Fréttablaðið - 09.01.2021, Blaðsíða 23
Mistök að flytja aftur austur
Bóel var aðeins 19 ára gömul þegar
hún f lutti til Reykjavíkur með
fyrrum sambýlismanni sínum sem
hún á þrjú börn með, en alls á Bóel
fjögur börn.
„Árið 2007 ákváðum við svo að
gefa því séns að flytja aftur austur,
þá til Reyðarfjarðar, þegar álverið
opnaði og við fengum þar góð störf.
Ég vissi að það var rangt fyrir mig að
fara aftur austur en lét tilleiðast að
prófa.“
Bóel segir sérlega minnisstætt
þegar pökkunarfyrirtæki Alcoa
kom að ganga frá f lutningum. „Ég
sat þarna og sá lífi mínu í Reykjavík
vakúmpakkað og bara grét.“
Bóel bjó á Reyðarfirði í tíu ár
og segist alltaf hafa liðið sem hún
væri að koma heim þegar hún fór
til Reykjavíkur. „Og aldrei langaði
mig aftur austur. Þessi samfélags-
gerð bara hentar mér ekki, en að
sama skapi var mikið auðveldara að
vera þar með þrjú börn á aldrinum
eins árs til tólf ára. Hversdagurinn
er mikið auðveldari og erindum
dagsins er lokið mikið fyrr.“
Einhleypir óvelkomnir
Árið 2008 skildi Bóel við fyrri barns-
föður sinn og stóð ein uppi með þrjú
börn í samfélagi þar sem allir þekkja
alla og segir það að mörgu leyti hafa
verið erfiða upplifun.
Eftirminnilegt atvik kom upp
þegar hún var í Þorrablótsnefnd á
Reyðarfirði og skrifaði stöðuupp-
færslu á Facebook þar sem hún gagn-
rýndi sveitunga sína á Fáskrúðsfirði.
Gagnrýnin sneri að því að fráskild-
um væri enn eitt árið ekki hleypt á
Hjónaball þeirra Fáskrúðsfirðinga,
aðalskemmtun ársins í þorpinu.
„Á svona stað labbar maður ekki
inn á skemmtistað eða kvikmynda-
hús svo fólk er duglegt að búa til sína
eigin afþreyingu. Til að mynda er
rík hefð fyrir matarklúbbum og svo
eru það þorrablótin sem allir bíða
eftir. Þetta eru stærstu viðburðirnir
ár hvert, en á Fáskrúðsfirði er ekki
haldið þorrablót og stærsta skemmt-
un þeirra yfir veturinn er hið fræga
Hjónaball.
Sjálf ætlaði ég ekkert á ballið en
þetta hafði verið mikið í umræð-
unni. Til að mynda er vinkona mín
þaðan fráskilin og mátti ekki mæta,
en hefði hún misst manninn sinn
hefði hún verið velkomin. Árlega
kemur það upp í umræðuna að
þessu mætti breyta, þó svo ég skilji
líka að sumir vilji halda í áratuga-
langar hefðir. En það er ósanngjarnt
að þeir sem eru fráskildir eða ein-
hleypir þurfi að sitja heima á stærsta
kvöldi ársins og geta varla tekið þátt
í samtölum á vinnustöðum bæjarins
næstu tvær vikur. Ég benti á þetta og
því var ekki tekið vel, ég held ég hafi
verið opnunaratriði ballsins sem ég
ekki mátti mæta á, þar sem mynd af
mér var varpað upp á risaskjá,“ segir
hún og hlær.
Of mikið að gera allt ein
Bóel bjó ein með eldri börnunum
þremur í fjögur ár eftir skilnaðinn.
„Í minningunni er ég einhvern veg-
inn alltaf á sumardekkjum því ég
hef ekki efni á vetrardekkjum, alltaf
að bera Bónuspoka og það er alltaf
grenjandi barn í aftursætinu,“ segir
Bóel með glettnistón enda nógu
langt um liðið.
