Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Síða 182
gerðarinnar á þannig rætur að rekja til þessarar kennslustundar og þeirra atriða
sem þar komu við sögu. Sem fyrr greinir er val Hönnu á þessari kennslustund
rökstutt með því að segja hún hafi verið mjög lærdómsrík og að umræðuefnið í
henni hafi verið viðfangsefni sem oft kemur fyrir á samræmdum prófum og í
námsefni, þ.e. „rétt notkun“ ópersónulegra sagna. Hér verður ekki dregið í efa að
umrædd kennslustund hafi verið lærdómsrík og að þar hafi komið fyrir atriði sem
tengdust með beinum hætti þeim atriðum sem til umfjöllunar eru í doktorsrit-
gerðinni. Eftir stendur þó að hér er aðeins um eina kennslustund að ræða og þar
með er nánast óhjákvæmilegt að leggja fram eftirfarandi spurningu:
Spurning 1e: Er kennslustund sú sem hér er unnið út frá dæmigerð hvað
varðar hvort heldur er afstöðu nemenda eða kennara? Verður nokkuð fullyrt
um þetta, sérstaklega í ljósi þess að ekki var lagst í frekari vettvangsathuganir
fyrir þetta verkefni? Er engin hætta á að hér sé nokkuð drjúgur hluti rit-
gerðarinnar og niðurstaðna hennar byggður á óþarflega afmörkuðum efnis -
þætti?
Athygli mín hefur hingað til helst beinst að því sem ekki var gert í aðferða -
fræðilegu tilliti en nú verður skipt nokkuð um sjónarhorn og vikið nánar að því
sem var gert. Eins og fram hefur komið byggði öflun gagna, umfram ýmis skrif-
leg gögn um áherslur mennta- og skólamálayfirvalda varðandi málfræðikennslu,
fyrst og fremst á viðtölum við kennara og nemendur. Þar var stuðst við ítarlega
spurningalista, eða viðtalsramma, sem óhætt er að segja að komið hafi inn á flesta
þætti málfræðikennslu og -náms, þ.m.t. afstöðu kennara og nemenda til þessa
námsþáttar. Ljóst má vera að þessir spurningalistar hafa gefið af sér umfangsmikil
gögn í formi svara viðmælenda um það hvaða augum þeir líta ýmsar hliðar
málfræði og kennslu hennar. Um leið er ljóst að þau efni sem til tals koma eru
ekki einkamálefni kennara og nemenda enda hafa þau verið talsvert til umræðu á
undanförnum áratugum, hvort heldur er í skólakerfinu eða utan þess, og á köfl-
um hefur talsverður hiti verið í þeirri umræðu. Ýmsir þræðir þessarar umræðu
geta jafnframt talist viðkvæmir með tilliti til t.d. málótta og félagslegrar stöðu
nemenda, enda vel þekkt á Íslandi sú tilhneiging að draga fólk í dilka á grunni
málnotkunar þess og -kunnáttu eða — jafnvel öllu heldur — takmarkana þess á
þessum sviðum. Ætla má að viðmælendur í rannsókninni séu flestir að einhverju
leyti meðvitaðir um hina almennu umræðu og þau viðhorf sem efst eru á baugi
hverju sinni og það leiðir af sér eftirfarandi spurningu:
Spurning 1f: Er ástæða til að ætla að bæði nemendur og kannski sérstaklega
kennarar hafi í raun alltaf sagt hug sinn? Kom aldrei upp sú tilfinning að þeir
svöruðu því sem þeir héldu að þeir ættu að segja, til að falla að hinni almennu
umræðu, ekki síst þeirri sem berst frá yfirboðurum þeirra, frekar en því sem
þeim fannst í raun og veru?
Finnur Friðriksson182