Bændablaðið - 06.10.2016, Qupperneq 21
21Bændablaðið | Fimmtudagur 6. október 2016
Í slag við bandarísku risana
Deutsche Bank hellti sér af alvöru
út á alþjóðamarkaðinn á tíunda
áratug síðustu aldar. Þar tók hann
stöðu í slag við stóru bandarísku fjár-
festingabankana eins og JP Morgan
og Goldman Sachs og var þar í topp-
baráttunni. Varð hann mjög vinsæll
meðal fjárfesta þegar stórt var veðjað.
Það er einmitt hluti af vanda bankans
í dag þótt móðurfélagið sé enn talið
tiltölulega stöðugt gagnvart banka-
regluverkinu. Simon Jack segir að
þar sé móðurfélagið þó aðeins 4 pró-
sentustigum yfir lágmarkskröfum um
eigið fé. Vandi bankans snúist hins
vegar um að venjuleg bankaviðskipti,
þar á meðal kreditkortaviðskipti, séu
hlutfallslega lítil í samanburði við
fjárfestingahlutann, að því er segir í
umfjöllun BBC.
Fjármálaráðherrann segir
bankann traustan sem grjót
Segir Jack að það séu einkum tveir
menn sem reyni að tala upp orðstír
bankans til að koma í veg fyrir
ofsahræðslu, „panic“, á markaði.
Annar er núverandi forstjóri bank-
ans, John Cryan, sem sé mjög íhalds-
samur og með báða fætur á jörðinni.
Honum hafi þrátt fyrir allt tekist að
draga úr skuldum bankans.
Hinn er þýski fjármálaráðherrann,
Wolfgang Schaeuble, sem sagði á
síðasta ári að Deutsche Bank væri
traustur sem grjót. Það var væntan-
lega sagt til að fullvissa almenning og
viðskiptavini bankans um að þýska
ríkið muni aldrei láta svo mikilvægan
banka falla.
Ekki er þó víst að menn geti stað-
ið við slíkt þegar á hólminn verður
komið. Benda má á að samkvæmt
umfjöllun BBC voru ítölsk yfirvöld
í sumar að íhuga að klippa á reglur
um að ríkið ábyrgist fallvalta banka.
Almenningur í Evrópulöndum er
fyrir löngu búinn að fá nóg af að taka
á sig ábyrgð af glæfralegum útlánum
til fífldjarfra fjárfesta og fallvaltra
ríkja. Meiri innspýtingu af almannafé
inn í einkarekið bankakerfi landanna
ef til hruns kæmi yrði örugglega ekki
tekið þegjandi.
Vefsíða American Banker fjall-
aði líka ítarlega um stöðu Deutsche
Bank í sumar. Vísað var í umfjöllun
í Wall Street Journal sem sagði að
fjármálstjóri bankans, Stefan Krause,
væri nú undir mikilli pressu þar sem
tilraunir til að rétta bankann af væru
langt undir væntingum.
Að morgni þriðjudags í síðustu
viku rann kalt vatn milli skinns og
hörunds á fjármálaspekingum kaup-
hallanna þegar hlutabréf í bankanum
virtust ætla að sökkva í það óend-
anlega. Voru þau þá komin niður
í lægsta virði í 30 ár. bréfin héldu
áfram að falla fram eftir vikunni og
eru nú nálægt lægstu stöðu sem sést
hefur.
Þrætt fyrir neyðaráætlun
Orðrómur um að þýska ríkisstjórnin
væri að undirbúa neyðarplan vegna
mögulegs falls bankans kynti þó
undir óttanum. Í grein sem Sara Sjolin
skrifaði á vefsíðu MarketWatch að
morgni 28. september segir að þýsk
stjórnvöld hafi þrætt fyrir að neyð-
aráætlun væri í smíðum. Þar er samt
vitnað í þýska blaðið Dei Zeit, sem
hafi greint frá því þá um morguninn
að þýska ríkisstjórnin væri tilbúin
að taka 25% hlut í bankanum ef allt
færi á versta veg. Þetta þrætti þýski
fjármálaráðherrann, Martin Jäger,
þó fyrir í samtali við breska blaðið
Guardian.
Þýski bankinn stóð þá frammi
fyrir 14 milljarða dollara sektarkröfu
bandaríska dómsmálaráðuneytisins.
Þótt samið verði um lægri upphæð
eru menn farnir að efast um að bank-
inn geti staðið undir slíkum áföllum
nema með aðstoð þýska ríkisins.
