Harmonikublaðið - 01.12.2016, Blaðsíða 21

Harmonikublaðið - 01.12.2016, Blaðsíða 21
/\ÆúuUMý Jóhann Haukur Jóhannsson f. 8. júní 1929 - d. 19. ágúst 2016 Félagi okkar til margra ára Jóhann Haukur Jóhannsson er látinn. Hann var fæddur 8.6. 1929 og lést þann 19.8. 2016. Haukur eins og hann var ávallt kallaður, var Húnvetningur og það vissu allir sem þekktu Hauk enda var hann stoltur af því. Hann var fæddur að Bjarnastöðum í Vatnsdal í Austur Húnavatnssýslu. Leiðir okkar lágu saman fyrir um 25 árum þegar ég gekk í Harmonikufélag Reykjavíkur, en þá gegndi Haukur formennsku í félaginu. Ég var á byrjunarreit en Haukur hokinn af reynslu og með betri spilurum félagsins. Of langt væri upp að telja alla þá viðburði sem hann tók þátt í á vegum Harmonikufélags Reykjavíkur en óhætt er að segja að hann hafi verið ein af þessum styrku stoðum, sem ávallt voru tilbúnar að taka að sér hin ýmsu verkefni. Harmonikan var hans líf og yndi eins og allra þeirra sem kynnst hafa þessu dásamlega hljóðfæri. Hann fór ungur að spila á harmoniku bæði á dansleikjum og við mörg önnur tækifæri og hefur mér verið sagt að hann hafi verið eftirsóttur dansspilari í Húnaþingi og víðar á sínum yngri árum. Eitt er það lag sem við í félaginu höfum tengt alveg sérstaklega við Hauk en það er lagið Lördagsvalsen og finnst okkur það lag vera hans aðalsmerki en Haukur spilaði lagið alltaf af mikilli innlifun, lipurð og taktfestu. Einstaklega vel gert. Nokkrar ferðir höfum við farið saman á vegum HR innanlands sem og utan og þá eins og alltaf var spilagleðin í fyrirrúmi ásamt góðum félagsanda. En nú ferð þú einn í þessa ferð sem þegar er hafin hjá þér Haukur minn, ferðina sem við munum öll fara í að lokinni þessari jarðvist, en ég veit að það verður vel tekið á móti þér og þú munt örugglega taka vel á móti okkur þegar þar að kemur. Við hugsum með hlýju og virðingu til Hauks, sem gekk til liðs við Vitatorgsbandið íyrir um 8 árum, en það var mjög ánægjulegt að fá hann í bandið enda góður liðstyrkur. Við í Vitatorgsbandinu þökkum Hauki fyrir samspilið ennfremur trausta og góða vináttu og biðjum guð að blessa okkar kæra félaga. Rögnu og fjölskyldu sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Góða ferð kæri vinur. Vitatorgsbandið Guðrún Guðjónsdóttir Stefán Þórisson f. 22. júní 1930 - d. 28. september 2016 Þann 28. september síðastliðinn lést Stefán Þórisson harmonikuleikari, sem öllum harmonikuunnendum mun af góðu kunnur. Stefán var fæddur í Hólkoti í Reykjadal 22. júní 1930, bóndi þar og atvinnubílstjóri. Hann ólst upp í Reykjadalnum þar sem tónlistarlíf var blómlegt, stundaði nám í Laugaskóla, lærði ungur á harmoniku og keypti sína fyrstu nikku 18 ára. Hann var farinn að spila fyrir dansi um tvítugt. Hann var einn af stofnendum Harmonikufélags Þingeyinga, gegndi þar bæði formennsku og öðrum félagsstörfúm og var virkur fram á síðasta dag. Hann var gerður að heiðursfélaga 2014. Stefáns er sárt saknað af öllum félögum. Hann var frábær harmonikuleikari og góður félagi. Mér er ógleymanlegt fyrsta skiptið sem ég heyrði hann spila á samkomu. Það geislaði svo af honum fjörið. Hann var félagslyndur og drífandi hvar sem hann kom og húmoristi. Hann var glaðsinna ljúfmenni og sérlega skemmtilegur ferðafélagi. Fjörið var alltaf kring um hann enda snjall sögumaður. Það var ekki til svo ómerkilegt atvik að Stefán sæi ekki á því skemmtilegu hliðina og hvetti okkur hagyrðingana til að yrkja um það. Hann hló innilegast sjálfur ef um hann var ort og hlátur Stefáns var smitandi. Svona minnist Friðrik Steingrímsson Stefáns og ég er sannfærð um að félagarnir allir sem einn gætu tekið undir það. Minningin um gleðigjafa glaðist nú sem aldrei jyr, síðustu þá hljóðnað hafa Hólkots nikku tónarnir. Stefán var giftur Gunnhildi Sigríði Guðmundsdóttur, sem einnig er látin og eignuðust þau sex börn. Við félagar í Harmonikufélagi Þingeyinga þökkum fyrir ótal ánægjustundir, mikið starf í þágu félagsins og tónlistarinnar og sendum fjölskyldu Stefáns og Ingu vinkonu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur. Fyrir hönd.H.F.Þ. Hólmfríður Bjartmarsdóttir 21

x

Harmonikublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Harmonikublaðið
https://timarit.is/publication/1088

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.