Hugur og hönd


Hugur og hönd - 2019, Side 23

Hugur og hönd - 2019, Side 23
 2019 HUGUR OG HÖND 23 enda er litklæðum fornkappa lýst í mörgum Íslendingasagna. Telja má öruggt að þekking á jurtalitun hafi borist frá manni til manns, fólk lært á þær jurtir sem þekktust í hverri sveit, og síðan farið að skrá þessar aðferðir. Fyrsta rit á íslensku sem fjallar um litun kom út í Kaupmannahöfn 1786 og var höfundur þess Ólafur Olavius.18 Í bókinni Grasnytjar eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal sem kom út í Kaupmannahöfn 178319, eru einnig leiðbeiningar um jurtalitun af íslenskum og erlendum toga.20 Í þessum ritum koma fram haldgóðar upplýsingar um þær plöntur sem gefa gulan, rauðan, grænan, bláan, svartan og purpuralit. Það er því nokkuð öruggt að hér á landi hafi verið haldgóð þekking á jurtalitun og ekki ólíklegt að landnámsfólk hafi komið með þekkinguna með sér að utan, rétt eins og það kom með kljásteinavefstaðinn. Ýmis nátt- úruleg efni voru og eru notuð til að festa og skýra jurtaliti s.s. álún, rauður og hvítur vínsteinn, járn- vítríól, koparvítríól, rifið tin o.fl.21 Gera má ráð fyrir að Íslendingar hafi notað plöntur eins og litun- arjafna (Diphasiastrum alpinum) og haugarfa (Stellaria media) til að festa litinn, en eflaust hafa ein- hverjar aðferðir glatast með öllu. Þeir litir sem eru mest áberandi í glitmunstrum á söðuláklæðum sem höfundur skoðaði eru rauðir, rauðbleikir og mosagrænir tónar. Einnig ber nokkuð á bláum og gulum tónum. Rauðir og rauðbleikir litir í áklæðunum hafa haldið sér nokkuð vel. Rauður var almennt litaður úr kúahlandi og var garnið látið liggja í allt að sex vikur. Halldóra Bjarna- dóttir dásamaði mjög þann lit og kallaði hann kúahlandsrauðan.22 Hárauður litur fékkst ef garnið var fyrst litað með fjallagrösum og síðan látið liggja í nýju kúahlandi í eina til tvær vikur.23 Rauðir litir fengust einnig með krapprót, aðalbláberja- lyngi, fjögralaufasmára, litunar- mosa, geitskóf og fleiri plöntum.24 Talið er að sá rauði litur sem hér var mikið notaður á 18., 19. og 20. öld hafi einnig verið litaður með nátt- úrulegum litum eins og kaktuslús (Coccus cacti) og krapprót (Rubia tinctoria) sem voru fluttir inn.25 Miðað við hve vel rauðir og bleikir tónar hafa haldið sér á söðuláklæð- unum þá geta þeir verið litaðir úr kaktuslús og krapprót. Grænir og mosagrænir litir hafa sennilega fengist úr plöntum eins og blá- klukku, burknalaufi, murublöðum og stúfublöðum. Einnig fengust grænir og mosagrænir tónar með því að lita fyrst gula tóna og síðan úr blástein á eftir.26 Heimildir eru fyrir því að erlend litarefni svo sem indigó (indigofera) hafi borist til Íslands á seinni hluta 18. aldar, en áður en það barst hingað lituðu konur blátt úr storkablágresi.27 Það er því ekki ósennilegt að þeir bláu litir sem eru á söðuláklæðunum sem skoðuð voru séu indigóbláir. Samkvæmt riti Olaviusar28 gefa einnig bláberjalyng, bláber og krækiberjalyng bláa liti. Gulir litir fengust með