Morgunblaðið - 25.04.2020, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 25.04.2020, Blaðsíða 25
Amma átti mikið af fallegum skóm og það var mjög spennandi fyrir litla stúlku að kíkja í skó- skápinn hennar og dunda sér við að máta. Afi og amma ráku Skóverslun Kópavogs í mörg ár og þar kom glöggt fram hve amma var mikil smekkmanneskja, var hún jafnan óaðfinnanlega til fara, alltaf vel tilhöfð um hárið, en það var mikill metnaður hjá henni alla tíð. Fyrir mig voru mikil forrétt- indi að hafa séð um hárið á ömmu í meira en 30 ár, það var ljúft að spjalla við hana, ég fékk fréttir af stórfjölskyldunni og fann hversu annt henni var um fólkið sitt, hvað það væri að gera, hvert það væri að fara og hvenær það kæmi aftur. Það var í raun ótrúlegt hvað hún náði að halda vel utan um þennan fjölda af afkomendum og hvað var að gerast í þeirra lífi. Í seinni tíð var mjög verðmætt að hafa hana hjá okkur sum jól og áramót sem ég minnist með hlý- hug og kærleika. Hún var mjög þakklát fyrir það sem fyrir hana var gert. Þetta eru skrýtnir tímar sem við erum að upplifa, erfitt fyrir fjölskylduna að geta ekki hitt hana síðustu vikurnar og fyrir hana að skilja af hverju enginn kom. Þó var yndislegt að börnin hennar fengu að vera hjá henni síðasta sólarhringinn. Ég kveð ömmu með söknuði, en einnig miklu þakklæti. Minning hennar er ljós í lífi okkar. Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Sveinbjörn Egilsson) Þín Freyja. Elsku Guðríður amma okkar er farin frá okkur. Okkur systrum fannst svo sjálfsögð tilhugsun að hún yrði hjá okkur miklu lengur þó svo hún væri orðin 95 ára. Að við gætum heimsótt hana hvaða dag sem var og hún tæki á móti okkur brosandi með útbreiddan faðm- inn. Að ganga inn í hreina og fal- lega heimilið, fá hlýjuna á móti sér, kaffi og kræsingar og amma óaðfinnanleg í fallegu fötunum sínum eins og drottning til fara. Þetta var nokkuð sem okkur þótti svo sjálfsagt fyrir örfáum vikum en er núna minningin ein sem við munum halda fast í. Við systur og amma áttum svo einstaklega fallegt og gott sam- band sem erfðist til barnanna okkar. Þau elskuðu að heimsækja ömmu enda fengu þau að leika sér með gamla dótið í kassanum og fá eitthvað gott að borða. Bestar þótti henni þó heimsókn- irnar þar sem við systur og mamma okkar komum að kvöldi til. Þá sagði hún okkur sögur frá því í gamla daga, bæði frá lífinu á Patró og fallega ástarsögu þeirra afa. Það er einstaklega dýrmætt að eiga minningu um kvöldið okk- ar saman fyrir síðustu jól þegar við bökuðum sörur, fengum okk- ur jólabjór og sérrí og hlustuðum á gömul jólalög. Við vorum allar svo ánægðar með kvöldið og amma sagði að það jafnaðist á við jólin sjálf. Þá eigum við margar aðrar yndislegar minningar frá jólunum, þá sérstaklega hefðina til 15 ára, þegar við skrifuðum saman jólakort. Æska okkar ljómar öll af hlýj- um minningum um ömmu og afa en við nutum þeirra forréttinda að hafa þau heima hjá okkur oft í viku. Alltaf var tekið á móti okkur með hlýju, kærleika og mikilli gleði, já og auðvitað hreinu heim- ili og samanbrotnum þvotti. Sum- ar helgar fengum við að fara til ömmu og afa í sumarbústaðinn, en það tók iðulega 4-5 klukku- stundir að keyra í Borgarfjörðinn með afa við stýrið og amma var alltaf að hægja á honum. Í bú- staðnum voru svo kræsingar í hverri máltíð og við komum lík- lega töluvert búttaðri heim. Lífið verður allt örðuvísi án elsku ömmu okkar og við eigum eftir að sakna hennar mikið enda var hún