Ljósmæðrablaðið - aug. 2019, Side 32
32 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2019
NIÐURSTÖÐUR
Í frásögnum kvennanna komu fram fjölbreytilegar ástæður fyrir því
hvers vegna brjóstagjöfin gekk illa og flestar lýsa sársauka og vanlíðan
við brjóstagjöfina. Endurteknar sýkingar og sár á geirvörtum voru
algeng vandamál, sveppasýkingar og innfallnar geirvörtur sömuleiðis,
lítil eða engin mjólkurframleiðsla eða að mjólkurframleiðsla dettur
niður. Sumar konurnar náðu aldrei að koma brjóstagjöf af stað,
aðrar náðu stuttri brjóstagjöf og hjá enn öðrum voru erfiðleikarnir
tímabundnir og stóðu yfir í vikur eða mánuði. Konurnar lýstu flestar
sársauka og vanlíðan við brjóstagjöfina, eins og Birna sem „engdist
um af kvölum.... til þess að sjá bara nokkra blóðdropa í glösunum en
enga mjólk“ og Eva sem sagði: „á tímabili hefði ég þegið það með
þökkum ef einhver hefði skorið af mér brjóstin og saumað fyrir“.
Margar kvennanna lýstu því yfir að fæðingin hafi verið barnaleikur í
samanburði við þann sársauka sem þær upplifðu við brjóstagjöfina.
Áslaug sagði: Brjóstagjöfin var „stanslaus barningur og erfiðleikar“ og
Agla var „gjörsamlega sturluð af svefnleysi og vanlíðan“. Sylvía lýsti
reynslu sinni með eftirfarandi hætti:
Við komum heim og aftur tók við mjög erfiður tími. Hann
náði ekki réttu taki á brjóstinu og sárin mín urðu bara stærri
og stærri. Þegar hann loksins náði taki á brjóstinu þá var það
svo sárt að ég grét allan tímann sem hann drakk. Ég var með
stórt opið sár og geirvartan við það að detta af.
Verkefnið að reyna að koma brjóstagjöfinni í gott horf
Þegar vandamál komu upp vegna of lítillar framleiðslu var konunum
ráðlagt að auka mjög fjölda gjafa og leigja sér þar að auki rafknúna
mjaltavél sem þær sátu í þess á milli til þess að örva framleiðsluna.
Eins og margar bentu á þýddi þetta í raun að þær voru alltaf annað-
hvort að gefa (eða reyna að gefa) eða í mjaltarvélinni. Öll tilvera þeirra
gekk út á þetta verkefni að koma brjóstagjöfinni í gott horf. Ein líkti
upplifuninni af því að vera föst við mjaltavélina við stofufangelsi og
aðrar minnast á að enginn tími hafi verið til þess að njóta nýja barnsins
eða sinna grunnþörfum, allt gekk út á að koma mjólkinni af stað. Agla
orðaði þetta með þessum hætti:
Þegar ég rifja upp þessar vikur sem ég reyndi brjóstagjöfina
þá líður mér illa. Þetta var slæmt tímabil fyrir mig, barnið
og manninn. Á þessum tíma var ég einhvern veginn bara að
„hamast“ í brjóstagjöfinni. Það snérist allur sólarhringurinn
um að næra soninn. Ég þekkti í raun ekki þetta barn, var
ýmist að vekja hann eða svæfa, pumpa mig, gefa honum
brjóst eða pela. Það var enginn tími til að horfa á barnið,
njóta þess að halda á honum og vera móðir hans. Eða bara
njóta þess að vera í fæðingarorlofi með manninum mínum.
Andleg líðan flestra mæðranna var mjög slæm og margar minntust
á þunglyndi, kvíða og jafnvel áfallastreituröskun sem fylgifisk reynsl-
unnar. Sjálfsmynd þeirra sem mæðra og kvenna biðu mikla hnekki
og þær upplifðu það margar hverjar að hafa brugðist barninu sínu.
Kristín sagði: „Mín upplifun var sú að ég væri að bregðast honum,
ég væri óhæf móðir og hann myndi dafna miklu betur ef ég væri
ekki á staðnum“. Þær ræddu um kraumandi samviskubit, áhyggjur af
heilsufari barnsins og framtíðarhorfum. Þær upplifðu sig sumar sem
annars flokks mæður sem hefðu brugðist skyldum sínum gagnvart
barninu. Þórunn kjarnar upplifun margra kvennanna með eftirfarandi
tilvitnun: „Ég skammaðist mín, ég var að feila á því eina sem kona á
að geta gert“.
Konurnar voru flestar hvattar áfram af heilbrigðisstarfsfólki til þess
að reyna allt til þess að láta brjóstagjöfina ganga upp og gefast alls
ekki upp. Soffía gerir grein fyrir því hvernig bæði hún sjálf, sem og
heilbrigðisstarfsfólkið leit ekki þurrmjólkurgjöf sem valmöguleika og
hvernig brjóstagjöfin var það eina sem kom til greina.
Mér fannst þetta ömurlegt tímabil þar sem þetta olli miklum
kvíða hjá mér og mér fannst ég vera að bregðast barninu
mínu. Hins vegar er ég mjög þrjósk og það kom aldrei til
greina að gefa honum neitt annað en brjóstamjólk, enda stakk
aldrei neinn upp á því við mig. Í rauninni átti ég frekar að
kveljast og svelta barnið mitt heldur en að gefa honum eitt-
hvað annað.
