Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.06.2020, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.06.2020, Blaðsíða 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7.6. 2020 H lynur ber það ekki utan á sér að hafa lifað í hörðum heimi eiturlyfja eða að hafa þurft að upplifa hreinasta helvíti í skít- ugu og ógeðslegu fangelsi hin- um megin á hnettinum. Hann er hraustlegur að sjá, brosmildur og hress. Enda hefur hann sagt skilið við fíkniefnadjöfulinn en hann fagn- aði eins árs edrúafmæli nú í lok maí. Blaðamaður er ein af tæplega fjórtán þús- und Íslendingum sem fylgst hafa með honum og öðrum fíklum og alkóhólistum í bata á Facebook-síðunni Það er von. Síðan hefur sannarlega slegið í gegn enda mikil þörf á að veita fíklum og aðstandendum þeirra von og sýna þeim fram á að hægt sé að sigrast á fíkn og skömm og fá líf sitt til baka. Hlynur skrifar þar sjálfur pistla og segir það bæði hjálpa sér og öðrum. Hann segir blaðamanni hispurs- laust frá lífi sínu fyrir og eftir neysluna. Í dag lifir hann fallegu lífi, stundar háskólanám og dreymir um að opna áfangaheimili einn dag- inn. Var alltaf bílstjórinn Hlynur átti góða æsku og unglingsár og snerti hvorki áfengi né eiturlyf. Hann kláraði stúdentspróf á tveimur og hálfu ári samhliða vinnu. „Fyrstu sex ár ævinnar bjó ég í Reykjavík en við fluttum svo til Lúxemborgar þar sem ég bjó næstu fimm árin en mamma vann þar í banka. Þetta voru frábær ár og ég lærði frönsku, þýsku, ensku og lúxemborgísku og talaði þá fimm tungumál reiprennandi ellefu ára,“ segir Hlynur og segist hafa síðar lært portúgölsku í fangelsi í Brasilíu, en við komum að því síðar í viðtalinu. „Eftir að við fluttum heim bjó ég í Reykja- vík, í Hrútafirði, á Sauðárkróki og endaði svo aftur í höfuðborginni. Ég á þrjá bræður og eina systur pabba megin og einn bróður mömmu megin, en ég er alinn upp hjá mömmu,“ segir Hlynur. „Uppeldislega séð var ekkert sem benti til þess að ég myndi lenda í neyslu. Ég prófaði áfengi í fyrsta sinn 21 árs. Ég drakk aldrei og var gaurinn sem var alltaf bílstjórinn fyrir vin- ina. Alkóhólismi er í ættinni og ég fyrirleit alkóhólisma,“ segir hann. Hlynur æfði mikið líkamsrækt og keppti í fitness. Nítján ára hóf hann neyslu á sterum. „Neyslusagan mín á vímuefnum byrjar þeg- ar ég er 24 ára en áður var ég á sterum sem eru líka hugbreytandi. Það eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því að sterar hafa sömu áhrif á heilann og vímuefni. Menn verða hvatvísir og árásargjarnir og stjórnast af til- finningum,“ segir hann. „Ég prófaði fyrst að keppa í fitness án stera og lenti ekki í því sæti sem ég vildi. Ég er gríð- arlega tapsár. Ég fékk þráhyggju að verða stærri, betri, sterkari og flottari. Og þá fór ég að taka stera,“ segir hann og nefnir að glæpa- hneigð fylgi gjarnan steraneyslu. „Ég lendi í því í kreppunni að vera með bíl á lánum. Ég missti vinnuna og gat ekki borgað af lánunum og fer þá að rækta gras til að eiga pening. Ég hef sjálfur aldrei reykt gras á æv- inni. Ég byrja þarna að rækta og selja og hagnast á þessu, án þess í raun að vita nokk- urn tímann um afleiðingar efnanna né áhrif þeirra,“ segir hann. Það leið ekki á löngu þar til lögreglan fann staðina þar sem Hlynur ræktaði grasið. „Það fór allt til helvítis.