Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Síða 16
þar sem þau eru vísbendingar um eitthvað annað en beinlínis felst í orð -
unum sjálfum.
Málvíxl af þessum toga eru eins konar aukalag eða yfirvídd við segðina
sjálfa til að tjá eitthvað merkingarbært og geta þau haft margs konar hlut-
verk (sjá Gumperz 1982:75–84). Sem dæmi má nefna að gefa til kynna
nýtt umræðuefni eða að efni sé tæmt, til að fá viðbrögð eða til að hnykkja
á orðum eða útlista þau frekar.2 Auk þessa er ekki ótítt að tvítyngdir víxli
málum í frásögnum þegar þeir hafa eftir í formi beinnar ræðu orð annarra
eða sín eigin sem féllu við það tækifæri sem sagt er frá. Þannig er sköpuð
málleg andstæða til að gefa til kynna að nú sé mælandinn að enduróma
orð úr því samhengi sem greint er frá.
Þeir sem eru jafnhliða tvítyngdir (e. simultaneous bilingual), þ.e. eru
jafnvígir á tvö tungumál sem þeir hafa lært samtímis frá bernsku, bregða
gjarnan fyrir sig málvíxlum. En einnig í áunnu tvítyngi (e. successive bil-
ingualism), þ.e. þegar fólk tileinkar sér annað mál síðar á lífsleiðinni og
hefur jafnvel ekki náð fullkomnu valdi á nýja málinu, eins og hjá fyrstu
kynslóð innflytjenda notar fólk gjarnan málvíxl (sbr. t.d. Li Wei 2000:14,
sjá einnig Franceschini 1998:68). Þau víxl eru yfirleitt af einfaldara tagi og
þá fyrst og fremst svokölluð millisetningavíxl (e. intersentential), þ.e. ein
setning er á sögð einu máli og önnur á hinu, og á þetta einnig við um stök
orð og frasa. Flóknari málvíxl felast í því að víxla á mörkum einstakra
setningaliða á þann hátt að skipt er um mál inni í miðri setningu, þ.e. inn-
ansetningavíxl eins og þau eru nefnd (e. intrasentential; sbr. Poplack
2004). Því betri hæfni sem einstaklingur hefur á báðum málunum því
flóknari víxlum getur hann beitt þar sem fullburða málkunnátta á báðum
málum er undirstaða þeirrar færni. Málvíxl má því líta á sem merki um
háþróaða málhæfni og styrkleika í máli en ekki öfugt eins og stundum
hefur verið, eða var, talið (sjá Poplack 2004, Auer 1988:200, Romaine
1995:290–302).
Lítum þá á aðferðir sem málnotendur viðhafa þegar þeir leggja öðrum
orð í munn og hvernig farið er með beina ræðu í því sambandi.
2.2 Bein ræða
Í frásögnum í mæltu máli þegar greint er frá fyrri atburðum er oft vitnað
til ummæla, annarra eða eigin, sem fallið hafa við það tilefni. Oft er vísað
Þóra Björk Hjartardóttir16
2 Dæmi um öll þessi hlutverk mátti finna í málnotkun gömlu Dananna (sjá Þóru
Björk Hjartardóttur 2015).