Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.03.2020, Side 15
– Spilar kynið hér einhverja rullu?
„Hugsanlega. Karlar eru alla jafna stolt-
ari en konur og eiga fyrir vikið erfiðara
með að viðurkenna vanmátt sinn og mistök.
Keyra frekar áfram, þangað til hlutirnir
verða helmingi verri. Þegar fyrirtæki eru á
hlutabréfamarkaði eru menn gjarnan í
kapphlaupi við einhverja skammtímahags-
muni. Mér er eðlislægara að hugsa til lengri
tíma.“
Óhætt er að fullyrða að Rannveig hafi
verið á fullri ferð allt sitt líf. Eins og fram
hefur komið var hún í vatnamælingum með
föður sínum í samtals ellefu sumur. Hún
lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við
Sund árið 1980, lauk námi frá Vélskóla Ís-
lands árið 1983, og kláraði sveinspróf í vél-
virkjun árið 1985, fyrst kvenna. Hún lauk
námi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands
árið 1987 og MBA-námi frá San Francisco-
háskóla í Bandaríkjunum árið 1989. Að
loknu námi í vélvirkjun var hún í nokkur
sumur vélstjóri á togurum. Árið 1990 hóf
Rannveig störf í álverinu í Straumsvík og
sinnti þar ýmsum stjórnunarstörfum þang-
að til hún tók við starfi forstjóra. Hún var
m.a. deildarstjóri öryggis- og umhverfis-
mála, talsmaður fyrirtækisins, steypuskála-
og kerskálastjóri, þar til hún var ráðin for-
stjóri fyrirtækisins árið 1996 en hún tók við
starfinu í ársbyrjun 1997. Náminu var þar
með ekki lokið en í fyrra nældi Rannveig
sér í meistarabréf í vélvirkjun.
Byrjar á því að sofa
Hún hlær þegar spurt er hvernig það komi
til með að henta henni að slaka á og hvíla
sig í nokkra mánuði. „Mér líst mjög vel á að
kynnast því. Ég stíg hægt og rólega inn í
þetta verkefni en reikna ekki með að enda
sem jógakennari,“ segir hún hlæjandi
„Nú set ég sjálfa mig og heilsuna í önd-
vegi og ætli ég byrji ekki bara á því að sofa
eins mikið og ég get, til að safna kröftum.
Ég hef alltaf átt auðvelt með svefn þangað
til að undanförnu, að höfuðverkirnir fóru að
vekja mig fyrir allar aldir. Ég á yndislega
fjölskyldu og vini og hlakka til að verja
tíma með þeim á næstunni, ekki síst barna-
börnunum mínum tveimur. Ég á að hreyfa
mig og mun halda áfram í Boot Camp og
fara í sund og gönguferðir, þegar veðrið
skánar. Svo hef ég gaman af því að hlusta á
hljóðbækur. Ég held ég hefði einnig gott af
því að komast í annað umhverfi og langar
að fara til útlanda, svo fremi sem kórónu-
veiran leyfir. Ég hef svo sem ferðast um
allan heim gegnum tíðina, mikið í tengslum
við starfið. Ég hef aldrei komið til Tene.“
Hún hlær.
„Að öllu gríni slepptu þá vona ég að ég
hafi áttað mig á þessum veikindum í tæka
tíð og að verið sé að grípa inn í á réttum
tíma. Ég verð að aftengja frá Straumsvík
og fá algjöra hvíld. Annars geta afleiðing-
arnar orðið skelfilegar. Þetta er svolítið
eins og í díselvélfræðinni; þegar maður of-
keyrir vélina þarf að taka af henni álag.