“ Steríótýpan af glansmyndabófa Steraneyslan leiddi Hlyn út í sterkari efni. „Svo þegar ég var að fara að keppa á fitness- móti og þurfti að „kötta“ gekk það erfiðlega. Efedrín er oftast notað til að „kötta“,“ segir hann og útskýrir að efedrín sé brennsluefni en ekki vímuefni. „Ég tók þessa afdrifaríku ákvörðun að álykta það að efedrín og amfetamín væri nán- ast það sama og af því að það var ekki til efe- drín á landinu tók ég inn amfetamín. Ég var búinn að lesa mér til um þetta og þóttist vita betur en aðrir. Hrokinn var alveg í botni. Á þessum tíma var ég svaka töffari með gull- keðjur og var steríótýpan af glansmyndabófa, nákvæmlega eins og þú sérð í tónlistar- myndböndum. Á þessum tíma þótti mér þetta töff, sem er náttúrlega bara sorglegt. En þarna var ég ungur og vitlaus og sterarnir höfðu áhrif á minn hugsunarhátt og hvað ég upplifði sem kúl,“ segir hann og segist hafa þurft að uppfylla kröfurnar sem fylgdu því að vera svona „glansmyndabófi“. Hann þurfti að eiga BMW, ganga um með rándýrt úr og eiga flotta kærustu. „Þetta eru sorgleg gildi en þarna var ég svona yfirborðskenndur.“ Fyrirleit sjálfan mig Heltók amfetamínið þig frá byrjun? „Já, í raun, þótt ég upplifði það ekki þá. Ég tók þetta á morgnana fyrir æfingu og sagði sjálfum mér að ég væri íþróttamaður; ég væri ekki í neyslu. Ég seldi mér þá hugmynd að ég væri að gera þetta öðruvísi en allir aðrir,“ seg- ir Hlynur. „Ég upplifði það á þessum tíma að ég fór að verða mjög óheppinn í lífinu. Óheppnari og óheppnari. Það var allt á móti mér en ég var al- gjörlega ófær um að sjá að þetta væri neyslunni að kenna. Ég átti svo bágt; var í ástarsorg, missti hundinn minn. Afsakanir hrönnuðust upp til þess að halda áfram í neyslu. Getan til að takast á við lífið varð verri og verri og það þró- aðist svo út í það að ég fór að selja allt til að fjármagna neysluna,“ segir hann. „Ég fór mikið í það að lána og fá lánað og kom mér mjög fljótt á milli steins og sleggju. Ég var kannski búinn að fá lánað og lána það áfram og átti svo ekki fyrir því að borga. Ég fór því að selja og selja en átti svo ekki fyrir mat vegna skulda. Þá þurfti ég annaðhvort að rukka fólk og ganga hart að því eða finna aðra lausn, sem var að fara út að ná í efni. Á þeim tíma var ég ekki að hugsa um afleiðingarnar. Ég var búinn að vera stuttan tíma í neyslu og hélt þá að allir væru vinir mínir,“ segir Hlynur en hann var þá kominn í klemmu vegna skuld- arinnar. „Ég kaus því að fara til Brasilíu. Það var mjög afdrifarík ákvörðun og ég setti líf mitt og þáverandi kærustu minnar að veði. Það sem ég sé mest eftir er hvað ég tók stóra ákvörðun í miklu hugsunarleysi. Ég spáði ekkert í áhyggjur sem mamma myndi hafa. Ég held í raun að ég hafi fyrirlitið sjálfan mig svo mikið frá því ég byrjaði í efnum og eftir að ég þróaði með mér fíknina. Ég var mjög lengi í afneitun en undir niðri hataði ég sjálfan mig. Og innst inni fannst mér það bara gott á mig að ég hefði verið tekinn,“ segir Hlynur en hann fór ásamt kærustu sinni til Brasilíu að kaupa kókaín. Áð- ur en lagt var af stað í heimferð voru þau handtekin á hótelherbergi. Eina sem beið þeirra var fangelsi í ókunnu landi. Kisa bjargaði lífinu „Lögreglan í Brasilíu vissi af okkur allan tím- ann. Við fórum fyrst í tíu daga í einangrun og þaðan fórum við í önnur fangelsi. Hún fór í op- ið fangelsi en ég fór í fangelsi þar sem ég var læstur inni í klefa allan sólarhringinn með fimmtán karlmönnum. Þarna voru sex kojur, þannig að ég svaf stundum á gólfinu. Ég var lengst í svona klefa í sex mánuði í einu,“ segir Hlynur og segist ekki mikið vilja rifja upp þennan tíma í fjölmiðlum. Hann sýnir þó blaðamanni myndir sem hann tók af mygl- uðum mat sem fangar fengu, af þröngum vist- arverum fullum af karlmönnum og af villikött- um sem björguðu geðheilsu Hlyns. „Þarna voru villtar kisur. Flestallar myndir mínar eru af kisum sem ég gaf mat með mér. Það var happa og glappa hvort við fengum nóg að borða,“ segir hann og sýnir mér fleiri mynd- ir af kettinum. „Kisa eignaðist kettlinga og ég hjálpaði henni,“ segir Hlynur og segist enn vera mikill kattavinur. Heldurðu að kisurnar hafi hjálpað þér þarna inni? „Já, þeir voru aðalatriðið, ég hafði þá eitt- hvað að hugsa um, annað en sjálfan mig. Kisan bjargaði lífi mínu en ég þurfti að skilja hana eftir sem var eitt af því erfiðasta sem ég hef gert í lífinu.