ekki bara amma okkar heldur einnig ein af okkar bestu vinkonum. Við munum sakna þess að geta ekki heimsótt hana í Garðabæinn og njóta þess að amma stjani við okkur og finna þegar hún breiðir yfir okkur teppi á meðan við slökum á í sóf- anum, enda var hvergi betra að vera. Minning um dásamlega konu lifir. Takk fyrir allt. Þínar ömmustelpur, Rakel, Guðríður Harpa og Brynja. Mig langar í nokkrum orðum að minnast hennar Íðu minnar sem nú hefur lagt upp í sína hinstu för. Hugurinn reikar mörg ár aftur í tímann, á Hátröðina í Kópavogi þar sem ég dvaldi oft á tíðum hjá fjölskyldunni. Ég var ekki há í loftinu þegar ég kom þangað fyrst, naut alltaf góðs atlætis, enda kallaði ég þau mamma hin og pabbi hinn. Jólin sem ég dvaldi með fjöl- skyldunni á Hátröðinni eru mér afar minnisstæð, allt tilbúið og skreytt. Við Ásgeir sátum saman í herberginu inn af eldhúsinu á aðfangadag og hlustuðum á jóla- lög, „Litli trommuleikarinn“ og „Jólin alstaðar“, þessi litla plata Ellýjar og Vilhjálmser ein af mín- um uppáhalds. Svo fékk ég möndluna …, einhver laumaði henni í diskinn minn. Í mörg ár var heimsókn á Há- tröðina á aðfangadag fastur liður þar sem Íða bar fram smákökur og aðrar kræsingar, enda mikil húsmóðir og á ég margar góðar uppskriftir frá henni. Íðu féll ekki verk úr hendi og var handverks- kona mikil, barnabörnin okkar hafa fengið að njóta góðs af því. Af mörgu er að taka sem skemmtilegt er að rifja upp frá samveru okkar frændfólksins í Aðalvík, farið í gufubað, horft niður í fjöru, til fjalla, og út á sjóinn eða bara setið í sólinni og spjallað saman. Hressing í Fjósatungu meðan beðið var eftir bátnum. Í mínum huga er ómet- anleg gjöfin þegar Íða gaf mér bók þeirra hjóna „Sléttuhreppur fyrrum Aðalvíkursveit“, bók sem ég hafði lengi leitað. Í minningunni sé ég Íðu alveg fyrir mér frammi í vatni, með orm á öngli að draga upp hvern silunginn af öðrum, hvílík aflakló. Heimsóknir til hennar á Garðatorgið seinni árin hafa ein- kennst af spjalli um fólkið okkar, alltaf boðið upp á kaffi og með- læti. Ýmislegt rifjað upp um gamla góða tíma, farið yfir víðan völl enda árin hennar orðin rúmlega níutíu og fimm og frá mörgu að segja. Meðal annars rifjaði hún upp minningar frá æskuárunum á Patreksfirði, svei- tadvöl hjá frændfólki í Trostans- firði og þegar hún kom til Reykjavíkur með Önnu frænku sinni og dvaldi hjá frændfólki á Öldugötu 4 þar sem hún hitti hann Ásgeir sinn. Þetta voru notalegar stundir sem ég er svo þakklát fyrir. Að leiðarlokum, takk fyrir allt, Íða mín, og góða ferð í sumar- landið. Guðrún Brynja og fjölskylda. MINNINGAR 25 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. APRÍL 2020 ✝ Valdine De-anne Thor- bjorg Bjornsson (Geirholm) fæddist í Selkirk í Manitoba í Kanada 23. nóv- ember 1938. Hún lést í Gimli Mani- toba 4. apríl 2020. Foreldrar hennar voru hjónin Gudny og Kjartan Geir- holm sem voru bæði af íslenskum ættum. Eftir- lifandi systkini hennar eru Les Geirholm og Francine Albert- son. Árið 1959 giftist Valdine Richard Bjornsson. Hann lést 5. maí 2005. Foreldrar hans voru hjónin Margaret Bjornsson og Larus Bjornsson, bæði af ís- lenskum ættum. Valdine og Richard eignuðust fjóra syni, Kent Lárus, Shawn, Blair og Dean, barnabörnin eru fjögur og lang- ömmubörnin tvö. Valdine var alin upp hjá fjölskyldu sinni í Gimli en þau Richard bjuggu alla tíð í Fraser- wood, rétt hjá Gimli, þar sem þau ráku rjómabú. Valdine vann utan heimilis við skrifstofustörf, hjá