Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 39
e, sbr. físl. Heðinn, herað, heðan, eg, eta, fekk, helt, sneri (sjá til dæmis Bandle
1956:49–51, Werner 1988 og Aðalstein Hákonarson 2016:89–91, 2017:
145–146). Sum þessara atriða skjóta þó upp kollinum hér og þar í tengsl -
um við meginefni greinarinnar.
Með útkomu tvíhljóðunar é er átt við hljóðgildi þess eftir að breyting-
in var afstaðin. Hugsanlega fól þróunin frá langa einhljóðinu [eː] í sér ein-
hver millistig, en líkt og áður sagði verður ekki fjallað sérstaklega um gang
breytingarinnar hér. Þetta er áréttað vegna þess að ágreinings efn ið, sem
greinin fjallar um, snýr að því hvort é hafi verið eiginlegt stígandi tvíhljóð
eða hljóðasamband fyrstu aldirnar eftir að tvíhljóðunin hófst. Með öðrum
orðum, hvort „ie“ — fyrst eftir að ritháttarbreytingin „e“ (fyrir é) > „ie“
kom upp — hafi staðið fyrir hljóðasamband eða tvíhljóð. Eins og áður
sagði verður niðurstaðan að um hljóðasamband hafi verið að ræða, en þó
er mögulegt að á einhverju stigi þróunar é til hljóðasambandsins [jɛː] hafi
það verið eiginlegt stígandi tvíhljóð.3
Skipan efnis í greininni er á þann veg að í 2. kafla verður farið yfir
fyrri skrif um þróun é í íslensku. Í 3. kafla verður sýnt fram á að flest
bendir til þess að útkoma tvíhljóðunar é hafi verið hljóðasamband. Í 4.
kafla verður hugmyndin um önghljóðun j skoðuð og sýnt fram á að hún
er vafasöm. Í 5. kafla verða teknar saman niðurstöður.
2. Fyrri skrif um þróun é í íslensku
2.1 Eldri hugmyndir um samsvörun nýíslensks é (= je) í fornmáli
Síðar í þessum kafla verður gerð grein fyrir því helsta sem ritað hefur
verið um þróun é í íslensku (í köflum 2.2–2.10). Fræðimenn sem þar
koma við sögu telja almennt að í fornmáli hafi é verið langt einhljóð, [eː].
Um það hefur þó ekki ávallt ríkt einhugur og því verður hér í upphafi
fjallað stuttlega um eldri hugmyndir um hljóðgildi é í fornmáli.
Fram á 19. öld var þekking á forníslensku mjög takmörkuð og sér í
lagi gerðu menn sér að litlu leyti grein fyrir hljóðbreytingum sem átt hafa
sér stað í sögu málsins. Þess vegna má ætla að þau ummæli Ivars Bergs um
Rasmus Kristian Rask (1787–1832), að hann „tilla dei ulike grafema same
ljod verdi i fornmålet som i nyislandsk“ (Berg 2014:30), hafi líka átt við
undan fara Rasks. Þeir gerðu sennilega almennt ráð fyrir að framburður
ein stakra bókstafa hefði verið eins til forna og á tíma þeirra. Hins vegar
Hljóðið é í yngri forníslensku 39
3 Þó virðist sennilegt að rithátturinn „ie“ hafi ávallt staðið fyrir hljóðasamband (sjá
nánar í 3. kafla).