„Ég hélt alltaf að ég hefði haldið
andliti gagnvart börnunum en það
er bara ógeðslega fokking erfitt að
vera mamma, að sjá fyrir öllu, eiga
að standa sig vel í vinnu, eiga líka
að gera allt á heimilinu plús það
sem maki hafði áður gert. Að þurfa
að hringja og láta vita að spindilkúl-
urnar séu farnar í bílnum, fara með
hann í smurningu en líka flétta hár
og mæta á alla foreldrafundi. Þetta
er bara of mikið. Að reka heimili
á einum tekjum er illa gerlegt og
afkomu kvíðinn stöðugur.”
Á þessum tíma upplifði Bóel í
fyrsta sinn alvarlegt kvíðakast og
segir einu ástæðuna fyrir því að hún
hafi ekki hringt í 112 og tilkynnt að
hún væri að fá hjartaáfall vera þá að
hún náði ekki í símann. „Þetta voru
fyrstu merki um að ég væri ekki í
góðum málum.“
Bóel kynntist svo seinni barns-
föður sínum og voru þau í sambúð í
þrjú ár og fjórða barnið bættist við.
Þau skildu árið 2015 og segir Bóel þá
reynslu hafa verið sér erfiðari, aðal-
lega þar sem hún hafi borið miklar
eldri byrðar, óuppgerðar. „Ég var
hvorki búin að gera upp æsku mína
né búin að fá ADHD greininguna
sem breytti miklu fyrir mig síðasta
sumar,“ segir Bóel, en árið 2018 kom
út bók hennar 261 dagur sem fjallar
einmitt um skilnaðinn og aðdrag-
anda hans.
Vinnan var það auðveldasta
Það var árið 2017, þegar hún grét
inni hjá unglækni á heilsugæslunni
eins og allir sem hún þekkti hefðu
farist á pramma eins og hún sjálf
lýsir því, að hún var greind með
kulnun og sagt að taka sér þriggja
mánaða leyfi frá starfi.
„Það kom mér á óvart því í mínum
huga var kulnun tengd starfi og
vinnan var það auðveldasta í lífi
mínu. Það var allt hitt, heildin, sem
reyndist mér erfið. Ég hafði verið að
keyra á varatanki í tvö ár en þarna
var hann orðinn galtómur.“
Bóel hægði á í nokkra mánuði
sem hún segir eftir á að hyggja ekki
hafa verið nóg, en sjálfsvinnan var
þó hafin.
Fyrir rúmu ári f lutti hún til
Reykjavíkur ásamt yngsta syninum.
Sá elsti var þegar f luttur suður til
að stunda háskólanám en miðju-
börnin tvö eru enn fyrir austan hjá
föður sínum og fjölskyldu að ljúka
við grunn- og framhaldsskólanám.
„Það var virkilega erfitt að taka
þessa ákvörðun en ég held að það
geri mann að betri móður að standa
með sjálfum sér. Þau eiga dásamlega
að fyrir austan og þessi ákvörðun
var tekin í góðu samráði allra. Von-
andi koma þau svo f ljótlega suður
til náms.“
Bóel ritstýrði héraðsfréttum
fyrir austan en sagði upp starfi sínu
og hélt út í algjöra óvissu við flutn-
ingana. „Á einhvern ótrúlegan hátt
tókst mér að kaupa mér pínulitla
íbúð en annað var óljóst, sem hentar
mér í raun ekkert voðalega vel enda
ein um að greiða reikningana.“
Aftur kippt úr leik
Bóel er menntaður grunnskóla-
kennari og náms- og starfsráðgjafi
en hafði aldrei kennt fyrr en hún
sótti um auglýst starf í grunnskóla
sonarins í Hafnarfirði. „Ég gat ekki
annað gert enda varð ég að fara
að vinna.“ Hún fann þó strax um
haustið að starfið hentaði henni alls
ekki og var hún farin að finna fyrir
miklum vinnukvíða.
