Ljósmæðrablaðið - aug. 2019, Side 6
6 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2019
Þetta er árið sem félagið okkar fagnar
100 ára afmælinu sínu. Félagið er elsta
stéttar- og fagfélag kvenna á Íslandi sem
hefur starfað óslitið frá stofnun og undir
sama nafni. Reyndar hefur LMFÍ gert
gott betur og hefur gefið út elsta tímarit
landsins, Ljósmæðrablaðið, sem komið
hefur út óslitið og undir sama nafni í 98
ár. Íslenskar ljósmæður geta því verið
hreyknar af rótum sínum og fortíð.
Í núinu er auðvelt að gleyma því sem á
undan hefur gengið og það er algengt að
litið sé á atriði í nærumhverfi okkar sem
sjálfsagðan hlut. Það gleymist að það hefur
þurft að hafa fyrir því að ná ákveðnum
hlutum fram, hlutum sem okkur þykja
sjálfsagðir núna árið 2019.
Það yrði of langt mál að telja öll baráttu-
mál ljósmæðra síðast liðna öld upp hér en
ekki hægt að láta vera að minnast þess að
það var ekki sjálfgefið að félagið yrði 100 ára. Til að halda því
lifandi hefur þurft hugsjónakonur sem létu sig fagið og stéttina
varða og voru tilbúnar að leggja á sig ómælda vinnu og baráttu
í sjálfboðavinnu. Þær gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að
ljósmæður hefðu málsvara og töluðu sem ein rödd út á við.
Ég vil þakka þessum konum sem síðustu öld hafa barist fyrir
því sem ljósmæður hafa náð fram, þeim sem lögðu grunn að
félaginu og þeirri starfssemi sem þar er nú.
Við höfum, þó að ýmislegt mætti betur fara, náð langt í þjón-
ustu við konur bæði hér heima og einnig í alþjóðlegu samhengi.
Ljósmæður njóta mikillar góðvildar í íslensku samfélagi og til
marks um það þá var auðfengið leyfi til að leggja minningar-
stein um stofnun félagsins í götu að Laugavegi 20 þar sem
félagið var stofnað. Mér vitanlega hafa engin önnur stéttar og/
eða fagfélög sambærilegt minnismerki.
Erlendar ljósmæður líta einnig á okkur sem fyrirmynd og
telja sig hafa mikið að sækja til íslenskra ljósmæðra. Má segja
að það hafi komið skýrt fram á nýafstaðinni NJF ráðstefnu
sem sett var á afmælisdegi félagsins þann 2. maí s.l. Metfjöldi
erlendra gesta sótti ráðstefnuna eða rúmlega 700 manns frá
27 þjóðlöndum. Ráðstefnan tókst í alla staði mjög vel og var
íslenskum ljósmæðrum til sóma.
Það þýðir ekki bara að horfa til fortíðar þó að frekar glæst sé.
Við verðum líka að líta fram á veginn. Hvernig viljum við hafa
starfsemi félagsins næstu 100 ár?
Nú er það liðin tíð að fólk vinni mikla sjálfboðavinnu,
en þannig hefur félagið mikið til verið rekið hingað til. Allt
umhverfi samfélagsins er gjörbreytt og ljósmæður verða að
leiða hugann að því hvernig við viljum kynna okkur út á við
– hvernig á sameiningartákn okkar (félagið) að vera? Þetta eru
spurningar sem tíminn mun leiða í ljós hvernig verður svarað
en það er gott að leiða hugann að því engu að síður.
Ég talaði hér að ofan um baráttumál ljósmæðra sem hafa
verið mýmörg en kjarabaráttan kemur þó
óneitanlega fyrst upp í hugann. Kjarabar-
átta er í eðli sínu síendurtekin barátta og
hefur núna undanfarin 10 ár verið mjög
hatrömm og stutt á milli átaka. Nú eru
samningar enn einu sinni lausir og hafa
verið í nokkra mánuði. Samstarf er milli
félaga BHM í þessari lotu þó að hvert og
eitt félag hugsi um hagsmuni sinna félags-
manna. Ríkið vill helst gera sambærilegan
samning og við Eflingu og VR, sem kall-
aður hefur verið lífskjarasamningur. Það
er samningur sem hentar alls ekki okkar
félagsmönnum og þarf að finna aðra lausn
eða útfærslu á samningum en þá sem er nú
á borðinu. Það sem virðist þó lofa góðu
að þessu sinni er umræða um styttingu
vinnutímans en stjórnvöld virðast í fyrsta
skipti hafa alvöru áhuga á því að semja um
styttingu og væri þá eitt af baráttumálum
LMFÍ til margra ára loks komið í höfn ef samningar um það
nást fram.
Stefnt er að því að ljúka samningum í september en það sem
ég hef lært á kjarabrölti undanfarinna ára er að ekkert er öruggt
þar til búið er að skrifa undir. Ég er því hæfilega bjartsýn á það.
Haustið er handan við hornið með nýjar áskoranir, ljúka þarf
kjarasamningum, yfirfara þarf flesta stofnanasamninga þar sem
framgangskerfi er væntanlegt á stofnanir utan Landspítalans,
halda þarf daglegri starfssemi gangandi og margt margt fleira.
Nýtt og spennandi verkefni bíður okkar strax eftir áramót,
því Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur tilnefnt árið 2020
sem ár ljósmóðurinnar (og hjúkrunarfræðinga), The Year of
the Nurse and Midwife. Við verðum að nota okkur það til að
auka sýnileika okkar og gera eitthvað skemmtilegt bæði fyrir
okkur og aðra áhugasama. Á heildina litið eru því bjartir tímar
framundan fyrir ljósmæður og ég óska ykkur öllum farsældar í
starfi í vetur.
Áslaug Íris Valsdóttir,
formaður Ljósmæðrafélags Íslands
Á VA R P F O R M A N N S L M F Í
2019 - STÓRT ÁR
Í LÍFI LJÓSMÆÐRAFÉLAGS ÍSLANDS
Stjórn Ljósmæðrafélagsins í mars 2019, Guðlaug María Sigurðardóttir, Inga
Sigríður Árnadóttir, Hafdís Guðnadóttir, Áslaug Valsdóttir, Steina Þórey Ragnars-
dóttir og Katrín Sif Sigurgeirsdóttir.