Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 159
hanna óladóttir
Skólamálfræði
Hver er hún og hver ætti hún að vera?
Um markmið og áhrif málfræðikennslu
á unglingastigi grunnskólans
1. Inngangur
Mig langar að byrja á að deila með ykkur hvernig það var þegar ég komst í kynni
við málfræði. En það gerðist þegar ég hóf nám í íslensku við Háskóla Íslands. Þá
opnaðist mér algjörlega nýr heimur, heimur málfræði og málvísinda. Um það
hvernig tungumál lærast og þróast, hvernig málið er byggt upp frá því smæsta til
þess stærsta, hljóðfræði- og hljóðkerfisfræði, beygingar- og orðmyndunarfræði og
setningafræði. Seinna meir lærði ég um hlutverk tungumálsins í samfélaginu,
margbreytileika þess og þá staðreynd að það er miklu flóknara fyrirbæri en svo
að það komi eingöngu einföldum skilaboðum til skila, það hefur ekki bara nota-
gildi heldur líka táknrænt gildi.
Ég komst líka fljótt að því að það að vera orðin íslenskunemi í málfræðinámi
gat haft áhrif á hvernig fólk kom fram við mig. Viðbrögðin gátu verið tvenns
konar. Annars vegar þau að fólk fór að kvarta við mig út af málfari eða málvillum
sem það hafði heyrt og sagði kannski: „Ég þoli ekki þegar fólk segir það var barið
mig, getið þið ekki gert eitthvað í þessu?“ Og svo þeir sem fóru alveg í baklás og
sögðu: „Ó, ertu í íslensku í Háskólanum, þá verð ég passa mig hvað ég segi.“ Í
hugum beggja var þetta alveg á hreinu, ég væri komin í lið með málfarsyfirvöld-
um sem hafa um það að segja hvernig fólk eigi að tala og ég væri án efa á leiðinni
að verða íslenskukennari. Það eina sem ég vildi hins vegar var að hlusta á marg-
breytileika tungumálsins koma óheftan út úr viðmælendum mínum og þóttist
hafa komist í feitt ef einhver sagði mér langar, við hittustum eða eitthvað þaðan af
betra.
Þarna koma fram tvö sjónarmið til tungumálsins, annars vegar frá viðmæl-
endum mínum sem voru uppteknir af því hvernig málið ætti að vera og svo hjá
mér sem var upptekin af því að hlusta eftir því hvernig málið væri í raun. Tvö
sjónarmið sem koma óneitanlega mikið við sögu í rannsókn minni á skóla-
málfræði, markmiðum hennar og áhrifum, en hugtakið skólamálfræði nota ég
einfaldlega yfir þá málfræði sem kennd er í skólum eða talið er að eigi erindi við
skólabörn.
Íslenskt mál 39 (2017), 159–190. © 2017 Íslenska málfræðifélagið, Reykjavík.