„Mér var svo aftur kippt úr leik í
nóvember í fyrra þegar ég vaknaði
dofin í andliti og hringdi í vin-
konu mína haldandi að ég væri að
fá heilablóðfall. Hún fór með mig
á heilsugæsluna þar sem læknir lét
mig gera alls konar próf og hvíslaði
svo að mér að kíkja niður á geðdeild
þar sem ég átti svo í framhaldi gott
samtal við vaktlækni.“ Bóel hafði
aftur keyrt sig út og á endanum fékk
hún inni í endurhæfingu hjá VIRK
þar sem hún hefur verið undan-
farið ár og opnað augu sín fyrir
því að hún hafi í raun aldrei unnið
almennilega úr fyrsta þrotinu.
„Ég finn að ég er ekki búin að
vinna nægilega í þessari streitu og
eftir árið 2017 held ég að ég verði
aldrei eins. Ég er heppin að hafa
fengið aðstoð áður en verr fór, enda
getur mikil og ómeðhöndluð streita
verið dauðans alvara.“
Skildi líf sitt í fyrsta sinn
Bóel var eins og fyrr segir greind
með ADHD í ágúst og segir það
hreinlega hafa breytt lífi sínu. „Þá
komst ég líka að því að það er mjög
sammerkt hjá ADHD-fólki að vera
með viðkvæmt taugakerfi. Þar tengi
ég sterklega enda með eins konar
utanáliggjandi taugakerfi.
Ég skildi því líf mitt fyrst síðasta
haust – orðin 44 ára gömul!“ segir
Bóel sigri hrósandi en bætir við að
það hafi þó verið fyrir streituna sem
ýkti allar tilfinningar að hún fór í
greininguna og fékk lyf sem hjálpa
henni að taka til í óreiðu hugans og
bæta einbeitingu.
Undanfarin ár hafa farið í mikla
sjálfsvinnu hjá Bóel sem hún hefur
stundað með sálfræðingum, geð-
læknum, hugleiðslu og f leiru.
„Æskuárin móta mann, en á ein-
hverjum tímapunkti getur maður
ekki kennt þeim um allt sem miður
fer hjá manni.“
Versnandi heimilisástand
Faðir Bóelar barðist lengi við áfeng-
isfíkn og telur hún vandann hafa
ágerst í kringum þann tíma sem
hún fæddist.
„En það fer ekki allt til andskot-
ans fyrr en ég er orðin tæplega full-
orðin. Á mínum uppvaxtarárum
varð ég aldrei vitni að átökum eða
neinu ljótu, en ég ólst upp við mikla
vanvirkni og var mikið ein að redda
mér. Það voru allir að gera sitt besta
en pabbi var þó ekki að sinna föður-
hlutverkinu og mamma líklega að
f lýja sínar aðstæður með mikilli
vinnu og lítilli samveru. Það sem
skipti sköpum var að móðuramma
mín bjó á Stöðvarfirði, hjá henni var
mitt annað heimili og þar var ég séð,
eins og við öll þráum.“
Bóel segir að síga hafi farið á
ógæfuhliðina þegar hún var orðin
unglingur og ein minning frá því
hún kom heim í leyfi frá heima-
vistinni á Eiðum situr sérstaklega
í henni.
„Við feðginin áttum það sameig-
inlegt að elska skötu svo ég plataði
pabba oft til að elda hana fyrir mig.
Ég hafði hringt heim og beðið um
skötu í matinn þegar ég kæmi, sem
hann samþykkti.
Þegar ég svo var komin heim til-
kynnti hann mér að hann gæti ekki
eldað, því hann treysti sér ekki til að
setja skötuna í útvötnun. Verknað-
urinn að fara í frystikistuna, taka
upp skötubörð og setja í skúringa-
fötu með köldu vatni var honum
ofviða. Ég skildi þetta auðvitað
ekki og þetta var fyrsta minning
mín um að það væri virkilega eitt-
hvað í ólagi. Og eftir þetta fór allt
versnandi, hann drakk meira, datt
oftar út, f losnaði upp úr vinnu og
einangraði sig.
Hann fékk mikið af geðlyfjum og
tók þau ofan í áfengið. Ég man eftir
að hafa oft hugsað þegar síminn
hringdi að nú væri þetta búið. Jafn-
vel læddist að mér sú hugsun að það
yrði léttir fyrir alla. Svo líður manni
hræðilega að hugsa svona, en það er
staðreynd að þessi sjúkdómur hel-
tekur fjölskyldur.“
Faðir Bóelar þurfti að leggjast
inn á geðdeild í Reykjavík þar sem
dóttir hans var eini nálægi aðstand-
andinn.
