Morgunblaðið - 02.07.2020, Qupperneq 22
22 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 2. JÚLÍ 2020
Sími 557 8866 | pantanir@kjotsmidjan.is | Fossháls 27, 110 Reykjavík Opnunartími7.30-16.30
Sérvaldar steikur á grillið,
Úrvals hamborgarar með brauði,
Krydd, sósur og ýmsar grillvörur
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Bítlarnir hafa fylgt mér í meira en
hálfa öld, meira sem bræður og vinir
en hljómsveit frá Bretlandi. Þeir
syngja og leika líka þá tónlist sem
mér finnst vænst um; lögin sem ég
ólst upp með og syngja sífellt í höfð-
inu á mér,“ segir Gunnar Salvarsson.
Hann er umsjónarmaður útvarps-
þáttanna Bítlatíminn, en sá fyrsti var
á dagskrá RÚV á sunnudag. Þætt-
irnir verða alls tíu, hver tvær klukku-
stundir, og fara í loftið kl. 13. Þar fer
Gunnar yfir Bítlatímann, ekki síst
feril strákanna fjögurra frá Liverpool
sem fyrir tæpum sextíu árum gáfu
tóninn og breyttu heiminum. Af því
varð mikil saga sem Gunnar segir í
þáttunum, með persónulegu ívafi.
Sagnfræði og
dýrmætar minningar
Þáttunum Bítlatíminn er útvarpað
á Rás 1 Ríkisútvarpsins sem eitt og
sér segir að tímarnir breytast og
mennirnir með. Stundum hefur sú
rás verið sögð útvarp hugsandi fólks
sem hefur fengið nóg af gjallandi
dægurpoppi. Fyrr á tíð var voru lög
Bítlanna stundum sett í þann flokk.
Nú eru þau hins vegar klassík og allt
sem viðvíkur sveitinni orðið sagn-
fræði og dýrmætar minningar – og
alveg dæmigert efni á Gufunni.
„Ég var tíu ára strákur í Vest-
urbænum þegar Bítlarnir sneru
heiminum á hvolf,“ segir Gunnar í
samtali við Morgunblaðið um tilurð
þáttanna. Hljómsveitina segir hann
hafa haft afgerandi áhrif á æskuár
sín. Lífið þá hafi meira og minna
hverfst um að eltast við tónlistina ,
eignast plöturnar, hengja upp mynd-
ir, klippa fréttir og frásagnir upp úr
blöðum og sækja mánaðarlega Bítla-
bækurnar í Frímerkjahúsið í Lækj-
argötu.
Gunnar Salvarsson á langan og
fjölbreyttan feril að baki, var lengi
skólamaður en starfaði líka við fjöl-
miðla. Var fyrir 35 árum eða svo á
Rás 2 með þættina Listapopp, og lék
þar lögin sem hæst flugu á vinsælda-
listum heimsins. Undanfarin ár hefur
Gunnar svo starfað í utanríkisráðu-
neytinu við miðlun upplýsinga af þró-
unarsamvinnu Íslendinga víða um
lönd.
Allir töluðu um hljómsveitina
„Fyrir tveimur árum var ég með
hópi af góðu fólki í Úganda við
vinnslu á sjónvarpsþáttaröð um
heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
og þessir vinir mínir voru oft að
hvetja mig til að fara aftur í útvarp.
Þetta kveikti í mér og því var mjög
ánægjulegt að dagskrárstjórn RÚV
samþykkti hugmynd mína um þessa
þætti,“ segir Gunnar sem sl. vetur fór
að grúska í heimildum, meðal annars
gömlum dagblöðum og skoða umfjöll-
un þeirra um Bítlana og viðtökurnar
sem þeir fengu hér heima.
„Greinarnar komu mér mjög á
óvart. Sérstaklega fannst mér merki-
legt hvað umfjöllunin var neikvæð.
Efast var um að þeir gætu sungið og
sagt að þeir væru falskir og sífellt
verið að finna að Bítlahárinu. Það
voru almenn leiðindi um hljómsveit-
ina í íslensku dagblöðunum sem fyrst
sögðu frá The Beatles sumarið 1963.