Eins hræðileg og veikindi pabba voru þá
má segja að öllum þessum árum síðar sé
gott að hafa þó lært af þeim; hefði þetta
ekki komið fyrir pabba hefði ég örugglega
hunsað öll einkennin og keyrt áfram. Síð-
asta sumar þurfti ég sem forstjóri að taka
erfiða ákvörðun um að taka kerskála 3 í
Straumsvík úr rekstri vegna þess að hann
var ekki lengur öruggur. Fyrst ég gat tekið
hann úr rekstri hlýt ég að geta gert það
sama við sjálfa mig,“ segir hún brosandi og
bætir við: „Ég er frekar varkár að eðlisfari
og það vinnur með mér núna. Maður gerir
víst ekkert úr „kassanum“, eins og einn
vinnufélagi minn segir. Þeir tala enga tæpi-
tungu þarna í Straumsvík.“
Hún brosir.
Heilsan ekki sjálfsögð
– Ertu hrædd?
„Já, ég viðurkenni það. Þetta var högg og
ég er ennþá að átta mig á því að ég sé kom-
in á þennan stað. Maður getur alls ekki tek-
ið heilsunni sem sjálfsögðum hlut. Pabbi var
miklu hraustari en ég þannig að maður get-
ur ímyndað sér hvernig færi fyrir mér fengi
ég heilablóðfall. Mér finnst líka dálítið
óhugnanlegt að yngsta dóttir mín er jafn-
gömul í dag og ég var þegar pabbi veiktist,
nítján ára. Annars reyni ég að ýta hræðsl-
unni frá mér. Þess í stað lít ég á þetta sem
verkefni og tækifæri. Ætla að einbeita mér
að því næstu mánuðina.“
– Ertu bjartsýn á að ná fullum bata?
„Já, læknirinn minn telur alveg raunhæft
að ég nái mér að fullu og verði aftur á mín-
um sextán sílendrum, að því gefnu að ég fái
algjöra hvíld frá öllu álagi næstu mánuðina.
Ég er ekkert sérstaklega heppin en ég hef
verið farsæl gegnum tíðina. Maður velur
ekki í hverju maður lendir í þessu lífi en
maður velur hvernig maður vinnur úr því.
Trú mín er sú að hlutirnir hafi tilhneigingu
til að fara vel – sérstaklega ef maður vinnur
að því.“
Morgunblaðið/RAX
’Að sumu leyti hefði veriðauðveldara að haldabara áfram og taka áhætt-una. Það þarf hugrekki til að
stíga til hliðar og setja sig
þar með á skotskífuna. En í
mínum huga er engin
skömm að veikjast og gefa
sér tíma til að ná heilsu á ný.
1.3. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15
Það sætti miklum tíðindum þegarRannveig var ráðin forstjóri ÍSALárið 1997. En hvað hefur breyst á
þessum 23 árum varðandi konur í æðstu
stjórnunarstöðum stærri fyrirtækja?
„Konur hafa menntunina og eru komnar
lengra. Þær vilja stjórna en þrátt fyrir það
gengur þessi þróun mjög hægt fyrir sig.
Stjórnir fyrirtækja ráða ekki fólk til
starfa, heldur framkvæmdastjórnir og það
þarf, að mínu viti, að jafna kynjahlutföll í
framkvæmdastjórnum til þess að koma
meiri hreyfingu á þessi mál. Blandaðar
framkvæmdastjórnir eru miklu víðsýnni en
þær sem eru bara skipaðar körlum. Árið
2020 finnst mér eðlilegt að ekkert fyrir-
tæki ætti að fást skráð á verðbréfaþing
nema að það standi sig í jafnréttismálum.
Eins umhverfismálum. Einnig mætti hugsa
sér að umbuna fyrirtækjum, sem standa
sig í þessum mikilvægu málaflokkum, með
afslætti gagnvart sköttum eða öðrum
gjöldum.“
Hún segir karllæga menningu í fyrir-
tækjum seigari en hún bjóst við. „Annars
þarf það svo sem ekkert að koma á óvart; sýnt hefur verið fram á
að menn hafa tilhneigingu til að ráða fólk til starfa sem líkist
þeim sjálfum og þeir tengja við. Þannig að karl ræður gjarnan
karl. Þess vegna er svo mikilvægt að fjölga konum í fram-
kvæmdastjórnum. Hafandi sagt það þá gengur konum í stjórn-
unarstöðum almennt mjög vel og er treyst fyrir stærri verkefnum
en áður var. Kannski er ég bara svona óþolinmóð og leið yfir því
að þetta þurfi að vera enn á dagskrá.“
Hún brosir.
