Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Page 7
Svo er því farið:
Sá sem eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnarnir
honum yfir. 1
Hryggilegt og ótímabært fráfall Magnúsar Snædals var reiðarslag og við
söknum vinar í stað. En við megum ekki gleyma okkur í sorginni heldur
eigum við að ylja okkur við góðar minningar um vænan mann.
Hann hét fullu nafni Magnús Hreinn Snædal Rósbergsson. Hreins -
nafnið notaði hann aldrei nema í netfangi sínu, hreinn@hi.is. Allir þekktu
hann undir nafninu Magnús Snædal. Hann fæddist á Akureyri 17. apríl 1952
og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Hólmfríður Magnúsdóttir og Rós berg
G Snædal, bæði látin; af myndum má sjá að Magnús líktist föður sínum.
Magnús var næstyngstur sex systkina. Um æsku hans og uppvöxt veit ég
lítið. En ég veit að hann unni átthögum móður sinnar á Syðra-Hóli í Austur
Húnavatnssýslu, enda sagðist hann ungur ætla að verða bóndi. Það varð ekki.
En hann átti lengi hesta og hann naut þess að fara ríðandi um fjöll og heiðar.
Um unglingsár Magnúsar veit ég aðeins það að hann tefldi mikið, var
góður skákmaður. En ég hef betri heimildir um menntaskólaár hans. Þá
var hann með alpahúfu og í dökkum síðum frakka sem kenndur var við
Karl Marx.2 Nafnið var ekki tilviljun, enda var Magnús vel róttækur á
þessum árum, líklega raunar alla tíð. Öll skrif hans í skólablöð nyrðra votta
róttækni hans; þar var réttarstaða nemenda sígilt viðfangsefni.3 Hann
steig líka á svið, lék í Minkunum eftir Erling E. Halldórsson.4
Magnús Snædal
(1952‒2017)
1 Hannes Pétursson. 1983. 36 ljóð, bls. 26‒27.
2 Dagblaðið 4. maí 1981. 98. tbl., bls. 6. Höfundur greinar er Atli Rúnar Halldórsson.
3 Sjá t.d. skólablaðið Munin, 44. árg. 1971‒1972, 3. tbl., bls. 4.
4 Réttur, 55.árg. 1972, 2. hefti, bls. 59‒64. Höfundur greinar er Soffía Guðmunds dóttir.