Hugur og hönd - 2019, Blaðsíða 41
2019 HUGUR OG HÖND 41
Dagana 4.-5. mars síðastliðinn var árlegur formanna-
fundur Norrænna heimilisiðnaðarfélaga (Nordens
husflidsforbund) haldinn í Reykjavík. Til fundarins
komu fulltrúar frá Svíþjóð, Danmörku, Eistlandi,
Noregi, Finnlandi og Færeyjum auk Íslands. Samstarf
þessara landa á sér langa hefð en samtökin voru
stofnuð í Stokkhólmi árið 1927.
Tilgangur árlegra formannafunda er að bera saman
bækur, miðla af reynslu og skiptast á hugmyndum.
Fulltrúi hvers lands flytur stutta ársskýrslu og greinir
frá því sem efst er á baugi og sameiginleg hagsmunamál
eru rædd. Það er meðbyr með starfsemi heimilisiðnað-
arfélaga um þessar mundir enda fer mikilvægi hand-
verks ótvírætt vaxandi. Kemur þar einkum tvennt til,
jákvæð áhrif þess að stunda handverk á andlega og þar
með líkamlega heilsu og sú vaxandi krafa að minnka
neyslu og horfa til vandaðrar handgerðar vöru fremur
en ódýrs fjöldaframleidds varnings með tilheyrandi
neikvæðum umhverfisáhrifum.
Mikill kraftur er í samstarfinu og full ástæða til að
horfa bjartsýnn fram á veginn. Stefnt er að Norrænum
handverksbúðum fyrir ungmenni í Danmörku sumarið
2020 og framhald verður á norrænni handverksviku í
byrjun september undir yfirskriftinni „Nordic Craft
Week“. Hvert land leggur til vettlingauppskrift sem
deilt verður á sameiginlegri fésbókarsíðu og verða
uppskriftirnar til frjálsrar notkunar fyrir félögin t.d.
til birtingar í tímaritum eða til námskeiðahalds.
Undanfarin ár hafa formannafundirnir takmarkast
við stífa fundardagskrá. Að þessu sinni var brugðið út
af vananum því fundargestir óskuðu eftir að skipulögð
yrði dagsferð, enda sumir gestanna að koma til Íslands
í fyrsta sinn. Það varð úr að eftir fundinn seinni daginn
var farið á Þingvelli og smáspunaverksmiðjan Upp-
spuni og ullarsetrið Þingborg heimsótt. Ferðin var vel
heppnuð, gestunum gafst tækifæri til að sjá landið
auk þess sem samveran gaf ómetanlegt tækifæri til að
spjalla en þá fæðast oft bestu hugmyndirnar.
Norrænt samstarf af því tagi sem hér er rakið er
öllum félögunum mikilvægt, ekki síst fámennu félagi
eins og Heimilisiðnaðarfélagi Íslands.
H ö f u n d u r : Margrét Valdimarsdótt ir - L j ó s m y n d : Oddný Krist jánsdótt ir
Samtök Norrænna heimilisiðnaðarfélaga
H ó p u r i n n v i ð h ú s n æ ð i H F Í í Ne t h yl . F rá v i n s t r i M a rg re t h a H e r m a n s e n o g G u n n b j ø rg D a n i e l s e n f rá Fæ re y j u m , L ot t e H e l l e f rá
D a n m ö rk u , M i n n a H y y t i ä i n e n f rá F i n n l a n d i , L i i n a Ve s k i m ä g i - I l i s t e f rá E i s t l a n d i , S o l ve i g G r i n d e r f rá No re g i , A ge n t a C a r l s o n f rá
S v í þ j ó ð , I n ge - L i s e A n d e r s e n f rá D a n m ö rk u , K i k k a J e l i s e j e f f f rá F i n n l a n d i , L i i s B u rk f rá E i s t l a n d i o g M a rg ré t Va l d i m a r s d ó t t i r.