Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Síða 18
Í frásögninni eru orðræðuagnirnar bara í línu 3 og alveg í línu 5 notaðar
sem eins konar merki um að nú verði haft eftir öðrum, þær afmarka beinu
ræðuna sem fylgir á eftir.
Auk framangreindra aðferða til að sýna að bein ræða sé að hefjast hafa
tvítyngdir yfir að ráða öðru verkfæri sem er að víxla málum þannig að
beina ræðan er sögð á öðru máli en því sem frásögnin annars er á, eins og
fram kom í 2.1.
Með beinni ræðu má segja verið sé að sviðsetja atvik sem hafa átt sér
stað áður, þ.e. flutt eru inn í frásögnina eldri samtöl og samskipti og þau
endursköpuð í nýrri umgjörð. Þannig er áheyrandinn færður nær atvikinu
sem greint er frá. Ýmsar skýringar hafa verið settar fram um hlutverk
beinnar ræðu í samtölum svo sem að draga fram mikilvæg atriði eða að
auka á tilfinningaþrunga (Glock 1986), að gefa til kynna myndugleika
(Mayes 1990), að draga upp myndræna lýsingu (Clark og Gerrig 1990)
eða að skemmta (Holt 2000; sbr. Pennesi 2007). Í flestum tilvikum má í
raun fella þetta undir sviðsetningu á einn eða annan hátt. Í slíkri sviðsetn-
ingu skiptir mælandinn um hlutverk, fer úr sínu eigin sem skapari tján-
ingarinnar og í annað hlutverk sem miðlari gegnum beina ræðu. Til að
sýna þessi hlutverkaskipti og ljá hamskiptunum raunveruleikablæ, gera
frásögnina lifandi og gefa þar með hlustendum færi á að upplifa atburðinn
eru notuð fyrrnefnd meðul: breyting á raddstyrk, tónfalli eða sérstökum
inngangsorðum er skotið inn á undan, auk málvíxla í tilfelli tvítyngdra
(sbr. Eriksson 1997:190–195).
Beina ræðan tilheyrir því í raun tveimur manneskjum, þeirri sem
orðin eru lögð í munn og þeirri sem endurómar segðina. Mælandinn er
því í raun tvíradda. Þetta hefur Erwin Goffman (1981) útfært í kenning-
um sínum um mismunandi stöðu mælenda í samtölum. Í þeim felst að
mælandi getur gegnt þremur hlutverkum, ýmist öllum í senn eða einu eða
tveimur eftir gerð orðræðunnar hverju sinni. Mælandinn getur þannig
verið:
(4)a. Flutningsmaður (e. animator)
Sá sem mælir, þ.e. flytjandi segðarinnar.
b. Höfundur (e. author)
Sá sem setur saman segðina, hvað er sagt og á hvern hátt, þ.e. smiður
hennar.
c. Upphafsmaður (e. prinicipal)
Sá sem er ábyrgur fyrir innihaldinu, þ.e. sá sem „á“ hugsunina sem
sett er fram í segðinni.
Þóra Björk Hjartardóttir18