„Ég var þá ekki nema 19 ára en
sinnti umönnunarhlutverki gagn-
vart manni sem vildi stundum ekki
sjá mig, var stundum glaður, stund-
um grátandi og stundum mátti ég
ekki yfirgefa hann.“
Kom að föður sínum eftir fall
Þegar elsti sonur Bóelar var tveggja
ára gamall tilkynnti faðir hennar
að hann ætlaði í áfengismeðferð
og hafði hún undir eins litla trú á
árangri í þeim efnum.
„En öllum að óvörum tók hann
þetta föstum tökum og hætti að
drekka. Þegar hann hafði verið edrú
í tvö ár fór ég austur með Almar Blæ,
son minn, fjögurra ára. Ég hafði
aldrei séð pabba svona hressan,
hann var aftur farinn að sinna
áhugamálum sínum, kominn aftur
í kórinn og hann sem var ótrúlegur
handverksmaður var að útbúa skart
úr hreindýrshornum sem hann seldi
á handverksmörkuðum.“
Það var svo einn daginn að móðir
Bóelar hafði farið út með son henn-
ar og hún var ein heima í tveggja
hæða húsi fjölskyldunnar, æsku-
heimili föður hennar.
„Ég var uppi að prjóna þegar ég
heyri pabba koma og hann segist
vera að sækja eitthvað. Í framhaldi
heyri ég þann hæsta dynk sem ég
hef nokkru sinni heyrt. Ég rýk fram
og lít niður stigann þar sem ég sé
pabba liggja hreyfingarlausan. Lík-
lega hefur hann verið á leið upp og
fengið aðsvif þó við vitum það ekki,
og dottið úr tröppunum beint aftur
fyrir sig og fallið á hnakkann á stein-
gólfið fyrir neðan.
Þegar ég kom að honum lak blóð
úr öllum vitum en í sömu andrá
kom mamma inn með strákinn og
ég öskra á hana að koma ekki niður.“
Þyrla sótti föður hennar og í fram-
haldi fékk fjölskyldan símtal um að
vonin væri lítil enda hefði blætt
mikið inn á heila.
„Við sátum yfir honum í þrjár
vikur eða þar til hann lést, aðeins
61 árs.“ Bóel segir að þó það hafi
verið sorglegt að faðir hennar hafi
látist þegar hann var loks farinn að
geta lifað lífinu, finnist henni mikið
hafa verið unnið með því að hann
hafi náð að vera edrú í góðan tíma
áður en hann lést.
Tímann í kringum andlátið segir
Bóel vera í mikilli móðu en aðkom-
an eftir fallið hafi lengi vel verið
greipt í huga hennar og enn hugsi
hún um hana þegar hún gangi stig-
ann í húsinu þar sem móðir hennar
býr enn, á Stöðvarfirði.
„Auðvitað myndi ég vilja hafa
mömmu nær mér en það sem róar
mig í dag er að hún á svo ofboðslega
sterkt vinanet fyrir austan,“ segir
Bóel og það er einkar viðeigandi að
enda samtalið þar sem það byrjaði,
á mikilvægi vináttunnar.
ÆSKUÁRIN MÓTA MANN,
EN Á EINHVERJUM TÍMA-
PUNKTI GETUR MAÐUR
EKKI LENGUR KENNT ÞEIM
UM ALLT SEM MIÐUR FER.
Bóel hér ásamt Emil, sex ára sem er yngstur í fjögurra systkina hópi.
Bóel hér ásamt börnunum fjórum á Reyðarfirði. Myndin er tekin árið 2019 á fermingardegi Þórs sem stendur
fremst. Við hlið Bóelar er einkadóttirin Bríet og fyrir aftan stendur Almar Blær með Emil í fanginu. MYND/TARA TJÖRVA
H E L G I N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð 23L A U G A R D A G U R 9 . J A N Ú A R 2 0 2 1