Spurð um álverið í Straumsvík þá segir Rannveig alla jafna
ganga vel að ráða konur, hámenntaðar annars vegar og ófag-
lærðar hins vegar, til starfa. Öðru máli gegni um iðnmenntaðar
konur enda séu þær ennþá alltof fáar. „Þess vegna fagna ég átak-
inu hjá Tækniskólanum og öðrum og að rafvirkjar hafi valið sér
konu sem formann. Þetta telur allt og hjálpar til við að vekja at-
hygli og áhuga á iðngreinunum.“
Hún segir mikilvægt að konur haldi sínu striki í iðngreinum;
„Við erum með fáar, en mjög öflugar iðnmenntaðar konur í
Straumsvík.“
Samkomulag um fyrirkomulagið
Þegar einstaklingur tekur að sér krefjandi og tímafrekt starf, líkt
og það sem Rannveig gegnir, er mikilvægt að samvinna sé heima
fyrir. Gildir þá einu hvort einstaklingurinn er kona eða karl. „Við
hjónin ræddum þetta mjög vandlega fyrir 30 árum áður en ég
þáði stjórnunarstarf í Straumsvík. Fyrir lá að starfið yrði eril-
samt. Umræðuna tókum við svo aftur áður en ég þáði forstjóra-
starfið því ljóst var að það krefðist mikilla ferðalaga erlendis.
Maðurinn minn gerði sér grein fyrir þessu og vissi frá upphafi að
hann yrði að sjá um heimilið í minni fjarveru. Og öfugt. Þetta
hefur aldrei verið vandamál enda gerðum við samkomulag um
fyrirkomulagið áður en lagt var upp í þessa vegferð.“
Spurð hvort hún hefði þurft að gera slíkt samkomulag væri
hún karlmaður svarar Rannveig: „Ég veit það ekki. Ef til vill
ekki. En auðvitað ætti það að vera þannig. Ég geri mér grein fyr-
ir því að ríkjandi viðhorf í samfélaginu er ennþá á þann veg að
konur beri meiri ábyrgð á heimilinu en karlar. Sem betur fer er
það þó að breytast. Í mínu tilviki hafði maðurinn minn ekki minni
áhuga á því en ég sjálf að ég tæki þetta starf að mér. Það er ekki
sjálfgefið að það sé alltaf þannig. En lykilatriðið er að reikna
aldrei með neinu; svona lagað þarf að vera á hreinu áður en mað-
ur er kominn út í djúpu laugina. Það er vont að þurfa að hafa
áhyggjur af heimilinu og öðru sem nálægt manni stendur í erli
dagsins.“
Þrátt fyrir annríki í starfi hefur Rannveig alltaf gætt þess að
gefa sér drjúgan tíma með fjölskyldunni. Hún er til dæmis bara í
einum félagsskap sem hittist utan dagvinnutíma – og það er
saumaklúbbur. „Ég tek helst ekki að mér verkefni sem kalla á
viðveru utan hefðbundins vinnutíma; frítíma mínum vil ég verja
með fjölskyldu og vinum.
Rannveig veitir Jafnréttisverðlaunum Hafnarfjarðar viðtöku árið 2001 fyrir hönd ÍSAL. Með henni á
myndinni eru Magnús Gunnarsson bæjarstjóri og Magnús Heimisson, formaður jafnréttisnefndar.
Morgunblaðið/Þorkell
Karllæga menningin seig