Á fimmtudag í síðustu viku bár-
ust svo fréttir af því að hinn þýski
Commerzbank, sem stofnaður var
1870 og er næststærsti banki lands-
ins, væri líka í kröggum og hygðist
segja upp yfir 9 þúsund starfsmönn-
um. Hlutabréf í þeim banka hafa
líka fallið mjög ört á undanförnum
mánuðum.
„Evran er ógn við framtíð
Evrópu“
Sú ákvörðun að búa til sameigin-
legt myntbandalag með upptöku
evru í ESB-ríkjunum hefur líklega
gert stöðu evrulandanna verri við
að eiga en ella ef marka má orð
Nóbelsverðlaunahagfræðingsins
Joseph Eugene Stiglitz. Nýjasta bók
hans segir það líka berum orðum á
forsíðu: „Evran er ógn við framtíð
Evrópu.“
Evran var sett í gang 1. janúar
1999 þrátt fyrir ábendingar um að
slíkt myntbandalag gæti aldrei geng-
ið almennilega upp nema á bak við
það stæði sameiginleg efnahags-
stjórn allra aðildarríkja myntarinnar.
Fleiri virtir hagfræðingar bentu á
að það þyrfti fyrst að taka pólitíska
ákvörðun um raunverulega sam-
einingu ESB-ríkjanna í Bandaríki
Evrópu með einn sameiginlegan
seðlabanka. Viðskipta- eða tolla-
bandalag dygði þar ekki til. Blásið
var á þær viðvaranir en sagan hefur
þó verið að leiða í ljós að viðvar-
anirnar áttu fullkomlega rétt á sér.
Hins vegar hafa nokkrir leiðtogar
ESB unnið að því hörðum höndum
á undanförnum misserum og árum
að koma á nánari sameiningu, sem
nú hefur m.a. leitt til þess að Bretar
eru á leið út úr ESB. Hefur sú sam-
einingarvinna nú verið sett á ís að
kröfu Frakka.
Útópísk hugmynd um
sameiginlega mynt Evrópu án
sameiginlegs bakhjarls
Það að ríki taki upp mynt annars
ríkis, eða þess vegna sameiginlega
mynt margra ríkja eins og evru, getur
vissulega gengið ef viðkomandi ríki
stjórna sínum efnahag nákvæmlega
í takt við það ríki sem sterkast er. Í
tilfelli ESB hefur Þýskaland verið
efnahagslega stöðugasta ríkið og
var evran reyndar miðuð við þýska
markið og var jafngild því í verðmati
við upptöku.
Að haga sínum efnahagsmálum
í takt við Þýskaland hefur engu
aðildarríki tekist fullkomlega. Til
að reyna það hafa sum ríki fórnað
ansi miklu í sinni þjóðfélagsskip-
an. Þannig hafa atvinnuvegir lagst
af víða og flust til annarra landa.
Fólksflótti hefur líka orðið úr dreif-
býli. Þetta hefur valdið kergju og
vaxandi spennu milli hins ríkari
hluta ESB og fátækari ríkjanna.
Skurðarlínurnar í þessum átökum
liggja aðallega á milli Suður- og
Norður-Evrópu, en einnig á milli
Vestur- og Austur-Evrópu sem
blandast togstreitu fyrrum áhrifaríkja
Sovétríkjanna við Rússland.
Visegrad-hópurinn
Blokkamyndun ríkja inna ESB er
orðin ansi áberandi og ekki annað
að sjá en að ríkin stefni hvort í sína
áttina. Bretar hafa þegar kosið að
yfirgefa ESB og forseti Tékklands
vill líka kosningu um málið í sínu
landi þrátt fyrir að vera sjálfur fylgj-
andi aðild.
Tékkland tilheyrir hópi ríkja
sem kallaður er Visegrad-hópurinn.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi
ritstjóri Morgunblaðsins, komst
skemmtilega að orði fyrir skömmu
um þessa hópamyndun ESB-ríkja
eins og sjá má á vefsíðu hans (styrm-
ir.is).
Visegrad-hópurinn samanstendur
af Póllandi, Tékklandi, Ungverja-
landi og Slóvakíu. Ríkisstjórnir
þessara ríkja eiga það m.a. sameig-
inlegt að vilja stöðva innkomu flótta-
manna sem Angela Merkel, kanslari
Þýskalands, er sögð hafa kynt undir.
Þessi ríki eru líka á móti því að taka
við tilskipun frá ESB um að kvóta-
skipta flóttamönnum á milli landa.
Austurríkismenn hafa einnig
miklar áhyggjur af þessu og
Christian Kern, kanslari Austurríkis,
vill ákveðnari aðgerðir til að taka
á vandanum með uppbyggingu í
heimalöndum flóttamannanna. Hefur
Austurríki þar leitt viðræður annars
óformlegs ríkjahóps á Balkanskaga
sem líka hefur átt við flóttamanna-
vanda að etja.