Í sumum sögunum má greina ákveðna hetju-frásögn, þar sem konur
reyna allt, vaða eld og brennistein og ná loks að sigra líkamann með
mikilli þrautseigju. Þessi orðræða stillir þeim upp sem hetjum sem
tókst að uppfylla sitt líffræðilega hlutverk og koma loks á og viðhalda
langri brjóstagjöf. Þær tala um mikið keppnisskap, mikilvægi þess að
þrauka og segjast jafnvel hafa verið haldnar þráhyggju. Þær eru stoltar
af því að hafa ekki gefist upp og persónulegar fórnir þeirra hafi skilað
sér. Hetjurnar eru þær sem ná upp farsælli og ánægjulegri brjósta-
gjöf eftir mikla vinnu og streð, en innan þessarar orðræðu eru skúrk-
arnir, þær mæður sem gefast of fljótt upp, fylgja ekki í einu og öllu
ráðleggingum heilbrigðisstarfsfólksins og umfram allt eru álitnar hafa
ekki reynt nógu mikið (Andrews og Knaak, 2013).
Að bíða eftir „græna ljósinu“
Samskipti nýbakaðra mæðra við ljósmæður og annað heilbrigðis-
starfsfólk eru afar mikilvæg og þó að nokkrar konur lýsi samskiptum
sínum við heilbrigðisstarfsfólk sem afskaplega góðum, þar sem
stuðningur var mikill og áhersla lögð á vellíðan og heilsu móður og
barns, þá er engu að síður ljóst að meirihluti þátttakenda í rannsókn-
inni upplifði samskiptin og þjónustuna ekki með góðum hætti. Það
var augljóst á sögum kvennanna að til þess að þær gætu eða mættu
hætta að reyna brjóstagjöfina þá þyrftu þær að fá „grænt ljós“ frá ljós-
mæðrum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki. Bergþóra lýsti reynslu sinni
af samskiptum við ljósmæður á þennan hátt: „Ég reyndi og reyndi....
ég reyndi allt. Enginn hlustaði. Ég upplifði mikla óþolinmæði hjá
starfsfólki... upplifði mikla pressu að gefa brjóst. Það var ekki eins
og annað kæmi til greina“. Margar kvennanna eru sárar og undrandi
yfir því hve lengi þær voru látnar kveljast og að velferð barnsins hafi
ekki verið tryggð. Aðalheiður útskýrir þetta með þessum hætti: „Ég er
með mikið „keppnisskap“ og það í bland við eindregna hvatningu frá
öllum að gefast ekki upp leiddi hreinlega til þess að sonur minn fékk
alls ekki nógu mikla næringu fyrstu 6 vikurnar“. Agla hafði svipaða
sögu að segja af syni sínum: „Þegar hann var 10 daga gamall lenti hann
á bráðamóttöku barna vegna næringarskorts. Þá var okkur boðið viðtal
við brjóstaráðgjafa sem sagði að ég skyldi halda áfram það væri ekkert
að brjóstunum eða soginu“.
Konurnar upplifðu margar hverjar að þær hefðu ekki heimild til þess
að ákveða hvort að tilraunum til brjóstagjafar yrði hætt og barnið fengi
þurrmjólk. Friðrika sagði í þessu samhengi: „Ég vildi undir yfirborðinu
að einhver tæki af mér völdin og segði mér að ég þyrfti að hætta
þessu... Mér fannst allir vera að dæma mig“. Breski mannfræðingur-
inn Charlotte Faircloth (2013) hefur réttilega bent á að af öllum þeim
þáttum sem snúa að móðurhlutverkinu sé brjóstagjöf, og í raun það að
gefa börnum að borða, sá þáttur sem hefur hvað mestan siðferðilegan
undirtón og það birtist okkur með skýrum hætti hér, þar sem orðræðan
um hina „góðu“ móður viðurkennir aðeins ákveðna hegðun og afstöðu
um leið og andstæðar hugmyndir eru skilgreindar sem óviðeigandi.
Ef konurnar eiga aftur á móti að hafa möguleika á því sjálfar að segja
hingað og ekki lengra, ég er hætt að reyna þá gefa þær um leið færi á
því að þær sjálfar séu skúrkarnir innan þessarar orðræðu, móðirin sem
fórnaði sér ekki nægilega mikið fyrir barnið sitt, vonda móðirin. Því
virðist sem að þurfi oftar en ekki að vera einhver utanaðkomandi aðili
sem hefur vald til þess að segja hingað og ekki lengra, þú hefur reynt
nóg, þú stóðst prófið. Elísa orðar þessa algengu löngun vel þegar hún
segir: „ég hefði viljað heyra það að sama hvað ég gerði þá væri ég góð
móðir“.
Þær konur sem voru ánægðar með þjónustuna og samskiptin við
heilbrigðisstarfsfólk áttu það sameiginlegt að hafa upplifað mikinn
stuðning þar sem áherslan var á heilsu og velferð bæði móður og barns
og þar sem brjóstagjöf var ekki sett fram sem ófrávíkjanleg krafa.
Sumar kvennanna vísuðu til samræðna við heilbrigðisstarfsfólk sem
studdi þær vel á vegferð sinni til þess að koma brjóstagjöf af stað,
en talaði líka um þurrmjólk á jákvæðum nótum og þá staðreynd að