Hugur og hönd - 01.06.1986, Síða 15
ull frá 18. öld benda einnig til, að þá
hafi mislitt fé verið mun algengara en
á 20. öldinni.
Hér á landi var mótuð sú stefna í
sauðfjárkynbótum á fyrsta áratug 20.
aldarinnar, að leggja bæri áherslu á
hvítt fé, sem væri gult á haus og fótum,
en forðast allt mislitt fé.
Stefna þessi kom erlendis frá og
hafði lengi verið við lýði þar. Hún
hefur haft veruleg áhrif bæði hér og
erlendis í þá átt að fækka mislitu fé, en
fjölga hvítu. Þess vegna er ekki hægt
að nota litahlutföll í íslenska fénu í
dag til að rekja uppruna fjárins. Hins
vegar geta einstakir litaerfðavísar
gefið bendingu um skyldleika kynja,
eftir því hvort þeir koma fyrir í kynj-
unum eða ekki.
íslenska féð er af norður-evrópska,
hyrnda stuttrófufénu. Þess vegna þarf
ekki að leita út fyrir stuttrófukyn
nágrannalandanna, þegar leita skal
uppruna íslenska fjárins.
Það afbrigði stuttrófufjárins, sem
líkist íslenska fénu í flestum ytri ein-
kennum, er norska stuttrófuféð, sem
ýmist er kallað spælsau (dindilsauður)
eða gammelnorsk sau á norsku. í báð-
um þessum fjárkynjum koma fyrir
hyrndir hrútar og hyrndar ær og koll-
óttir eða örðóttir hrútar og kollóttar
ær.
í báðum fjárkynjunum koma fyrir
litirnir botnótt og golsótt, og íslenska
gerðin af gráum lit finnst í þeim báð-
um. Mórautt litarefni finnst í báðum
fjárkynjum, og svartur og mórauður
litur kemur fyrir í þeim báðum.
Þessi samanburður gefur sterklega
til kynna, að íslenska féð sé að megin-
stofni ættað frá Noregi.
Allmargar heimildir eru til um inn-
flutning á fé til íslands síðustu þrjár
aldirnar. Sauðfjársjúkdómar hafa
borist til landsins með innflutta fénu í
mörgum tilvikum og niðurskurður á
hinu sýkta fé til að útrýma pestunum
hefur um leið útrýmt innflutta fénu.
Til eru nokkur dæmi þess, að fé hafi
verið flutt inn, án þess að sjúkdómar
hafi borist með því, en áhrif þess inn-
flutnings á íslenska fjárstofninn hafa
verið lítil.
Sérkenni á íslenskri ull
Ull og gærur hafa verið íslending-
um mikilvæg hráefni allt frá land-
námi.
Vöruvaðmál mun hafa verið lögleg-
ur gjaldmiðill allt frá landnámsöld og
það virðist hafa verið aðalverðmælir-
inn frá 11. öld. Sett voru nákvæm
ákvæði um gerð þess. Einnig voru
lambaskinn verslunarvara á þessum
tíma og klippingar af geldingum.
Enn eru ull og gærur mikilvæg hrá-
efni fyrir útflutningsiðnað okkar, þó
að vörur úr þeim séu ekki lengur verð-
mælir.
Helstu sérkenni íslensku ullarinnar
eru þau, að hún skiptist annars vegar
í langt og fremur gróft tog, sem oft er
gljáandi, og hins vegar í fremur stutt,
mjög fínt, mjúkt, létt og fjaðrandi þel.
Gerð íslensku ullarinnar virðist í
stórum dráttum vera hin sama nú og
var um landnám, þ.e. þel, tog og hær-
ur. Má dæma það af fornleifum.
Brúða úr ullarbandi frá 9. öld, sem
fannst í Osebergskipinu í Noregi, er úr
ull af þessari gerð og sömuleiðis fatn-
aður úr ull frá því um 1300, sem fannst
við uppgröft úr kirkjugarðinum í
Herjólfsnesi á Grænlandi.