MED-hópurinn
Í Suður-Evrópu er stór hagsmuna-
hópur ESB-ríkja, svokallaður
EU-MED hópur og samanstendur
af ríkjum eða strandsvæðum sem
flest liggja að Miðjarðarhafi. Innan
þess hóps eru Portúgal, Spánn,
Frakkland, Ítalía, Grikkland, Kýpur
og Malta. Þar á bæ eru menn síður
en svo hrifnir af yfirgnæfandi áhrif-
um Þjóðverja í ESB. MED-verkefni
ESB var viðleitni til að veita þróunar-
styrkjum til verkefna í sunnanverðri
Evrópu á árunum 2014 til 2020. Er
það fjármagnað að 85% í gegnum
European Regional Development
Fund (ERDF). Virðist 250 milljarða
evra innslag í þann pott þó varla ætla
að duga til að lægja óánægjuraddir
í hópnum. Flest þessara ríkja glíma
við gríðarlegan flóttamannavanda,
ekki síst Grikkir og Ítalir.
Falleg hugsjón
Evrópusambandið er byggt á þeirri
fallegu hugsjón í kjölfar seinni heims-
styrjaldarinnar að unnt væri að koma
í veg fyrir frekari blóðsúthellingar
milli nágrannaþjóða í Evrópu. Það
yrði gert í skjóli viðskiptahagsmuna.
Í blindri hrifningu yfir þessari
hugsjón hafa sumir pólitískir flokkar
á Íslandi tekið það á stefnuskrá sína
að gera Ísland að hluta að ESB. Meira
að segja hefur verið stofnaður sér-
stakur stjórnmálaflokkur á Íslandi til
að vinna að framgöngu málsins og að
taka upp evru. Virðist fólk þá ganga
út frá að ástandið sé enn það sama
og var fyrir 15 til 20 árum. Viðreisn,
eins og sá flokkur heitir, virðist þó
vera að átta sig á að staðan sé ekki
eins glæsileg og menn þar á bæ hafa
viljað trúa.
Myntráð sem byggir á því að halda
íslensku krónunni, en binda hana við
einhvern tiltekinn erlendan gjaldmiðil
eða myntkörfu margra gjaldmiðla,
sýnir vel þann viðsnúning. Það er
vissulega mjög áhugaverð hug-
mynd sem vert er að skoða í þaula.
Spurningin er bara hvort kjósendum
finnist hún trúverðug frá fólki sem
fyrir stuttu síðan flaggaði eindregnum
vilja til að taka upp evru.
Nýleg skoðanakönnun sýnir svo
sömu neikvæðu afstöðu þjóðarinnar
til inngöngu í ESB og verið hefur
í fjölda ára. Því er vægast sagt sér-
kennilegur málflutningur aðildar-
sinna um að nauðsynlegt sé að þjóð-
in fái að kjósa um hvort aðildarferli
sem hafið var 27. júní 2011 og var
stöðvað 2013 verði haldið áfram. Eða
að heimild verði gefin til að kíkja í
pakkann eins og litlu börnin segja.
Það aðildarferli hófst einmitt án þess
að þjóðin fengi tækifæri til að svara
fyrst spurningunni um hvort hún vildi
ganga í ESB eða ekki. Ef skoða á
eitthvað frekari viðræður við ESB, þá
hlýtur þjóðin að eiga rétt á að svara
því fyrst hvort hún vilji að Ísland
gerist aðildarríki ESB eða ekki. Fái
tækifæri til að svara því með jái eða
neii. Öll umræða um pakkatal í þessu
samhengi virðist því vart vera annað
en sérkennilegur blekkingarleikur.
Vertu viðbúinn vetrinum
LÉTTAR – STERKAR – TRAUSTAR
SNJÓKEÐJUR
Hafðu samband og kynntu þér
vöruúrvalið og þjónustuna
Svokallaður Visegrad-hópur er hagsmunabandalag Póllands, Tékklands,
Ungverjalands og Slóvakíu innan Evrópusambandsins. Hann er andsnúinn
stefnu Þjóðverja í flóttamannamálum.
Svokallaður EU-MED hópur samanstendur af ríkjum eða strandsvæðum
sem flest liggja að Miðjarðarhafi. Innan þess hóps eru Portúgal, Spánn,
Frakkland, Ítalía, Grikkland, Kýpur og Malta. Þar á bæ eru menn síður en
svo hrifnir af yfirgnæfandi áhrifum Þjóðverja í ESB.