna með honum lengur.“ Margrét segir að það hafi hvarfl- að að sér að pabbi hennar yrði leið- astur á sér af öllum börnum sínum, einfaldlega vegna þess hversu mik- ið þau vinni saman. Hann hafi þó aldrei haft orð á því. „Við höfum í mörg ár farið á skytterí saman og ég var farin að fara með honum í laxveiði þegar ég var unglingur,“ segir Margrét og kveðst hafa lært mikið af föður sínum, sem sé mikill náttúruunnandi. „Ég elti hann eigin- lega eins og hundur og naut svo sannarlega góðs af þeirri leiðsögn allri.“ Skítadjobb gagnvart fjölskyldunni Þegar Margrét var 13 ára var Sverrir faðir hennar kosinn á þing þar sem hann sat næstu 17 árin, um skeið sem ráðherra. Margrét þekkti því til þess af eigin reynslu áður en hún tók að sér starf framkvæmda- stjóra Frjálslynda flokksins að stjórnmálin geta tekið allan tíma manna. Það liggur því beint við að spyrja hana hvort reynslan af því hafi ekki orðið til að draga úr henni kjarkinn að feta þessa leið sjálf. „Jú, ég get alveg viðurkennt það. Þetta er algjört skítadjobb gagnvart fjölskyldu,“ segir Margrét og bend- ir á aðra starfsgrein sem ekki sé sniðin að fjölskyldufólki. „Hvað segja leikarabörnin ekki? Þau við- urkenna að það hafi verið hundfúlt að foreldrarnir væru alltaf að vinna á kvöldin og um helgar. Samt sogast þau inn í þetta. Það er það sem þetta snýst um. Maður fær brennandi áhuga á þjóðmálunum og þá verður ekki aftur snúið.“ Þó ekki séu nema rétt rúmlega fjögur ár síðan Frjálslyndi flokkur- inn var stofnaður hefur mátt merkja vissar breytingar á flokkn- um. Þegar hann kom til sögunnar á haustdögum 1998 var almennt litið á hann sem kvótaflokk, flokkinn hans Sverris. Hvort tveggja hefur breyst nokkuð, fleiri komið að og aðrar áherslur orðið meira áber- andi, eins og sást ef til vill best í fé- lagsmála- og umhverfisáherslu flokksins í borgarstjórnarkosning- unum síðasta vor. Margrét neitar því þó alfarið að velferðaráherslan sé nýtilkomin. „Hún var alltaf fyrir hendi, annars hefði ég líklega ekki verið með.“ Framboð flokksins í sveitar- stjórnarkosningum í vor sýndi á honum nýja hlið. „Ég lagði mjög mikið upp úr því að við værum með í sveitarstjórnarkosningum svo flokkurinn næði betri fótfestu, gleymdist ekki. Mér fannst takast mjög vel til,“ segir Margrét, mat sem varla verður mótmælt í ljósi þess að flokkurinn náði inn manni í báðum sveitarfélögunum þar sem hann bauð fram F-lista, í Reykjavík og á Ísafirði. Í kosningabaráttunni í vor birtist að sumu leyti mynd af Frjálslynda flokknum sem breiðari stjórnmálahreyfingu en áður, með fjölþættari áherslum. Margrét seg- ist hafa verið sannfærð um þessi áhrif áður en að kosningabaráttunni kom, enda hafi það sýnt sig að það fólk sem kom að kosningabarátt- unni hafi að nokkru leyti verið ann- ar hópur en hafði starfað í flokkn- um fram að því. Þá hafi meðal ann- ars verið mikið af duglegum konum sem komu að starfi flokksins. Skorast ekki undan ábyrgð Fyrr í haust voru formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi kallaðir saman til um- ræðna í Kastljósi Sjónvarpsins. Það vakti athygli að þá mættu fjórir for- menn flokka og einn framkvæmda- stjóri, Margrét. Þar sem Sverrir Hermannsson hefur kveðið upp úr um að hann hætti á þingi næsta vor hvarflaði að sumum að verið væri að kynna til sögunnar næsta for- mann Frjálslynda flokksins. „Ég er búin að helga þessum flokki krafta mína í fimm ár. Ef flokksmenn óska eftir því að ég axli þá ábyrgð skor- ast ég ekki undan því,“ segir Mar- grét. Þátttaka hennar í sjónvarps- umræðunum var þó ekki í þeim til- gangi að kynna hana sem formanns- efni, segir hún, heldur var ástæðan sú að hvorki Sverrir né Guðjón A. Kristjánsson, varaformaður flokks- ins, komust í þáttinn. Því hafi staðið upp á hana að tala máli flokksins. „Okkur þótti það alls ekki slæmt, Sverrir er að hætta og því allt í lagi að sýna nýtt andlit.