Og einmitt á því herrans ári voru allir
krakkarnir í Melaskólanum að tala
um þessa hljómsveit og spila lögin
þeirra. Sumir voru að missa sig.“
Persónuleg nálgun
Fyrir utan lítils háttar sagnfræði-
grúsk ákvað Gunnar við þessa þátta-
gerð að vera persónulegur. Taldi
áhrifamikið að flétta inn eigin upp-
lifun frá Bítlatímanum. Að öðru leyti
er enginn ákveðinn þráður í þátt-
unum, flögrað er um og hver þáttur
er sjálfstæður. Sagt er frá ýmsu
áhugaverðu sem tengist Bítlunum, í
skemmtilegu tónlistarprógrammi
sem ætlað er að næra fortíðarþrá-
margra. Er því vikið að ýmsum fleiri
hljómsveitunum á árunum milli 1960
og 70 og menningu þess tíma.
„Bítlaunnendur eru alls staðar, líka
hjá RÚV, og ég nýt þeirra forréttinda
að fá að hljóðrita þessa þætti með
Georg Magnússyni tæknimanni sem
vann með mér fyrir 30 árum þegar ég
var síðast í útvarpi. Hann er Bítla-
fróður og lifandi leiðréttingarforrit
þegar ég fer með fleipur. Við erum
líka báðir ástríðufullir Harrison-
aðdáendur en vegna hlutleysisstefnu
Ríkisútvarpsins gætum við meðalhófs
og fagmennsku fram í fingurgóma,“
segir Gunnar að síðustu.
Bítlarnir sneru heiminum á hvolf
Bítlarnir í tíu þáttum á Rás 1 Bræður mínir og vinir, segir Gunnar Salvarsson Fengu nei-
kvæðar móttökur á Íslandi í upphafi Aðdáandi Harrison Bítlaunnendurnir eru alls staðar
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Aðdáandi Gunnar Salvarsson hér með Bítlaplötu og í hillum á veggnum eru munir sem tengjast hljómsveitinni.
Frétt Morgunblaðið 11. júlí 1964
með helstu tíðindi í heiminum.
Myndir Blaðaúrklippur með Bítlunum. Minningabók Gunnars er gersemi.
„Við erum vinsælli en Jesús,“ sagði John Lennon einhverju sinni um
frægð og frama Bítlanna. Lennon var af mörgum talinn hugsuður Bítl-
anna. Skal þá ekki lítið gert úr Paul MaCartney, Ringo Starr og og George
Harrison. En hvað gerði hljómsveit þessara fjögurra pilta svo einstaka og
áhrifamikla? Spurning og svörin við henni eru mörg og ólík. Gunnar Sal-
varsson segir að einfalda svarið sé þó einfaldlega að Bítlarnir hafi verið
réttir menn á réttum tíma; góðir hljóðfæraleikarar sem sömdu og spiluðu
eigin lög, melódísk og grípandi. En þeir voru líka ögrandi í svörum og
framkomu.
„Eldri kynslóðinni var ekkert um Bítlana gefið og það gerði þá enn
meira spennandi í augum okkar unglinganna. Oft er talað um Bítlana og
æskubyltinguna sem þeir voru í forystu fyrir. Þegar æðið rann af okkar
krökkunum og árin liðu kom í ljós að áhrif Bítlanna á framþróun tónlistar
standa upp úr. Þeir breyttu tónlistarsögunni nánast með hverri nýrri
plötu. Milli She Loves You og Tomorrow Never Knows eru til dæmis að-
eins tvö ár og níu mánuðir. Samt er engu líkara en áratugir hafi liðið milli
útgáfu laganna, svo ólík eru þau,“ segir Gunnar Salvarsson að síðustu.
Ögrandi og lögin voru grípandi
BREYTTU TÓNLISTARSÖGUNNI MEÐ HVERRI NÝRRI PLÖTU
The Beatles Síðhærðir sveinar frá Liverpool snemma á ferlinum, vegferð sem
átti eftir að breyta svo mörgu í veröldinni enda voru lög sveitarinnar engu lík.