Hugur og hönd - 01.06.1986, Blaðsíða 17
eftir viðtali við Margréti í því skyni að
fá upplýsingar um tóvinnukennsluna í
Laugarnesskólanum.
Hvenær byrjaði tóvinnukennsla í
Laugarnesskólan um ?
Það var á skólaárinu 1973—74. Ár-
ið 1974 minntust íslendingar með
ýmsum hætti 1100 ára búsetu í landi
sínu. I grunnskólunum leituðust menn
við að leggja fram sinn skerf til hátíða-
haldanna. Meðal annars var reynt
að tengja hinar ýmsu kennslugreinar
við reynslu löngu liðinna alda, eftir
því sem efni stóðu til. Ég hygg að slík-
ar hugmyndir hafi verið kveikjan að
þvi að kennsla í tóvinnu var tekin upp
í Laugarnesskólanum.
Var það stór hópur nemenda sem
fékk tækifæri til að læra tóvinnu?
Nei, ekki var hann nú stór, ætli það
hafi ekki verið 7 eða 8 stúlkur 11 til 12
ára sem tóku þátt í þessum vinnu-
brögðum til að byrja með og fengu til
þess tvær stundir á viku.
Atti skólinn nauðsynleg tæki til tó-
vinnu?
Það voru keyptir tveir rokkar til
skólans. Smíðakennari skólans smið-
aði fjórar halasnældur. Einir kambar
voru keyptir og tveir nemendur komu
með kamba að heiman.
Hvernig fór kennslan fram?
Nemendum var gerð grein fyrir þýð-
ingu ullarinnar fyrir íslensku þjóðina
á liðnum öldum, þegar nær allur fatn-
aður, sem fólkið klæddist, var unninn
úr ull, allt frá nærklæðum til yfir-
hafna. Auk þess var prjónles og vað-
mál selt öðrum þjóðum og var mikil-
væg útflutningsvara. Þá var reynt að
vekja forvitni nemendanna um þessi
gömlu vinnubrögð, sem tíðkuðust við
tóvinnu allt fram á þessa öld er ullar-
verksmiðjurnar komu til sögunnar. Ef
það tókst að vekja forvitnina mátti
það verða til þess að nemendur vildu
læra þessi vinnubrögð svo að þau féllu
ekki í gleymsku. Loks er tekið til við
að skoða ullina, alla sauðarlitina, og
við nánari skoðun kemur í ljós að í
henni eru tvenns konar hár sem heita
tog og þel. Toglagði er kippt af ullinni
og sést þá að í honum eru löng, stíf og
gljáandi hár, fremur gróf. Þá er tekinn
þellagður og allt tog og hærur teknar
úr honum. Verður þá eftir dúnmjúkur
hnoðri af fínum, örlitið hrokknum
hárum. Mýktin finnst best með þvi að
bera hann að vanga sér. Ýmsum finnst
ekki þægilegt að vera í lopapeysum
eða öðrum flíkum úr íslenskri ull,
finnst hárin stinga sig. Þetta er skýrt
fyrir nemendum á þann veg að nú er
ullin eingöngu unnin í verksmiðjum,
en þær hafa engin tæki til að skilja
togið frá þelinu, þess vegna er tog og
þel kembt saman, en það eru toghárin
sem stinga.
Ekki varð betur séð en að áhugi
flestra nemenda glæddist fljótt þegar
þeir fóru að handfjatla ullina. Og allir
vildu fá að reyna við rokkinn, hala-
snælduna og kambana sem allra fyrst.
En allir urðu að byrja á því að læra að
taka ofan af ullinni og hæra hana síð-
an. Þá er komið að því að kemba og
spinna á rokk eða halasnældu. Til
þess að geta spunnið hæfilega snúð-
hart og áferðargott band þarf mikla
æfingu. í fyrstu var spunnið úr lopa
og þegar nokkurri færni var náð mátti
reyna við kemburnar. Mörgum stúlkn-
anna tókst að spinna úr þeim en
nokkrar létu sér nægja lopann. Ein-
staka stúlka reyndi lika að spinna úr
togi. Sumar þessara stúlkna náðu
furðu mikilli leikni við tóskapinn og
iðkuðu hann eitthvað heima fyrir.