landbúnaðarráðuneyti Mani- tobafylkis eftir að synirnir voru komnir á skólaaldur. Valdine gat rakið ættir sínar til Ölfuss í Árnessýslu, Syðstahvamms í Vestur-Húnavatnssýslu, Innri- Ásláks-staða á Vatnsleysu- strönd og Þyrils í Hvalfirði. Bálför hefur farið fram en minningarathöfn verður haldin í Gimli í júlí. Mamma var mikil fjölskyldu- manneskja, átti marga vini og hafði einlægan áhuga á samferða- fólki sínu. Hún skipulagði ættar- mót fyrir stórfjölskylduna og tók saman ættartölur sínar og pabba. Mamma stjanaði við okkur fjöl- skylduna og vini okkar bræðra og sá til þess að allir væru saddir og sælir. Hún var einstaklega stolt af ís- lenskum uppruna sínum og hún og pabbi ferðuðust margoft til Ís- lands, í fyrsta sinn árið 1979. Þau nutu þess að skoða landið en að- allega þess að heimsækja ætt- ingjana og vini. Upp úr 1970 juk- ust samskipti Íslendinga og fólks af íslenskum uppruna í Kanada og mamma tók þátt í móttöku fjölda Íslendinga sem lögðu leið sína til Manitoba. Mamma var líka virk í starfi Gimli Icelandic Canadian Society og Þjóðrækn- isfélags Íslendinga í Vesturheimi. Hún tók þátt á mörgum ráð- stefnum og vann sjálfboðavinnu á New Iceland Heritage Museum, Íslendingasafninu í Gimli. For- eldrar okkar áttu húsbíl í mörg ár og ferðuðust á honum vítt og breitt um Norður-Ameríku. Barnabörnin og síðar langömmu- börnin áttu hug mömmu allan og hún elskaði að vera amma þeirra. Eftir að hún missti pabba flutti hún aftur til Gimli og bjó þá fyrst í íbúð í Aspen Park og síðar í Wa- terfront Centre, íbúðum aldr- aðra. Einu sinni í viku kom hópur fólks saman í kaffistofunni í Wa- terfront og talaði saman á ís- lensku. Það voru ánægjustundir fyrir mömmu því hún hafði ekki svo mörg tækifæri til þess að tala íslensku sem hún kunni vel þó hún væri af annarri kynslóð fólks af íslenskum ættum sem fætt var í Kanada. Við munum aldrei gleyma þér. Við elskum þig, hvíl í friði. Góða nótt, elsku mamma. Þínir synir, Kent Lárus, Shawn, Blair, Dean og fjölskyldur. Valdine Björnsson hefur átt sérstakan stað í hjarta mínu al- veg frá því ég kynntist henni fyrst og mér hefur alltaf fundist hún vera frænka mín. Reyndin er að eiginmaður hennar, Richard Björnsson, var frændi minn og þau fjölskyldan komu fyrst til Ís- lands sumarið 1979 og dvöldu hjá okkur í Safamýri. Með komu þrír af fjórum sonum þeirra, Shawn, Blair og Dean, og fannst mér mjög skemmtilegt að kynnast frændfólki mínu sem komið var alla leið frá Vesturheimi. Þau áttu þá heima í Fraserwo- od í Manitoba í Kanada og rak fjölskyldan þar rjómabú. Marg- aret, mamma Richards, hafði komið nokkrum árum fyrr í heim- sókn til okkar en á þessum árum, milli 1970 og 1980, opnaðist fyrir kynni fjölskyldna okkar. Við það má segja að alveg nýr heimur hafi opnast fyrir okkur því á árunum þar á eftir kynntumst við fjöl- mörgum ættingjum okkar, bæði við heimsóknir þeirra til okkar og í ferðum okkar til Manitoba. Það var mikil upplifun að heimsækja Gimli og nágrenni og kynnast því hve Íslandi, menningu þess og tungumáli er gert hátt undir höfði og ég fann vel hve velkomin við vorum, gestirnir frá gamla landinu. Kent Lárus, elsti sonur Vald- ine og Richards, kom haustið 1979 til Íslands til þess að vinna og læra íslensku. Hann hefur mörg síðustu ár verið búsettur á Íslandi, er netstjóri við MH og leiðsögumaður. Tengsl Valdine við Ísland hafa alla tíð verið sterk, hingað gat hún rakið ættir sínar, hún talaði góða íslensku og þau hjón komu oft til