Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2017, Page 201
(5) Eruð (ft.) þér (ft.) lasin (et.), Sigríður? (Katrín Axelsdóttir 2011:68)
(6) Undirritaður (3.p.) og Jón (3.p.) skömmumst (1.p.) okkar (1.p.) fyrir ummælin.
(Wood og Einar Freyr Sigurðsson 2014:210)
Kaflinn byggir að miklu leyti á íslenskum og erlendum dæmum sem þegar höfðu
verið sett fram annars staðar af ýmsum höfundum. Mikilvægi kaflans felst í því
að ýmiss konar misræmisdæmi eru sett í samhengi hvert við annað og þau leidd
út á sams konar hátt. Þannig er því haldið fram að misræmi á borð við (4b) Ráð -
herrann er gömul sé í grundvallaratriðum sams konar og misræmið í (5)–(6).
Í 4. kafla er rætt um nýju þolmyndina/nýju setningagerðina (7a) og aðrar
setningagerðir sem eru um margt svipaðar henni, þ.e. ópersónulegu háttarsagna-
gerðina (7b), þolmynd horfasagna (7c) og afturbeygða þolmynd (7d).
(7)a. Það var sýnt þeim bæklinga áður en þau fóru.
b. Það þarf að rannsaka þetta betur.
c. Það er verið að afgreiða mig.
d. Svo var drifið sig á ball.
Í kaflanum er því haldið fram að ópersónulegu háttarsagnagerðina og þolmynd
horfasagna megi greina á sama hátt og nýju þolmyndina, en Maling og Sig ríður
Sigurjónsdóttir (2002) höfðu einmitt nefnt þann möguleika áður. Hér er höfund-
ur á svipuðum slóðum og í MA-ritgerð sinni (Einar Freyr Sigurðsson 2012) en
greining annarra setningagerða en nýju þolmyndarinnar er mun ítarlegri hér en í
MA-ritgerðinni. Hvort sem við köllum þessar setningagerðir þolmynd eða eitt -
hvað annað, þá er mjög athyglisvert að af-liðir sem vísa til geranda eru gjarnan
mögulegir í þessum setningagerðum, en þeir eru einmitt einkenni á þolmynd og
oft notaðir til að greina milli þolmyndar og annarra setningagerða.
(8)a. Það þyrfti að rannsaka þetta betur af fræðimönnum.
b. Það verður að rannsaka þetta af hlutlausum aðila og komast til botns í því.
(https://goo.gl/CbkNDE)
c. Þar er verið að halda því fram af meiri hluta utanrmn. að […]
(https://goo.gl/HT3Abn)
d En svo nefndi hann að það væri búið að sanna það af vísindamönnum að
fiskistofnar væru staðbundnir […] (https://goo.gl/HQP0wu)
Í (8a,b) er ópersónulega háttarsagnagerðin sýnd með af-lið sem vísar til geranda
og í (8c,d) er þolmynd horfasagna með slíkum lið. Aftur á móti er ýmislegt sem
þessar setningagerðir eiga sameiginlegt með germynd og því verða skilin milli
þess hvað telst til germyndar og hvað til þolmyndar mun óljósari en áður við
greiningu á þessum setningagerðum.
Í 5. kafla er lögð áhersla á ýmis úrlausnarefni sem lúta að samspili falls og
myndar (e. Voice). Það er við hæfi enda var aðalumfjöllunarefni 2. og 3. kafla fall
og samræmi en aðalefni 4. kafla mynd. 5. kafli byggir þannig að ýmsu leyti á
niðurstöðum fyrri kafla. Kaflanum er í meginatriðum skipt í þrennt. Í fyrsta lagi
fjallar höfundur um ÞGF-ÞF-formgerðir eins og sýndar eru í (9):
Ritfregnir 201