aðalbláberja- laufi, birkilaufi, fjallagrösum, jafna, heimulunjóla, sóleyjum, gulmöðru o.fl.29 Þetta eru ekki tæmandi upp- lýsingar um þá liti sem eru í söðuláklæðunum og þær jurtir sem notaðar voru til að fá þá en gefur þó innsýn inn í töfraheim náttúrulegrar litunar. Í dag er jurtalitun orðin mun algengari og útbreiddari en hún hefur verið um langt skeið, ekki síst vegna þess að aðferðin er mun vistvænni en kemískar litunaraðferðir. Það er einmitt sú litadýrð sem er í gömlu söðuláklæðunum sem glæðir þau lífi og þeirri fegurð sem í þeim býr, ásamt frjálslegri munstur- gerðinni. Heimildaskrá Áslaug Sverrisdóttir. (1981). Brot úr sögu litunar. Hugur og hönd, bls. 40-43. Áslaug Sverrisdóttir. (2006). Rautt að lit. Um litun með möðrurótum í heimildum frá 17. og 18. öld. Hugur og hönd, bls. 18-21. Björn Halldórsson. (1783). Gras-nytjar. Kaupmannahöfn: [útgefanda ekki getið]. Elsa E. Guðjónsson. (1974). Jurtalitun á 18. og 19. öld. Húsfreyjan 25(2), bls. 23-25. Elsa E. Guðjónsson. (1994a). Glitsaumað söð- uláklæði. Í Árni Björnsson (ritstjóri) Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands, bls. 84-85 Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska bókmenntafélag. Elsa E. Guðjónsson. (1994b). Handíðir horfinnar aldar. Sjónabók frá Skaftafelli. Þjms. Þ. og Þ. Th. 116 = An Icelandic eighteenth century manuscript pattern book. Reykjavík: Mál og menning. [Ljóspr. útg. af Sjónabók Jóns Einarssonar í Skaftafelli]. Elsa E. Guðjónsson. (2004). Listræn textíliðja fyrr á öldum. Í Árni Björnsson og Hrefna Róbertsdóttir (ritstj.) Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni, bls. 272-289. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands. Halldóra Bjarnadóttir. (1928). Jurtalitun. Hlín, bls. 58-64. Halldóra Bjarnadóttir. (1966). Vefnaður á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins. Ingibjörg Tryggvadóttir. (1974). Nokkur orð um jurtalitun. Húsfreyjan (25)2, bls. 19-22. Íslendingasögur VIII bindi. Eyfirðingasögur og Skagfirðinga. (1968). Guðni Jónsson bjó til prentunar. Reykjavík: Íslendingasagnaútgáfan. Jónas Jónasson. (1945). Íslenzkir þjóðhættir. 2. útgáfa [1. útgáfa 1934.] Reykjavík: Jónas og Halldór Rafnar. Lilja Árnadóttir. (2009). Íslenskar sjónabækur frá 17. öld til 19. aldar. Í Birna Geirfinnsdóttir og Guðmundur Oddur Magnússon (ritstj.) Íslensk sjónabók, bls. 29. Reykjavík: Heimilisiðnaðarfé- lag Íslands. Ólafur Ólafsson Olavius. (1786). Fyrisagnar Tilraun um Litunar=giørd á Íslandi : bædi med útlenzkum og innlenzkum medølum, ásamt vidbæti um ymislegt því og ødru vidvíkiandi. Kaupmannahöfn: [útgefanda ekki getið]. Sigrún P. Blöndal. (1948). Vefnaðarbók. Akureyri: Ársritið Hlín. Sigríður Halldórsdóttir. (1965). Vefnaðarfræði. [Óútgefið efni]. Sigríður Halldórsdóttir. (1969). Íslenski glitvefnaðurinn. Hugur og hönd. Rit heimilis- iðnaðarfélags Íslands, bls. 7–9. Þórdís Stefánsdóttir. (1919). Jurtalitir. [Fylgirit 19. júní]. Reykjavík: [útgefanda ekki getið].

x

Hugur og hönd

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.