Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 98
sen 2002, Þórhallur Eyþórsson og Jóhannes Gísli Jónsson 2003, Jó hann -
es Gísli Jónsson og Þórhallur Eyþórsson 2005, Höskuldur Þráins son o.fl.
2012, Þórhallur Eyþórsson 2008, Þórhallur Eyþórsson og Hös kuld ur
Þráins son 2017). Það kemur því e.t.v. ekki á óvart að þolfall varð veitist
ekki sem frumlagsfall í færeyskum tilvistarnafnháttum. Á það ber hins
vegar að líta að rannsóknir á varðveislu þolfalls í frumlagsstöðu hafa al -
mennt beinst að þolfalli sem orðasafnsfalli. Þolfall á andlögum sagna eins
og fáa og síggja er aftur á móti formgerðarfall.
Með frekari rannsóknum á setningagerðinni í málunum tveimur fær-
umst við vonandi nær því að skilja hvers vegna formgerðarþolfall er mögu -
legt sem frumlagsfall í tilvistarnafnháttum í íslensku en ekki færeysku og
hvort og þá hvaða tengsl eru við fallvarðveislu í þolmynd í þessum málum.
Hér verða nokkur atriði nefnd sem ég tel að taka verði tillit til þegar þetta
er skoðað nánar.
Það mætti ímynda sér að skort á fallvarðveislu formgerðarþolfalls mætti
rekja til þess að andlagið færist í frumlagssæti. Í 2. kafla hér fyrir ofan var
á það bent að þágufall varðveitist oft ekki í þolmynd þegar nafnliður er
færður í frumlagssæti. Það kann að vera að færsla rökliðar úr andlagssæti
tilvistarnafnhátta í frumlagssæti aðalsetningar hafi sömu áhrif á fall hans
— skýringarinnar á því hvers vegna fall varðveitist ekki gæti verið að leita
hér. Engu að síður virðist færslan sem slík ekki skipta máli vegna þess að
ef nafnliðurinn er skilinn eftir í nafnháttarsetningunni fær hann eftir sem
áður nefnifall, sjá (23a), en ekki þolfall, sjá (23b), rétt eins og þegar hann
færist í frumlagssæti, sbr. (22).11
(22) Bókin (nf.) / *Bókina (þf.) er at fáa her.
(23)a. Í Klaksvík er at fáa ein framúrskarandi bók (nf.) um málfrøði.
b. *Í Klaksvík er at fáa eina framúrskarandi bók (þf.) um málfrøði.
Þetta bendir þá til að þolfalli sé ekki úthlutað í tilvistarnafnháttum í fær-
eysku hvort sem andlag aðalsagnarinnar færist í frumlagssæti eða ekki.12
Einar Freyr Sigurðsson98
11 Hjalmar P. Petersen fékk sjö nemendur sína til að dæma fyrir mig setningarnar í
(23a) og (23b). Allir töldu setninguna í (23b), með þolfalli, ótæka. Hins vegar töldu fimm
setninguna í (23a), með nefnifalli, tæka, einn setti spurningarmerki við hana og annar gaf
bendingar um að færa rökliðinn út úr nafnháttarsetningunni.
12 Eins og ritrýnir bendir á er liðurinn ein framúrskarandi bók um málfrøði býsna þung-
ur; það er hugsanlegt að í (23) sé um að ræða færslu til hægri, þ.e. út úr nafnháttarsetning-
unni. Ef það er rétt getum við ekki sagt til um það með vissu að rökliðir geti ekki fengið
þolfall innan nafnháttarsetningarinnar. Þetta þarf að kanna betur.