Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 64
Þessar heimildir benda til þess að gj hafi fallið saman við j og fyrir fram
virðist mega gera ráð fyrir að j hafi eftir sem áður getað verið hálf sérhljóð.
Björn taldi hins vegar að á svipuðum tíma og gj breyttist í j hefði j orðið
að önghljóði. Ástæða þess var að frá svipuðum tíma og ofangreind dæmi
má finna merki um að menn hafi rímað j „á móti blásturs g-i“ ([ɣ]) jafnvel
þar sem það breyttist ekki í j (1925:xxv). Þetta eru dæmi þar sem g fer á
undan uppmæltu sérhljóði: geiga : sýjur (Sturla Þórðarson, Hryn henda
16.7, Skaldic 2:693) og frægar : meyjar (Kálfr Hallsson, Kátrínar drápa 2.5,
Skaldic 7:933). Þetta taldi Björn sýna að j hefði orðið að (fram góm mæltu)
önghljóði (Björn K. Þórólfsson 1925:xxv–vi). En rétt er að gæta þess að
jafnvel þótt j hefði breyst í framgómmælt önghljóð hefðu síðast nefndu
rímin ekki verið nákvæm.
Þegar í ritdómi um bók Björns K. Þórólfssonar (1925) benti Jón Helga -
son (1927) á að skýra mætti rím eins og geiga : sýjur á annan hátt. Hann
taldi rithætti eins og „orcnaýgiar“ Orkneyjar og „gyiar“ gýgjar og rím eins
og beygja : deyja og frægja : tæjandi sýna að gj á milli sérhljóða, þar sem hið
fyrra var langt, hefði fallið saman við j í sömu stöðu á 13. öld (1927:93).24
Hins vegar áleit hann ekki að hendingar eins og geiga : sýjur bentu til þess
að j hefði verið „blitt så konsonantisk, at det nærmet sig til spirantisk g“
(1927:91). Í eldri kveðskap hafði tíðkast að ríma gj, sem síðar breyttist í j,
við önghljóðið g [ɣ] almennt (sjá Kahle 1892:97–99) og af því dregur Jón
eftirfarandi ályktun: „Når Sturla dikter geiga létuð gyltar sýjur, er det unøi-
aktig rim, men linjen var fra hans standpunkt fuldstendig analog med en
linje som frægr við firna slægjan hos den gamle „hovedskalden“ Úlfr, og
derfor uangripelig“ (1927:91). Þannig má skýra rím eins og geiga : sýjur,
sem aldrei munu þó hafa orðið mjög útbreidd (Björn K. Þórólfsson
1925:xxv), sem hefðarreglu líkt og svo mörg dæmi eru um í íslenskum
kveðskap (sbr. Kristján Árnason 1991:12–22 og Hauk Þorgeirsson 2013).
Ekki er nauðsynlegt að gera ráð fyrir önghljóðun j til þess að skýra slíkt
rím.25
Aðalsteinn Hákonarson64
24 Jón taldi samfallið orsakast af brottfalli g á undan j (1927:91, 93). Jón Axel Harðar -
son (2007) hefur hins vegar fært sannfærandi rök fyrir því að í stöðu á undan i og j hafi
önghljóðs-g í forníslensku verið framgómmælt [ʝ], en ekki uppgómmælt [ɣ] líkt áður hafði
verið gert ráð fyrir. Að hans mati sýna rithættir eins og „orcnaýgiar“ og „gyiar“ breytingu
önghljóðsins [ʝ] í hálfsérhljóðið [j].
25 Jón Axel Harðarson (2007:86) skýrði rím eins og geiga : sýjur þannig að eftir breyt -
inguna [ʝ] > [j] hefði j verið endurtúlkað hljóðkerfislega sem framgómmælt önghljóð þótt
hljóðfræðilega hefði það enn verið hálfsérhljóð. Hreinn Benediktsson (1969:24) gerði
einnig ráð fyrir svipaðri endurtúlkun j í sögu íslensku.