Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Page 177
Spurning 3b
Það er nokkuð ljóst að ef gerður yrði skýr greinarmunur á venjulegu töluðu máli,
spjalli og formlegu rituðu máli myndi það hafa þau áhrif á málfræðikennsluna að
meiri umfjöllun yrði um uppbyggingu og orðaforða talaðs máls og mismunandi
málsnið þess til hliðar við ritaða málið og mismunandi málsnið og byggingu þess.
Jafnvel gæti það orðið til þess að málsnið yrði almennt meira á dagskrá í kennsl-
unni. Framsögn er hluti af íslenskukennslunni og það er full ástæða til að hafa
umfjöllun um uppbyggingu talmáls og mismunandi málsnið þess í tengslum við
framsagnarkennslu.
Spurning 4a
Ekki spurning að hvort tveggja á við, að kenna málfræði í samhengi við aðra þætti
íslenskunnar og líka að einhverju leyti í sérstökum tímum. Í ritun kæmi hún inn
á mismunandi málsnið og eðli þess miðað við hvers konar ritun er kennd og þá
væri forskriftin mikilvægur þáttur í kennslunni. Þegar lesnar eru bókmenntir er
mikilvægt að draga inn umfjöllun um málið þegar það á við en hins vegar er full
ástæða til að kenna málfræði sem sérstakt fag, á eigin forsendum með áherslu á
að kenna um tungumálið, en þá með sterka tengingu við raunveruleg dæmi og
mál nemendanna sjálfra og þá ekki hvað síst talað mál.
Spurning 4b
Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að gera nemendur að hæfari málnotendum,
bæði í þrengri merkingu sem tæki til tileinkunar nemenda á staðlaðri málfræði,
og í víðari merkingu sem tæki þá til orðanotkunar og orðalags ýmiss konar við
viðeigandi aðstæður. Hvað viðkemur staðlaðri málfræði reyni ég að svara því í rit-
gerðinni hvort hægt sé að hafa áhrif á málfar nemenda. Fræðin telja að það geti
gengið ef réttu aðstæðurnar eru fyrir hendi og skipti þá virðing málafbrigðis
miklu máli hversu árangursrík kennslan er. Sjálf rannsóknin gengur hins vegar
meðal annars út á að svara því hvort kennarar telji sig geta haft áhrif á mál nem-
endanna í gegnum forskriftarmálfræðina. Spurningin er þá hvort þeir séu ein-
vörðungu að reyna að hafa áhrif á málnotkun nemenda sinna eða líka málkunn-
áttuna, þ.e. innri málfræði nemendanna, þegar þeir fjalla um tilbrigði í máli.
Niðurstaðan er sú að það fari í raun eftir því hversu útbreitt óstaðlaða tilbrigðið
er hvað kennarar telja sig vera færa um að hafa áhrif á. Ef nýrra máltilbrigðið er
mjög útbreitt benda kennararnir kannski á að það sé samt ekki við hæfi við í
formlegri málnotkun og þá er markmið þeirra aðeins að hafa áhrif á málnotk-
unina við ákveðnar aðstæður. En þegar nýjungin er alls ekki mjög útbreidd að
þeirra mati, hefur meðal annars ekki náð útbreiðslu meðal fullorðinna málhafa,
eru kennararnir að reyna að hafa áhrif á málkunnáttu nemendanna þannig að þeir
hætti hreinlega að nota tilbrigðið, hverjar sem aðstæðurnar eru.
Svör við andmælum Þórunnar Blöndal 177