Bændablaðið - 06.10.2016, Page 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 6. október 2016
New Holland dráttar-
vélaframleiðandinn
hefur framleitt land-
búnaðar- og jarð-
vinnsluvélar frá 1895.
Fyrirtækið var stofnað
í New Holland-sýslu,
Pennsylvaníu-ríki í
Bandaríkjunum en
er í dag hluti af CNH
Global.
Fyrirtækið var stofnað
af Abe Zimmerman sem
var laghentur járnsmiður.
Í fyrstu framleiddi hann smærri
landbúnaðartæki í húsnæði sem
áður var hlaða. Upp úr aldamót-
unum 1900 hóf Belginn Leon
Claeys framleiðslu á þreskivélum
undir heitinu Sperry Corporation
skammt frá New Holland-
verksmiðjunni.
Kaup og sala
Árið 1947 sameinuðust fyrirtækin
undir Sperry New Holland. Árið
1974 seldi Sperry New
Holland hluta fram-
leiðslunnar til Ariens
og framleiðsla hætti
um hríð hjá Sperry New
Holland. Ford keypti
svo það sem eftir var
af fyrirtækinu árið 1986
og tók upp nafnið Ford
New Holland.
Samsteypan var
seld til Fiat árið 1991
og við það varð til N.H.
Geotech. Dráttarvélar
sem seldar voru af fyrirtækinu
á árunum 1991 til 1993 voru af
tveimur gerðum, rauðbrúnn Fiat
New Holland og blár Ford New
Holland.
Árið 1991 keypti Ford
New Holland Versatile Farm
Equipment Company í Kanada
og tveimur árum síðar skipti N.H.
Geotech svo um nafn og tók upp
heitið New Holland N.V.
Þegar Fiat keypti Case
IH árið 1999 sameinaðist
það New Holland N.V. og
skipti aftur um nafn og
heitir í dag CNH Global
N.V. og er stærsta drátt-
arvélasamsteypa í heimi.
Í dag framleiðir CNG
Global dráttarvélar undir
heitunum New Holland
og Case IH. Auk þess
sem fyrirtækið framleiðir ýmsar
gerðir af vinnuvélum. Fyrirtækið
rekur 14 verksmiðjur í 5 heims-
álfum og er með umboðsaðila í
170 löndum.
Heybindivélar
New Holland heybindivélar nutu
mikilla vinsælda hér á landi á
sínum tíma og þegar mest var voru
nokkur þúsund slíkra í notkun í
baggaheyskap á býlum um allt
land. Baggar þóttu mikil bót frá
því að hirða laust hey auk þess
sem auðveldara þótti að gefa með
þeim.
Vetnisknúin dráttarvél
Dráttarvélaframleiðandinn New
Holland hefur verið að gera
athyglisverðar tilraunir og búið
til fyrstu vetnisknúnu dráttarvél í
heimi. Í grunninn er byggt á New
Holland T6000 og er vetnisvélin
kölluð NH2. Vetnið er ekki notað
beint til að knýja sprengihreyfil,
heldur efnahverfil sem framleiðir
raforku fyrir rafmótora sem knýja
vélina áfram. Þetta er í raun sama
aðferð og Mercedes Benz hefur
unnið að þróun á og hefur meðal
annars verið notuð í nokkrum
strætisvögnum á Íslandi á liðnum
árum. /VH
New Holland – Hluti af stærstu
dráttarvélasamsteypu í heimi
Utan úr heimi
Lofthiti jarðar hefur ekki verið
hærri í 115 þúsund ár samkvæmt
því sem segir í skýrslu tólf núver-
andi og fyrrverandi loftslagsvís-
indamanna.
Samkvæmt skýrslunni hefur loft-
hiti jarðar hækkað um 1,25 gráður á
Celsíus frá upphafi iðnbyltingarinnar
og um 0,18 gráður á hverjum áratug
síðustu fimm áratugina.
Í skýrslunni kemur fram að til
þess að standast markmið loftslags-
ráðstefnunnar í París á síðasta ári
þurfi að draga gríðarlega úr losun
efna út í andrúmsloftið sem valda
hlýnuninni og langt umfram sam-
þykkt ráðstefnunnar.
James Hansen, einn höfundur
skýrslunnar, segir á tæru að ef ekki
verði dregið úr losuninni munum við
draga verulega úr lífsgæðum kom-
andi kynslóða og ákveðnir hlutar
jarðar verða óbyggilegir.
Í framhaldi af fréttum sem þess-
um er áhugavert að velta fyrir sér
öllu tali um loftslagsmengunarkvóta
og hvaða gagn er í þeim. Í dag geta
lönd höndlað sín á milli með kvót-
ann og þau sem menga meira keypt
kvóta af þeim sem menga minna. Á
pappírum lítur því út fyrir að þau
sem menga mest mengi minna og
þau sem menga minna mengi meira
og þannig jafnast losunin milli landa.
