Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.06.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.06.2020, Blaðsíða 15
7.6. 2020 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 Allslaus inn á Vog Segðu frá deginum áður en þú fórst í meðferð; hvar fannstu botninn? „Það var hreinlega þannig að ég var búinn að vera fimm daga edrú, á hnefanum. Tólf tímum áður en ég átti tíma á Vogi datt ég í það og mætti ekki. Ég hafði þá átt pantað tvisvar áður en ekki mætt og þarna missti ég aftur af tímanum mínum. Ég hafði enga stjórn og missti það alveg. Ég fer í örvænt- ingu minni upp á geðdeild og segi lækni frá þessu og segist ekki vita hvert ég eigi að fara eða hvað ég eigi að gera. Ég sagði honum að ég vildi fara inn á Vog en mig vantaði næt- urstað eina nótt. Ég hótaði honum að ég myndi annars drepa mig. Ég labbaði út með fjórar töflur af einhverju og með tíma inn á Vog daginn eftir. Töflurnar voru svo sterkar og ég var ekki með neitt lyfjaþol enda ekki búinn að misnota lyf. Ég tók samt bara eina töflu en svaf átta tíma á Miklatúni. Ég rot- aðist bara. Ég og þáverandi kærasta redd- uðum okkur svo gistingu í Laugardalnum og við sváfum í koju á meðal túristanna. Daginn eftir tók ég strætó upp á Gullinbrú og labb- aði þaðan inn á Vog. Allslaus. Ég hafði ekk- ert með mér og var algjörlega búinn á því. Þetta var 27. maí, 2019,“ segir Hlynur sem er því nýbúinn að fagna eins árs edrú- mennsku. „Ég fór ekki þarna inn til að breyta lífi mínu. Það var frír matur þarna og frítt húsnæði í tíu daga. Þetta átti bara að vera góð hvíld; það var hugarfarið. Málið var það að ég hafði svo lítið sjálfsálit. Mér fannst ég súrefnisþjófur; þjóð- félagsbyrði. Mér fannst ég algjört hyski. En svo sat ég inni á fyrirlestri á Vogi og það var sýnd mynd af heilanum. Það var verið að út- skýra hvernig kókaín hefur áhrif á heilann. Það rann upp fyrir mér að þetta útskýrði af hverju ég væri búinn að vera að taka svona ömurlegar ákvarðanir. Ég fattaði það þarna; það var eitthvað að mér. Ég væri ekki eins og allir. Ég væri öðruvísi. Það kviknaði eitthvað innra með mér og ég fann að ég var ekki aum- ingi, ég var ekki byrði. Ég var veikur,“ segir hann og segir viðhorf sitt hafa breyst frá þeim degi. „Ég vildi ekki vera svona, en ég var svona. Og þá skildi ég hvers vegna ég var búinn að hliðra minni siðferðislínu eftir því hvernig neyslan fór með mig. Og ég hataði mig fyrir það. En það er það sem gerist hjá veiku fólki og ég sá að ég var ekki einn; það var fullt af fólki alveg eins og ég. Ég fann að ég tilheyrði þessum hópi og ákvað að fara inn á Vík. Ég var samt ekkert að taka þetta alvarlega fyrr en ég kom inn á Vík. Þá byrjaði vinnan. Hausinn fór að skýrast hægt og rólega og ég fór að koma til baka. Á annarri, þriðju vikunni segist mamma aftur þekkja Hlyn. Þá heyrði hún í síma að þarna var sonur hennar að tala, ekki þessi draugur sem var búinn að yfirtaka hann. Ég áttaði mig þarna á því að ég átti skilið annað tækifæri. Vissulega sé ég eftir mjög mörgu, en sektarkennd og skömm er ekki það sama. Ég skammast mín ekki fyrir að vera veikur en ég get samt verið með sektarkennd yfir því sem ég gerði þegar ég var veikur.