Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Page 20
hinn íslenskur. Daninn hefur gott vald á íslensku og bregður báðum mál -
um fyrir sig í viðtölunum þótt danska sé ríkjandi hjá honum. Sá íslenski
talar einungis íslensku en skilur vel dönsku.7
Tekin voru alls 39 viðtöl og fóru sum þeirra nær eingöngu fram á
dönsku og önnur á íslensku en í allmörgum þeirra eru málin notuð
nokkuð jöfnum höndum og fara viðmælendur þá á milli mála. Tólf af
þeim viðtölum sem fram fóru á báðum málum, íslensku og dönsku, voru
tekin til athugunar í þeirri rannsókn sem hér er greint frá. Í helmingi
þeirra er danska grunnmál viðmælanda sem hann skýtur íslensku inn í,
bæði við beina ræðu sem og annars konar gerð málvíxla, sbr. 2.1. Hinn
helmingurinn talar íslensku sem grunnmál og skýtur inn dönskum ein-
ingum í sama tilgangi (sjá Þóru Björk Hjartardóttur 2015). Viðtölin
spanna frá 40 mínútum upp í tæpa tvo tíma en flest þeirra eru um
klukku stundar til einnar og hálfrar stundar löng. Heildartími viðtalanna
tólf er um 15 klukkustundir.
Viðmælendurnir, sem fæddir eru á árabilinu 1921 til 1937, höfðu allir
flust búferlum til Íslands á þrítugsaldri utan tveggja sem fluttust rétt
innan við tvítugt.8 Þeir lærðu því ekki íslensku fyrr en á fullorðinsaldri en
hér er engu að síður kosið að líta á þá sem tvítyngda í víðasta skilningi
þess orðs þótt vissulega hafi þeir fæstir náð fullkomu valdi á íslensku og
sumir alls ekki góðu eins og sjá má á efniviðnum í heild þótt nákvæm
athugun hafi ekki verið gerð í þeim efnum enda utan við markmið þess-
arar rannsóknar (sbr. Þóru Björk Hjartardóttur 2015:239–241).9
Öll tilvik þar sem viðmælendur skipta yfir í beina ræðu, 135 alls, voru
tekin til athugunar og þau greind út frá samhengi í orðræðunni og túlkuð
miðað við þær fræðilegu forsendur sem greint var frá í öðrum kafla um
málvíxl og gerð beinnar ræðu. Horft var til þess hvert málið væri á beinu
ræðunni sem og tungumálsins á frásögninni sem hún var felld inn í og
enn fremur leitt líkum að upprunamáli hinna tilvitnuðu orða út frá sam-
hengi og bakgrunni frásagnarinnar. Nokkuð fleiri tilvik eru um beina
ræðu í dönskum málgrunni en íslenskum, eða 76 á móti 59. Einnig er
Þóra Björk Hjartardóttir20
7 Þetta kann að hafa áhrif á það hversu mikið og á hvern hátt viðmælendur víxluðu
málum en greining á því er utan við markmið þessarar rannsóknar.
8 Viðtölin voru tekin á árunum 2009 og 2010 og viðmælendur því allir komnir yfir
sjötugt og sumir fast að níræðu.
9 Um margvíslegar birtingarmyndir tvítyngis og skilgreiningarvanda má t.d. sjá hjá Li
Wei (2000:3–6). Hefð er fyrir því í íslensku samhengi að líta á tvítyngi breiðum skilningi
óháð færnistigi í íslensku (sjá Birnu Arnbjörnsdóttur 2007:14).