Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Blaðsíða 179
finnur friðriksson
Andmæli við doktorsvörn Hönnu Óladóttur
Inngangur
Það var mér mikið ánægjuefni að vera beðinn um að rýna doktorsritgerð Hönnu
Óladóttur, Skólamálfræði: Hver er hún og hver ætti hún að vera? Um markmið og
áhrif málfræðikennslu á unglingastigi grunnskóla, og vera síðan andmælandi við
doktorsvörn hennar. Ritgerðin er enda markvert og þarft framlag til umræðu á
vettvangi sem hefur um margt verið nokkuð eldfimur undanfarin ár, og jafnvel
áratugi, og einkennst á köflum af lítt yfirveguðum upphrópunum og álíka lítt
ígrunduðum tillögum um skyndilausnir. Nokkuð er til af fyrri rannsóknum á
þessu sviði en þær eru flestar takmarkaðri og veigaminni en það verk sem hér
liggur fyrir og þörfin fyrir þá heildstæðari mynd sem hér birtist hvað varðar bæði
opinberar áherslur í tengslum við málfræðikennslu og sýn kennara og nemenda á
þennan námsþátt var orðin nokkur. Einhverjar gloppur eru þó vitaskuld eftir og
Hanna hefði að ósekju mátt nýta sér betur ýmsar af þeim fyrri rannsóknum sem
vikið var að hér ofar til að undirbyggja eigin rannsókn sína, auk þess sem æskilegt
hefði verið að horfa í ríkari mæli til sambærilegra rannsókna á erlendum vettvangi
til að fá samanburð eða ný sjónarhorn þaðan.
Hér verður ekki lengra haldið í almennri samantekt á inntaki og heildaryfir-
bragði ritgerðarinnar heldur látið nægja að vísa í þeim efnum í greinargerð fyrri
andmælanda, Þórunnar Blöndal, en við höfðum með okkur fullt samráð og um
flest má líta á inngangsorð hennar sem sameiginlegt mat okkar. Við skiptum jafn-
framt skýrt með okkur verkum við sjálf andmælin, sem ég fer nú að víkja að.
Þórunn einblíndi á þá hluta ritgerðarinnar þar sem kynnt eru þau kenningakerfi
og þær hugmyndafræðilegu forsendur sem hún byggir á, auk þeirra hluta sem
gera grein fyrir þeim áherslum í skólamálfræði sem birtast í gegnum námskrár,
samræmd próf og námsefni. Í minn hlut komu hins vegar þeir þættir ritgerðar-
innar sem gera grein fyrir rannsóknarspurningum, þeim aðferðum sem beitt var
við gagnaöflun fyrir ritgerðina og þeim niðurstöðum sem rannsóknin að baki
henni leiddi til. Spurningar og athugasemdir mínar sem nú verða raktar skiptast
svo aftur í tvo meginþætti á grunni ofangreindra atriða, þ.e. þær beinast annars
vegar að aðferðafræðilegum atriðum og hins vegar að þeim niðurstöðum sem lagð -
ar eru fram í ritgerðinni og framsetningu þeirra. Spurningar um þær rannsóknar-
spurningar sem unnið var út frá og höfðu, eðli málsins samkvæmt, mótandi áhrif
á bæði aðferðir og niðurstöður, fléttast svo eftir atvikum inn í hvorn þátt um sig.