Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 147
margrét guðmundsdóttir
Maðkur í mysunni
Um þrenns konar framburð ðk
1. Inngangur
Svo sem kunnugt er vann Björn Guðfinnsson að mikilli rannsókn á ís -
lensk um framburði á 5. áratug síðustu aldar. Um hana fjallaði hann ítar-
lega í bókinni Mállýzkur I sem út kom 1946 og greindi frá niðurstöðum
um harðmæli og linmæli, þ.e. þann framburðarmun sem birtist í orðum
eins api, láta og reka, þar sem meirihluti landsmanna ber fram ófráblásið
lokhljóð ([a:pɪ]) en aðrir, einkum Norðlendingar, fráblásið lokhljóð ([a:pʰɪ]).
Ætlun hans var að birta síðar aðrar niðurstöður. Til þess entist honum
ekki starfsþrek en hann lést árið 1950. Úrvinnslan hefur þó verið komin
vel á veg því að Björn hélt fyrirlestur um framburð og stafsetningu árið
1946, bæði í Háskóla Íslands og útvarpinu, þar sem fram komu ýmsar
tölur um tíðni annarra afbrigða. Fyrirlesturinn varð fyrri hluti rits sem út
kom 1947 og var endurútgefið 1981. Árið 1964 kom svo út undir nafni
Björns bókin Um íslenzkan framburð. Mállýzkur II þar sem Ólafur M.
Ólafsson og Óskar Ó. Halldórsson tóku saman aðrar helstu niðurstöður.
Þar segir meðal annars af útbreiðslu raddaðs og óraddaðs framburðar sem
hér verður staldrað við. Sá munur birtist í hljóðasamböndum með /l,m,n/
+ /p, t, k/, þ.e. í orðum eins og úlpa, heimta og banki, en sérstakar reglur
gilda þó um lt. Í rödduðum framburði, sem var að minnsta kosti til
skamms tíma útbreiddur á Norðurlandi, er fyrra hljóðið raddað en það
síðara fráblásið, [ulpʰa]. Í framburði flestra landsmanna er hins vegar fyrra
hljóðið óraddað og það síðara ófráblásið, [ul
˚
pa]. Raddaður framburður
kemur einnig fram í orðum eins og maðkur, en /ð/ kemur hvorki fyrir á
undan /p/ né /t/
Niðurstöður svokallaðrar yfirlitsrannsóknar, sem náði til 6.520 barna
um land allt, eru að jafnaði settar fram í töflum þar sem fjöldi hljóðhafa í
hverju skólahverfi er tiltekinn og jafnframt hve margir höfðu hreint
afbrigði af hvorri tegund og hve margir notuðu blandaðan framburð. Svo
dæmi sé tekið um raddaðan framburð felst í þessu að þátttakendur eru
greindir í þrjá hópa, þá sem notuðu ævinlega raddaðan framburð, þá sem
Íslenskt mál 39 (2017), 147–155. © 2017 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.