Tóvinnukonur á 9. öld hafa kunnað
að taka ofan af ull, því að í myndvefn-
aði í Osebergskipinu var ullarþráður,
sem, að því er virtist, var úr hreinu
þeli.
íslendingar hafa nauðþekkt eðli ull-
ar og skinna meðan unnið var úr öllu
heima. Það sýnir fróðlegur orðalisti
um ull frá tímum heimilisiðnaðarins.
Halldóra Bjarnadóttir telur meðal
annars upp eftirfarandi orð í bók
sinni: Vefnaður d íslenskum heimil-
um:
„Reyfi, vorull, haustull, þel, tog,
hærur, lintog, línhært tog, star-
hært tog, þelbólgin ull, hrísin ull,
tása, kemba, fylling, upptíningur,
ullarhnat, illhærur, undirkemba,
garðaló og öfugsnoðí'
Það var eðlilegt að íslenska þjóðin
þekkti ullina náið því að hún var uppi-
staða í fatnaði þjóðarinnar á umliðn-
um öldum.
Áætlað hefur verið að þurft hafi 5
kg af þveginni ull á ári til að klæða
hvern heimilismann. Þá hefur einnig
verið áætlað, að á 18. öld hafi 11000
manns á íslandi eða 22% þjóðarinnar
verið bundnir við tóvinnu 7 mánuði á
ári.
Þekking manna á gærum hefur
vafalaust verið veruleg, meðan allar
gærur voru rakaðar, ullin notuð í tó-
vinnu og bjórinn í ýmiss konar skinn-
fatnað.
Heimilisiðnaður úr skinnum náði
aftur á móti aldrei sama stigi listfengis
eins og tóvinnan. Hins vegar kunni
fólk að verka skinn með ýmsu móti og
þekkti vel kosti og galla á skinnum.
Þannig er orðið tvískinnungur gamalt
í málinu og haft um það fyrirbæri þeg-
ar hrútsgæra flagnar í lög.
íslendingar marka fé sitt á eyrum og
helga sér kind með lögskráðu marki.
Fjármörk eru til í ýmsum löndum
Evrópu, en hvergi notuð á eins afger-
andi hátt til að helga eignarrétt eins og
hér á landi.
Það er athyglisvert, að fjármörk
hafa verið algeng á Hjaltlandi og í
Orkneyjum allt fram á þessa öld. Við
samanburð á mörkum þar og á íslandi
kemur í Ijós, að mörg markanöfn á
þessum skosku eyjum eru hin sömu og
á íslandi.
Þess ber að minnast, að Norðmenn
áttu mikil ítök á þessum eyjum fyrir
og um landnám á íslandi og þeir réðu
fyrir Hjaltlandi í mörg hundruð ár.
Markanöfnin sem eru eins á íslandi
og Hjaltlandi sýna, að bæði eiga rót
sína að rekja til sameiginlegrar marka-
hefðar.
Þar með er ljóst, að sauðfjármenn-
ingu þá, sem landnámsmenn fluttu
með sér til nýrra heimkynna, má rekja
aftur í gráa forneskju löngu fyrir fund
íslands.
Stefán Aðalsteinsson
Heimildir
Ástæða er til að vísa í tvær ritgerðir um
hliðstætt efni því, sem hér er tekið saman,
en í báðum þeim ritgerðum er að finna all-
ítarlegar heimildaskrár. Fytri greinin er:
„Uppruni íslenskra húsdýra", sem birtist í
Eldur er í norðri, afmælisriti til heiðurs
Sigurði Þórarinssyni sjötugum (Sögu-
félagið, 1982). Síðari greinin er erindi sem
birtist í ritinu Ráðunautafundur Btínaðar-
félags Islands og Rannsóknastofnunar
landbúnaðarins 1986.
1. Sauðfé í rétt.
Ljósmynd: Björgvin Pálsson.
HUGUR OG HÖND
15