Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Side 161
markmið: Að kanna hvort lýsandi málfræði sé sinnt í íslenskukennslunni og hver
þáttur forskriftarmálfræði sé nú um stundir. Með öðrum orðum að reyna að
komast að því hvort gamalgrónar kennsluaðferðir og hugmyndir sem lengi hafa
verið ríkjandi innan málfræðikennslunnar hafi að einhverju marki vikið fyrir
öðrum aðferðum og sjónarmiðum, ekki hvað síst þeim sem birtast í kenningum
málkunnáttufræðinga og félagsmálfræðinga.
Af þessum sökum einblínir rannsóknin á hvernig kennarar hugsa um tungu-
málið og hlutverk sitt sem málfræðikennarar og hvaðan þær hugmyndir koma, en
líka hvernig nemendur hugsa um tungumálið. Leiðarljósið er að leggja eitthvað af
mörkum til umræðunnar um hvers konar málfræði skólamálfræðin eigi að vera.
Þetta meginmarkmið var síðan frekar útfært í meðfylgjandi fimm rannsóknar-
spurningum:
I. Hvaða hugmyndir um tungumálið koma fram í aðalnámskrám, samræmd-
um prófum og námsefni sem endurspegla nýlegar kenningar málvísinda-
manna um máltöku, málkunnáttu, málbreytingar og tilbrigði í máli?
II. Hvaða hugmyndir hafa íslenskukennarar á unglingastigi grunnskóla um
tungumálið, málstaðal og eigið hlutverk þegar kemur að málfræði kennslu?
III. Hvernig endurspeglast þessar hugmyndir kennara í viðhorfi nemenda til
tungumálsins?
IV. Hvernig samræmast þessar hugmyndir nýlegum kenningum málvísinda-
manna um máltöku, málkunnáttu, málbreytingar og tilbrigði í máli?
V. Gefa svörin við fyrrgreindum spurningum tilefni til þess að endurskoða
markmið málfræðikennslunnar, og þá hvernig, eða á hvaða hátt best sé að
nálgast málfræðina í grunnskólakennslu?
4. Aðferð
Rannsóknaraðferðin var tvíþætt. Annars vegar var beitt textarýni þar sem farið
var í gegnum það sem kallað er skólaefni og myndar þann formlega ramma sem
allir grunnskólakennarar á unglingastigi verða að vinna innan og gera má ráð fyrir
að hafi áhrif á vinnu þeirra. Þetta eru aðalnámskrár í íslensku, en þær voru skoð -
aðar allt aftur til 1960, þegar sú fyrsta kom út, en alls hafa sex verið gefnar út, sú
nýjasta er frá 2013. Rýnt var í samræmd próf, en rannsóknir hafa sýnt að þau hafa
veruleg áhrif á hvernig kennslu er háttað. Megináhersla var lögð á að skoða
hvernig prófin hafa verið frá árinu 2009 þegar samræmdu prófin breyttust í
könnunarpróf. Eldri próf voru höfð til samanburðar. Að lokum var til skoðunar
allt námsefni, bæði prentað sem og vefefni, sem stendur kennurum og skólum nú
til boða við málfræðikennsluna, en það er mjög misgamalt.
Hinn hluti rannsóknarinnar byggðist á eigindlegri aðferðafræði, var sem sagt
viðtalsrannsókn. Farið var í 10 skóla, sex á höfuðborgarsvæðinu og fjóra utan þess
og talað við samtals 15 íslenskukennara, sem allir kenndu á þeim tíma í 10. bekk.
Skólamálfræði. Hver er hún og hver ætti hún að vera? 161