“ Vildi veita öðrum von Hlynur kom út úr meðferð og fékk fyrst vinnu hjá Arnarlaxi. Hann segir sér hafa liðið vel en viðurkennir að það hafi ekki alltaf verið auð- velt. „Krakkfíkn er mjög sterk fíkn. Ég þurfti að slíta öll tengsl við gamla vini og tengja mig inn í annars konar félagsskap. Ég hef stundað þrjá til fjóra fundi á viku allt árið og hefur það verið mjög gefandi,“ segir Hlynur og segist hafa kynnst fullt af skemmtilegu fólki. Þegar Hlynur hafði verið edrú í nokkra mánuði stofnaði hann Facebook-síðuna Það er von. „Ég vildi veita öðrum von. Þegar ég var í neyslu hafði mamma leitað í sams konar síðu sem heitir The Addict’s Diary en þar er mikið af batasögum. Þar er sýnt að þetta sé hægt; þetta er ekki bara einstefna til helvítis. Ég veit að þessi síða veitti mömmu minni von þegar ég var upp á mitt versta. Hún gat samglaðst þeim sem voru að fá börnin sín til baka. Mér fannst þetta svo fallegt að þarna var einhver maður, einhver edrú gaur, að veita mömmu minni von með því að birta færslur frá fólki sem var að ná sér. Hugmyndin kom þaðan. Svo fór ég að lesa mikið um þetta og fékk kannski smá þrá- hyggju fyrir því að skilja allt betur. Það er sagt að það að skrifa hjálpi oft við úrvinnslu til- finninga. Ég sá hag í því að geta kannski skrif- að mig frá vandamálum. Ég skrifaði fyrst færslu á mína eigin Facebook-síðu og Eitt líf deildi henni og ég fékk þrjú þúsund læk og átta hundruð og eitthvað deilingar. Það kveikti í mér. Að samfélagið samþykkti mig, og ekki bara fólk sem var eins og ég heldur samfélagið í heild. Það lét mér líða vel og þá vill maður meira. Þetta gaf sjálfsvirðingu minni „búst“. Ég var ekki bara allt þetta slæma og kannski væri hægt að taka mark á mér í þessum efn- um. Ég hafði stóra reynslu og hafði farið alla leið til helvítis og til baka.“ Gott að samgleðjast „Ég fór svo að hjálpa vinkonu minni að komast í meðferð,“ segir hann. Hlynur deildi þessu með fylgjendum síð- unnar Það er von og uppskar mikla athygli. „Þá fór síðan mjög hratt að stækka. Vinkona mín er enn edrú í dag. Svo tókst mér að hjálpa fleirum að komast í meðferð. Ég fæ margar beiðnir frá foreldrum og ömmum og öfum sem biðja mig um að bjarga börnum sínum og barnabörnum. Það getur verið mjög erfitt en ég þarf þá að segja þeim að einstaklingurinn verði að vilja það sjálfur. Ég reyni að hafa samband við þetta fólk en ég get engu lofað. Eina sem ég get gert er að ná tengingu og þá get ég hugsanlega sýnt þeim hvað er upp á að bjóða,“ segir Hlynur. „Svo er á síðunni heilmikið af pistlum og batasögum. Þetta varð miklu stærra en ég bjóst nokkru sinni við,“ segir hann en fylgj- endur síðunnar eru rúmlega 13.500. „Við erum stærri en SÁÁ og stærri en Eitt líf,“ segir Hlynur og segir að þótt umfjöllunar- efnið sé ekki beint skemmtilegt sé upplífandi fyrir aðra alkóhólista að lesa batasögur. „Það er gott að samgleðjast. Af því að við er- um svo stór hefur þetta svo mikinn kraft. Sum- ar batasögurnar fá þúsund viðbrögð og kannski tvö hundruð komment,“ segir hann og nefnir að það sé mikils virði fyrir einstakling sem er tæpur. „Hann fær að vita að það eru ekki allir að dæma; það eru ekki allir að hata. Sjálfshatrið er svo stór partur af sjúkdómnum. Það að fá eina viðurkenningu eða eitt hrós getur gert kraftaverk. Hvað þá tvö hundruð. Þarna er kraftur sem hægt er að nota til að hjálpa fólki og verður vonandi til þess að fólk hætti að skammast sín.