landsins en eftir fráfall Richards kom hún hingað ásamt sonum sínum og barnabörnum. Valdine tók líka á móti fjölda Íslendinga sem komu til Mani- toba og gestrisni hennar fengum við fjölskyldan svo sannarlega að njóta því hún var óþreytandi að keyra með okkur um Íslendinga- slóðirnar í kringum Gimli og segja okkur frá fólkinu sem þar bjó. Hún tók saman ættartölur og skipulagði stór ættarmót enda harðdugleg og mjög skipulögð. Síðasta heimsókn hennar til Íslands var í ágúst 2018. Þá ferð- uðust hún og Dean um landið og heimsóttu vini og ættingja og ég sá vel hvað hún naut þess að sjá landið og hitta fólkið sitt. Ég og fjölskylda mín þökkum góð kynni, tryggð og vináttu. Blessuð sé minning Valdine Björnsson. Þórdís Lilja Jensdóttir. Valdine Deanne Thorbjorg Bjornsson Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, INGIBJÖRG GUÐRÚN MAGNÚSDÓTTIR, andaðist 11. apríl á heimili sínu við Norðurbrún. Vegna heimsfaraldurs verður útförin aðeins fyrir nánustu aðstandendur en minningarathöfn verður haldin síðar. Fjölskyldan þakkar starfsfólki við Norðurbrún 1 fyrir kærleiksríka umönnun undanfarna mánuði. Guðrún Jóna Kristjánsdóttir Vitor Soares Málfríður Agnes Kristjánsd. Ólafur Þór Jónsson Emil Örn Emilsson Gunnlaugur Jóhann Emils. Kristín Heiða Ásgeirsdóttir barnabörn og barnabarnabörn Elskulegi faðir okkar, sonur, bróðir og mágur, BENEDIKT JÚLÍUS JÓNASSON, Hátúni 10a, lést fimtudaginn 16. apríl á heimili sínu. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu hefur útförin farið fram í kyrrþey. Aðstandendur þakka auðsýnda samúð og vinarhug. Áslaug María Sigurður Rúnar Guðni Veigar Elísa Björt Guðný Emilsdóttir Guðlaugur Fr. Sigmundsson Sigmundur Fr. Guðlaugsson Tinna Sædal Jónsdóttir Birgir Már Guðlaugsson Sigríður Fanney Guðlaugsdóttir Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, JÓNAS RUNÓLFSSON, Vogatungu 19, Kópavogi, lést á líknardeild LSH í Kópavogi miðvikudaginn 22. apríl. Fjölskyldan vill koma á framfæri þakklæti til starfsfólks göngudeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala við Hringbraut og líknardeildar í Kópavogi fyrir kærleiksríka umönnun. Útförin fer fram í kyrrþey vegna aðstæðna. Hinrik Jónasson Edda Friðgeirsdóttir Kristín Jónasdóttir Þórhallur Haukur Reynisson Hulda Jónasdóttir Guðjón Ingólfsson barnabörn og barnabarnabarn Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma AÐALHEIÐUR ÁSGERÐUR DAVÍÐSDÓTTIR lést á Landspítalanum við Hringbraut, þriðjudaginn 21. apríl. Útförin mun fara fram í kyrrþey, vegna aðstæðna í samfélaginu. Davíð Jón Ingibjartsson Stella Leifsdóttir Nielsen Sverrir Geir Ingibjartsson Dröfn Guðbjörnsdóttir Sigrún Ingibjartsdóttir Björn Þórisson Halldóra Ingibjartsdóttir Sæmundur B. Ingibjartsson Jónína Sigurjónsdóttir Eyrún Ingibjartsdóttir Heimir Konráðsson J. Rúnar Ingibjartsson Ragnheiður S. Hjörleifsdóttir barnabörn og aðrir aðstandendur Ástkær eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, JÓHANN LÍNDAL JÓHANNSSON, fyrrv. rafveitustjóri, Vallarbraut 6, Njarðvík, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fimmtudaginn 23. apríl. Útför auglýst síðar. Elsa Dóra Gestsdóttir Agnes Jóhannsdóttir Bessi Þorsteinsson Hreinn Líndal Jóhannsson Anna Dóra Lúthersdóttir Jóhann Gestur Jóhannsson Svava Tyrfingsdóttir María Líndal Jóhannsdóttir Elías Líndal Jóhannsson Guðlaug Helga Sigurðsdóttir Lína Dalrós Jóhannsdóttir Gunnlaugur Þór Ævarsson barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.