Slíkt er ekkert annað en hvítþvottur,
en ekki lausn. /VH
Ekki er hægt að taka það sem sjálf-
sagðan hlut að hægt sé að tryggja
öllum íbúum heimsins aðgang
að vatni á 21. öldinni. Þetta kom
fram á alþjóðlegri ráðstefnu um
vatnsmálin sem Alþjóðabankinn
(The World bank) stóð fyrir nú í
september. Vatnsöryggi þjóða er
því hugtak sem farið er að flagga
í sömu andrá og orðið fæðuöryggi.
Ört vaxandi vatnsskortur orsakast
af vaxandi eftirspurn eftir vatni sam-
fara breytingum á vatnsuppsprett-
um og hlýnun jarðar. Ef ekki verður
gripið í taumana mun vatnsskortur
draga úr hagvexti sumra svæða
jarðar um 6% til 2050. Af þessum
ástæðum telur Alþjóðabankinn
nauðsynlegt að taka ákveðnari skref
til að snúa þróuninni við. Þá verði
alþjóðasamfélagið að horfa meira
til vatnsöryggis og gera ráðstafan-
ir til að tryggja íbúum aðgengi að
neysluvatni. Þetta var líka meginvið-
fangsefni ráðstefnunnar og fundar
alþjóðlegu vatnsauðlindasamtak-
anna (IWREC) sem haldin voru
á vegum Alþjóðabankans 11.–13.
september síðastliðinn. Þetta var í
annað sinn sem bankinn stendur fyrir
slíkri ráðstefnu. Var ráðstefnan undir
yfirskriftinni Vatnsöryggi í breytt-
um heimi, eða „Water Security in a
Changing World“.
Um 50 erindi voru haldin um
alla mögulega þætti þessa málefnis
á ráðstefnunni. Laura Tuck, varafor-
maður Alþjóðabankans, fjallaði um
mikilvægi þess að vatn sé nýtt með
sjálfbærum hætti. Það sé lykillinn að
þróun allra annarra þátta í mannlegu
samfélagi.
„Ef þú getur ekki sýnt vatnsöflun-
inni virðingu, þá getur þú ekki heldur
mætt nauðsynlegum sjálfbærnimark-
miðum.“
Quentin Grafton frá Australian
National University var aðalræðu-
maður ráðstefnunnar. Hann sagði
að vatnsskortur væri ekki eitthvað
sem væri vandi framtíðar og snerti
einungis fátæk samfélög.
„Vatnsöryggi er nokkuð sem
skiptir alla máli. Það birtist aðeins
í mismunandi myndum og vægi.“
Grafton benti á að erfitt gæti verið
að meta verðgildi vatns, en reynt sé
að finna lausn á því. Stakk hann upp
á að reynt yrði að finna út eitthvert
meðaltal varðandi verðgildi vatns-
auðlinda og eins verðgildi vatns sem
hægt væri að nota í viðskiptum.
Á ráðstefnunni kom greinilega
í ljós að mikil vinna er fram undan
til að tryggja vatn fyrir grunnþarfir
fólks. Þá var bent á mikilvægi þess
að meta áhættu samfara vatnsöflun.
Susanne Scheierling, fyrr-
um áveituhagfræðingur hjá
Alþjóðabankanum og ein af skipu-
leggjendum ráðstefnunnar, undir-
strikaði nauðsyn þess að taka vatns-
málin inn í þróunarvinnu í víðu sam-
hengi. Þótt flestir litu á vatnsskort
sem staðbundinn vanda, þá væri
nauðsynlegt að læra af reynslunni og
rannsóknum og miðla þeim áfram.
Hagfræðingar í vatnsmálum, bæði
í þróuðum og vanþróuðum ríkjum,
spiluðu þar stóra rullu.
Vatnsskortur fer vaxandi í mörg-
um heimshlutum. Aðkoma og fram-
lag vatnshagfræðinga verður því
stöðugt mikilvægara. Ekki aðeins
fyrir einstök verkefni, heldur ekki
síður fyrir greiningu og stefnumót-
unarvinnu.“
Þess má geta að vatnsmálin eru
víðar til umræðu um þessar mund-
ir og m.a. verður haldin alþjóðleg
ráðstefna um vatn í Marrakesh í
Marokkó nú í nóvember (CDP's
2016 Global Water Forum). /HKr.
Vatnsöryggi mál málanna á
ráðstefnu Alþjóðabankans
Hlýnun jarðar:
Ekki heitara í 115 þúsund ár