Einn nemandinn var fenginn til að
sýna tóvinnu í verslun Heimilisiðnað-
arfélags íslands öðru hverju eitthvert
sumarið.
Vegna þess hve seinlegt verk það er
og vandasamt að spinna band úr
kembum var meira band spunnið úr
lopa. Þá var það líka fyrr tilbúið til
notkunar. Flestar stúlkurnar prjón-
uðu svo illeppa með röndum úr band-
inu sem þær höfðu spunnið sjálfar og
tvinnað. Nokkrar prjónuðu rósa-
leppa. Örfáar stúlkur prjónuðu eitt-
hvað úr þelbandi. Þar á meðal var ein
sem prjónaði lítinn, útprjónaðan dúk
úr þelbandi sem hún hafði unnið.
Önnur heklaði sjal úr bandi sem hún
hafði spunnið úr lopa og ýmislegt
fleira var búið til úr þess konar bandi.
Fyrsta árið voru sömu nemendurnir
allan veturinn. Þeir sýndu svo tóvinnu
um vorið á sýningu sem efnt var til í
Laugarnesskólanum vegna 1100 ára
afmælis íslandsbyggðar. Vakti sú sýn-
ing nokkra athygli, ekki síst hjá nem-
endum skólans, og jafnframt áhuga
sumra þeirra fyrir að læra þessi vinnu-
brögð. Var þá ákveðið að halda þessari
kennslu áfram. Skólastjórinn, Jón
Freyr Þórarinsson, sýndi þessu máli
mikinn áhuga og studdi allt það starf
með ráðum og dáð. Er nú ekki að orð-
lengja það að tóvinnan var síðan
kennd i skólanum þar til ég lét af störf-
um snemma vetrar 1984.
Var tóvinnukennslan með svipuð-
um hætti næstu arin?
Kennslan var alla tið með líkum
hætti og fyrsta árið. Þó varð bráðlega
að taka fleiri en einn hóp nemenda
hvern vetur, svo að fleiri kæmust að.
Var þá tóvinnan valgrein fyrir 11 til 12
ára nemendur. Nokkrar stúlkur völdu
hana tvö ár í röð. Áhugi fyrir tóvinnu
var mikill alla tíð. Vissi ég til þess að
nokkrar stúlkur höfðu svo mikinn
áhuga að þær eignuðust nýja rokka.
Trúlega hafa þær fengið þá að gjöf frá
foreldrum eða öðrum vandamönnum.
Þessi tóvinnukennsla í Laugarnes-
skólanum vakti mikla athygli d ýms-
um sýningum á undanförnum árum.
Getur þd sagt okkur eitthvað fráþess-
um þætti?
Ég var búin að segja frá skólasýn-
ingunni 1974. Sumarið 1976 var þing
handavinnukennara á Norðurlöndum
haldið í Reykjavík. í tengslum við
þetta þing sýndu nokkrir nemendur úr
Laugarnesskólanum tóvinnu.
Á ári barnsins 1978 var mikil sýning
frá grunnskólunum í Reykjavík haldin
að Kjarvalsstöðum. Nokkrir nemend-
ur sátu þar að tóskap á sýningartím-
anum og vakti vinna þeirra verðskuld-
aða athygli. Svo sýndu nemendur líka
tóvinnu á skólasýningum sem haldnar
voru í tengslum við foreldradaga í
Laugarnesskólanum. Vöktu þær sýn-
ingar ætíð athygli.
Af þessum upplýsingum má sjá að
þarna hefur býsna merkileg starfsemi
farið fram. Til þess að hægt sé að gefa
nemendum grunnskólanna kost á því
að kynnast gömlum þjóðlegum vinnu-
brögðum þarf ýmislegt að koma til.
Það er þá ekki síst áhugi kennara og
skólastjóra. Kostnaðarhliðin er við-
ráðanleg í flestum tilfellum. Marg-
þætt gildi náms sem þessa er óumdeil-
anlegt. Vonandi er að sem flestir
grunnskólar gefi nemendum sínum
tækifæri til sambærilegs náms.
Þórir Sigurðsson
1. Stúlkur í Laugarnesskóla við tóvinnu.
Ljósmynd: Jón Freyr Þórarinsson.
HUGUR OG HÖND
17