“ Þó að ekki sé búið að ganga frá framboðslistum Frjálslynda flokks- ins dylst fáum að Margrét muni leiða lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Sjálf hefur hún áður lýst áhuga á því að fara fram í Reykjavík norður á síð- um Fréttablaðsins. Því er rétt að staldra aðeins við áherslur stjórn- málamannsins Margrétar Sverris- dóttur. „Þær eru fyrst og fremst að hnekkja þessu kvótakerfi, stöðva framgang þess og fara að vinda ofan af því. Við höfum mjög skýra stefnu í því. Síðan eru það velferð- armálin, það skiptir mig miklu máli að allir eigi jafnan aðgang að heil- brigðiskerfi og menntakerfi og vel- ferðarkerfinu yfirleitt án tillits til efnahags.“ Hún lýsir áhyggjum af því að klíkubundin samtrygging sé að aukast mjög mikið og þar finnst henni fjölmiðlar eiga þátt í málum með því að spila með stjórnvöldum. Hún nefnir líka annað sem tengist stjórnvöldum og samtryggingu. „Mér finnst að valdhafarnir eigi að vera berskjaldaðir gagnvart fólkinu í landinu. Mér finnst óskaplega mik- ilvægt að fjármál flokkanna verði gerð opinber. Við erum eini flokkur- inn sem er með opið bókhald.“ Þá lýsir Margrét vonbrigðum sínum með það sem hún kallar hernaðar- brölt stjórnvalda og vísar þar til þess að stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að flytja hergögn fyrir Atl- antshafsbandalagið ef kemur til átaka. „Mér fannst æðstu fulltrúar þjóðarinnar bregðast trausti okkar.“ Háleit markmið fyrir komandi kosningar „Í sumum kjördæmum gætu framboðslistar verið tilbúnir í janú- ar, annars staðar vitum við að það tekur lengri tíma,“ segir Margrét aðspurð um undirbúning flokksins fyrir komandi kosningar. „Það er al- veg ljóst að Guðjón leiðir listann í Norðvesturkjördæmi. Hann er þingmaður þar, þannig að það er ekkert leyndarmál. Annars staðar er það ekki alveg ljóst. Magnús Þór Hafsteinsson og Grétar Mar Jóns- son sækjast til dæmis báðir eftir efsta sæti í Suðurkjördæmi. Það eru margir góðir og gegnir menn komn- ir í þennan pott. Ég finn fyrir því að fólk hefur mikinn áhuga á flokknum og er alveg sannfærð um að hann er að vaxa, skítt með allar skoðana- kannanir.“ Skoðanakannanirnar gefa ekki tilefni til bjartsýni fyrir hönd Frjálslynda flokksins nú frekar en fyrir fyrri kosningar sem hann hef- ur tekið þátt í. Margrét er þó glað- beitt og setur sér háleit markmið fyrir komandi kosningar þótt hún geri sér grein fyrir að baráttan geti orðið strembin. „Ég geri ráð fyrir því að baráttan verði þannig að við séum að berjast við þetta fram á síðustu stundu og að því verði jafn- vel lýst yfir í fjölmiðlum að við náum ekki inn manni. Við þurfum ekki að ná kjördæmakjörnum þing- manni. Lykilatriðið er að við þurf- um ekki að ná nema fimm prósent- um á landsvísu til að ná inn tveimur til þremur uppbótarþingmönnum. En ég stefni á tíu prósent. Ég er að stefna á fimm til sex manna þing- flokk næsta vor.“ Þetta eru nokkuð háleitari markmið en flestir aðrir hefðu gert sér og getur blaðamaður ekki annað en haft orð á því að það skorti ekki baráttuhuginn. „Ég er bara svona,“ svarar Margrét. „Ég get ekki að því gert. Nú, komi annað á daginn þá fer ég bara vestur í lok maí að róa. Þá er ég búin að leggja mitt af mörkum. Ég er tilbúin að leggja mjög mikið á mig á þessari vorönn vegna þess að ég trúi því að við séum að berjast fyrir svo mikil- vægu réttlætismáli, sem er það að vinda ofan af þessu kvótakerfi sem er mesta óréttlæti í íslenskri pólitík fyrr og síðar.“ brynjolfur@frettabladid.is „Ég held að það skemmtilega við að vera í svona litlum flokki sé að þurfa að berjast fyrir sínu á öllum vígstöðvum.“ ,, Glaðbeitt og setur sér háleit markmið Margrét Sverrisdóttir ræðir stöðu Frjálslynda flokksins, samstarfið við föður sinn, áherslur sínar í pólitík, möguleikann á að taka við formennsku í flokknum og komandi þingkosningar sem ráða úrslitum um hvort flokkurinn lifir eða deyr. FRAMKVÆMDASTJÓRI Í LITLUM FLOKKI „Lykilatriðið er að við þurfum ekki að ná nema fimm prósentum á landsvísu til að ná inn tveimur til þremur uppbótarþingmönnum. En ég stefni á tíu prósent.“ FR ÉT TA B LA Ð IÐ /R Ó B ER T

x

Fréttablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.