“ Að fá annað tækifæri Ætlarðu að gera eitthvað meira með þetta? „Já. Ætlunin er að stofna áfangaheimili. Þetta á að vera samstarfsverkefni. Mig langar að búa til áfangaheimili þar sem margir gætu komið að en eins og staðan er í dag er ég að vinna viðskiptaáætlunina í samstarfi við kenn- ara í áfanga í HR. Ég er að leggja drög að því að fara með hana bæði til Reykjavíkurborgar og til fjárfesta. Ég hugsa þetta út frá fíkli. Mig langar að tengja þetta við atvinnulífið því vinn- an göfgar manninn. Sjálfsvirðing er byggð á því að framkvæma eitthvað. Stóra hugmyndin er að tengja þetta við Vinnumálastofnun og við viljum fá fyrirtæki til liðs við okkur sem gefa fólki annað tækifæri. Áfangaheimilið á að heita Annað tækifæri því þar færðu annað tæki- færi,“ segir Hlynur og segir að þetta eigi ekki aðeins að vera húsaskjól fyrir skjólstæðinga. „Það eiga að vera ráðgjafar á staðnum en við viljum samtvinna þetta við það sem er fyrir í boði,“ segir hann og segir að farið verði í tólf spora vinnu. Síðar er hugmyndin að opna jafn- vel kaffihús þar sem hægt er að styrkja fólk sem er að feta sig áfram í edrúlífinu. „Ég lifi mig inn í þetta og þegar ég einset mér eitthvað þá er ég rosa jarðýta,“ segir hann og telur vanta svona áfangaheimili enda sé endurkomutíðni á Vogi of há. Hlynur segir því miður marga ekki eiga sér neitt bakland þegar þeir koma út og þá sé gott að geta farið á áfangaheimili sem bjóði upp á góð úrræði. „Ég hef fengið tækifærið og mér gengur vel. En ég sé að úr mínum hópi á Vík stöndum við eftir fjórir edrú, af fjörutíu og eitthvað.“ Fólk þjáist mjög lengi Hlynur nefnir að þar sem nafnleynd sé á AA- fundum heyrast þar oft reynslusögur sem gætu mögulega nýst öðrum, en fólk fær aldrei að heyra. Síðan hans, Það er von, er því góður vettvangur fyrir opnar sögur. „Hvað væri betri forvörn en að öll sú reynsla af fíkniefnaneyslu væri aðgengileg? Ef allt er leyndarmál, eins og slæmu afleiðingar neysl- unnar, hvernig eiga krakkar þá að sjá hætt- urnar? Þarna er hægt að sjá hvað gerist hjá fólki í neyslu og hversu mikið ströggl það get- ur verið að reyna að verða edrú og hversu mik- ið neyslan hefur áhrif á allt þeirra líf. Þetta er ekki fólk sem dó við eina pillu. Það dó ekki heldur þjáðist mjög lengi. Allir í kringum þau þjáðust. Það er raunveruleikinn,“ segir hann. Í dag býr Hlynur hjá móður sinni og segist hann eiga sterkt stuðningsnet. Hann var að klára fyrstu önnina í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur áhuga á nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Sem fyrr segir er hann að búa til viðskipta- áætlun um stofnun áfangaheimilis. „Ég náði öllum prófum og mér fannst mjög gaman. Ég hef mestan áhuga á frumkvöðlafræði en hyggst klára lögfræði en samtvinna hana við- skiptafræði,“ segir hann og horfir fram á bjartari tíma. „Ég tók þá ákvörðun inni á Vík að ég myndi vera edrú í eitt ár, alveg sama hvað. Ég hafði engu að tapa. Ég lifði ekki merkilegu lífi. Ég ákvað að hlusta og taka leiðsögn. Líf mitt í dag er frábært, en það er rólegt-frábært.“ Einn dag í einu? „Já. Stundum hataði ég þessa setningu og stundum elskaði ég hana,“ segir hann og hlær. „Mér líður vel og er kannski stundum að flýta mér en ég þarf að muna að þetta er lang- hlaup.“ „Ég held í raun að ég hafi fyrirlitið sjálfan mig svo mikið frá því ég byrjaði í efnum og eftir að ég þróaði með mér fíknina. Ég var mjög lengi í afneitun en undir niðri hataði ég sjálfan mig. Og innst inni fannst mér það bara gott á mig að ég hefði verið tekinn,“ segir Hlynur Rúnarsson, en hann sat fjórtán mánuði í fangelsi í Brasilíu. Morgunblaðið/Ásdís

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.