“ Hlynur segir að föngum hafi mjög sjaldan verið hleypt út undir bert loft. „Það gerðist kannski á einu sinni í mánuði að okkur var hent út í sex klukkutíma. Þá bara brann maður.“ Hlynur segir dvölina hafa verið hræðilega. Þegar hann fékk tannpínu kom tannlæknir í húsbíl til að sinna honum. „Ég fór í bílinn hans handjárnaður fyrir aft- an bak og svo handjárnaður við stólinn. Svo bara reif hann tennurnar úr án þess að deyfa. Það var mjög vont.“ Eiturlyf til að deyfa Hlynur var fjórtán mánuði í þessu brasilíska fangelsi. Hann horfði þar upp á skelfilega hluti, eins og fanga drepa aðra fanga, bar- smíðar og eiturlyf. Hlynur hélt sig sjálfur al- farið frá eiturlyfjum í fangelsinu. Hann kom þaðan út allur í marblettum sökum nær- ingarskorts og hélt heim til Íslands. Hann seg- ist hafa verið mjög dofinn við heimkomuna og viljað gleyma þessari reynslu. „Ég fékk vinnu hjá Norðuráli en mér var svo sagt upp án ástæðu. Ég fór þá að vinna á gröfu og byrjaði í mjög eitruðu sambandi. Ég er þarna á hnefanum edrú og ekki búinn að þiggja neina hjálp,“ segir Hlynur og segist hafa fallið átta mánuðum eftir heimkomuna. „Ég kem heim, byrja að vinna og stend mig vel en lendi svo í því að fortíðin segir mér að ég sé ekki nógu góður. Þá fór ég beint í kókaín- neyslu. Ég drekk ekki, ég hef drukkið kannski tíu sinnum á ævinni,“ segir hann. „Ég fer þá að nota á allt öðrum forsendum. Þetta er ekki partí, þetta er ekki gaman. Ég fór að nota til þess að deyfa mig. Ég var þá byrjaður að fá martraðir en ég var búinn að fara í áfallameðferð, en það tekur ákveðinn tíma fyrir heilann að komast út úr þessu ástandi,“ segir hann. Þú átt þér í raun ekki dæmigerða neyslu- sögu? „Nei. Neysla mín í heild er fjögur ár. Ég er einstaklingur sem mælist með háa greindar- vísitölu, búinn að læra fimm tungumál, tók stúdentinn á tveimur og hálfu ári. Ég á góða mömmu og pabba sem elskar mig. Ég varð samt fíkill. Þetta fer ekki í manngreinarálit. Ég vildi að það væri eitthvað sem ég gæti kennt um. Að finna sökudólg. En málið var það að ég hafði enga afsökun heldur þróaði þetta með mér. Það var alltaf þessi tilfinning að ég væri ekki nóg. Ég var aldrei sáttur, aldrei ánægður. Þessi leit hefur alltaf verið viðloð- andi við mig; ég var alltaf með minnimáttar- kennd.“ Hlynur var í neyslu í rúmt eitt og hálft ár eftir að hann féll. Hann hafði búið í íbúð en endaði nánast á götunni og flakkaði á milli hótelherbergja. Hann var ekki að vinna á þess- um tíma en hann hafði farið á aðgerð á öxl og vann ekki eftir það. „Svo lenti ég kannski í flogi eða krampakasti og sjúkrabíllinn kom að sækja mig. Í kjölfarið var mér bannað að koma aftur á hótelið. Mér var bannað að koma inn á nokkur hótel. En mér fannst samt ekkert vera að; ég var bara aðeins að fá mér.“ Mér fannst ég súrefnisþjófur Hlynur Rúnarsson er rúmlega þrítugur háskólanemi. Hann er fíkill á batavegi en neyslusaga hans er frábrugðin margra annarra. Hann leiddist út í hörð efni eftir steranotkun en hefur aldrei snert kannabis og afar sjaldan bragðað áfengi. Hlynur var burðardýr vegna fíkniefnaskuldar og sat í fangelsi í Brasilíu í rúmt ár. Hann fann síðar botninn, leitaði sér hjálpar og hefur nú verið edrú í heilt ár. Facebook-síðan hans, Það er von, hefur veitt fjölda manns vonarglætu í baráttunni við fíknina. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is. ’ Ég áttaði mig þarna á því aðég átti skilið annað tækifæri.Vissulega sé ég eftir mjög mörgu,en sektarkennd og skömm er ekki það sama. Ég skammast mín ekki fyrir að vera veikur en ég get samt verið með sektarkennd yfir því sem ég gerði þegar ég var veikur.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.