Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 59
miðlæg sérhljóð urðu fjarlægari en áður (sjá Hrein Benediktsson 1962) og
löng miðlæg og fjarlæg sérhljóð breyttust í tvíhljóð (sjá nánar Aðalstein
Hákonarson 2016:85 o.áfr. og þar tilvitnuð rit). Eftir þessar breytingar,
sem hófust á 12. og 13. öld (Aðalsteinn Hákonarson 2016:103), var sjald -
gæft að löng og stutt sérhljóð hefðu sama hljóðgildi. Sú var þó senni lega
raunin í tilviki síðari hluta é (eftir að það breyttist í hljóðasambandið [jɛː])
og e [ɛ]. Kenning Björns var að eftir fyrrgreindar hljóðgildisbreytingar í
sérhljóðakerfinu hefði þótt í lagi að ríma saman löng og stutt sérhljóð með
sama hljóðgildi einmitt vegna þess að sérhljóðapör af þessu tagi voru undan -
tekningar (1925:ix). Síðar sagði Björn að þetta væri „vottur um aðdrag -
anda að hljóð dvalarbreytingunni“, en var þó greinilega enn þeirrar skoð -
unar að rímið é : e hefði komið upp á tíma þegar fornt hljóð dvalar lögmál
var enn í gildi (1929a:240).
Eðlilegt er að telja rímið é : e sýna að hljóðdvalarbreytingin hafi hafist
á 14. öld líkt og gert var í kafla 3.3 hér að framan. Björn nefnir hins vegar
ekki þennan möguleika og hlýtur ástæðan að vera sú að samkvæmt athug -
unum hans var nánast aldrei brotið gegn forna hljóðdvalarlögmálinu í
kveðskap frá því fyrir um miðja 16. öld (1929b:35, 1934:290–92). Nánari
skoðun sýnir þó að þessi niðurstaða Björns er ekki ósamrýmanleg þeirri
túlkun að rímið é : e sé heimild um breytingar á lengd sérhljóða þegar á
14. öld.
Fyrst er að nefna að hljóðdvalarbreytingin var margþætt. Í opnum
áhersluatkvæðum tvíkvæðra orða lengdust stutt sérhljóð (til dæmis geti,
[ɛ] > [ɛː]), en löng sérhljóð styttust í lokuðum áhersluatkvæðum (til dæmis
frétta, lént, [(j)ɛː] > [(j)ɛ]) nema í einkvæðum orðum þar sem á eftir fór eitt
sam hljóð (til dæmis sér, [(j)ɛː] óbreytt); aftur á móti lengdust stutt sérhljóð
í slíkum orðum (til dæmis sker, [ɛ] > [ɛː]). Hljóðdvalarbreytingin er þannig
eigin lega samheiti yfir nokkrar lengdarbreytingar, en heimildir, sem tíma -
setning hljóðdvalarbreytingarinnar hefur byggst á hingað til, taka í raun
aðeins til lengingar stuttra sérhljóða í opnum atkvæðum. Þar er litið til
þess þegar atkvæði, sem voru létt í fornmáli, taka að mynda sterka brag -
stöðu (bera ris) ein og sér.
Í (11) er lína úr Ormars rímum Fraðmarssonar frá 15. öld sem samdar
eru eftir fornu hljóðdvalarlögmáli (ris eru feitletruð). Þar hefst annað risið
á léttu atkvæði, ne-(mi), sem þó var ekki nóg eitt sér til að mynda ris og
því er næsta atkvæði á eftir líka hluti af risinu. Þar á eftir kemur svo orðið
það sem myndar hnig.
Hljóðið é í yngri forníslensku 59