Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.07.2020, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 19.07.2020, Blaðsíða 10
LÍFSLOK 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19.7. 2020 heimersjúkdóminn getur ekki sótt um að fá aðstoð við að deyja síðar, eftir því sem sjúkdómnum vindur fram og það er ekki lengur fært um að taka ákvörðunina sjálft. Guðlaug hefur á tilfinningunni að dánaraðstoð sé jafnt og þétt að aukast í Kanada en í hópi hennar skjólstæðinga er tíðnin þó ennþá innan við 5%. Það eru þeir sem fara alla leið; mun fleiri óska á hinn bóg- inn eftir upplýsingum um ferlið og vilja ræða málið. „Ég gæti trúað að það sé allt að 40% minna sjúklinga. Kerfið er þannig upp byggt að auð- velt er að nálgast allar upplýsingar sem er mjög mikilvægt. Upplýst manneskja tekur réttar ákvarðan- ir.“ Að jafnaði kemur hún að dánar- aðstoð hjá sjúklingi einu sinni til tvisvar í mánuði. Sprauta eða vökvi til að drekka Um tvennt er að velja; annars vegar að þiggja sprautu frá hendi heil- brigðisstarfsmanna eða fá skrifað upp á vökva hjá lækni sem sjúkling- urinn drekkur sjálfur heima hjá sér að viðstöddum sínum nánustu. Síð- arnefnda aðferðin mun vera algeng í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem leyfa dánaraðstoð en hún er mjög sjaldgæf í Kanada. Sprautumeðferðin er á þann veg að lyfin eru fyrst send inn á heimili sjúklingsins, en kapp er lagt á að all- ir sem mögulega geta fái að deyja heima hjá sér. Að morgni hinsta dags kemur svo hjúkrunarfræð- ingur og setur upp æðalegg. Nokkru síðar kemur sérhæfður hjúkrunar- fræðingur eins og Guðlaug ásamt lækni. Læknirinn gefur sprauturnar þrjár en hlutverk Guðlaugar er að veita andlega aðstoð. Þegar sjúk- lingurinn hefur verið úrskurðaður látinn er hringt í réttarlækninn. Öðrum er ekki skylt að gera viðvart. Guðlaug segir þessar athafnir yfirleitt friðsælar og virðulegar. „Mín reynsla er sú að andrúmsloftið sé yfirleitt afslappaðra þegar sjúk- lingur fær dánaraðstoð en þegar hann deyr af eðlilegum orsökum. Þá eru aðstandendur yfirleitt í mun meira uppnámi enda mögulega ekki sannfærðir um að ástvinur þeirra hafi í raun verið reiðubúinn að deyja, þrátt fyrir að vera fársjúkur. Þegar dánaraðstoð fer fram vita að- standendur hins vegar að þetta var það sem hinn látni vildi og eru fyrir vikið ánægðir fyrir hans hönd.“ Er þetta örugglega það sem þú vilt? Í Ontario-fylki þarf sjúklingur að staðfesta þrisvar sinnum að hann sé enn staðráðinn í að þiggja dánar- aðstoðina; í seinasta skipti andartaki áður en hann fær fyrstu sprautuna af þremur. „Lokaspurningin er allt- af þessi: Er þetta örugglega það sem þú vilt? Svarið er yfirleitt alltaf já. Ég hef þó einu sinni lent í því að sjúklingurinn hætti við á elleftu stundu. Það er vitaskuld sjálfsagt mál og engin eftirmál af slíku. Eng- in takmörk eru fyrir því hversu oft sjúklingur getur óskað eftir dánar- aðstoð en hann fer þó alltaf á byrj- unarreit í hvert skipti; ferlið fer í gang frá A til Ö. Þessi tiltekni ein- staklingur sá ekki eftir að hafa hætt við. Hann fékk á endanum líknar- svefn og dó tveimur eða þremur vik- um síðar án aðstoðar.“ Aðstæður geta verið mjög mis- munandi. Í einu tilviki sem Guðlaug kom að hafði sjúklingurinn farið í gegnum allt ferlið og fengið sam- þykki. „Hann átti að fá dánaraðstoð- ina á laugardegi en heilsu hans hrakaði mjög hratt dagana á undan og hann óskaði eftir því að þessu yrði flýtt. Við höfum heimild til að verða við þeirri beiðni og hann fékk að deyja á fimmtudegi, það er tveim- ur dögum áður en fyrirhugað var. Ástæðan var sú að hann vildi ekki deyja meðvitundarlaus og upp á aðra kominn, heldur hafa fulla stjórn á örlögum sínum sjálfur. Ég var mjög ánægð fyrir hans hönd. Þetta skipti hann virkilega miklu máli.“ Síðasti einstaklingurinn sem fékk dánaraðstoð hjá teyminu hennar Guðlaugar var mótorhjólatöffari um fertugt. „Hann var með fjórða stigs krabbamein og vildi fara á eigin for- sendum. Þegar hann hafði fengið samþykki og búinn að velja sér dag hélt dóttir hans honum svakalegt strákapartí kvöldið áður, þar sem allir vinir hans mættu til að kveðja hann. Gott ef það voru ekki fatafell- ur þarna líka,“ segir Guðlaug hlæj- andi. „Hann kvaddi svo bara daginn eftir. Alsæll með virðingu.“ Dó á hrekkjavökunni Hún rifjar líka upp að 28 ára maður með taugahrörnunarsjúkdóm hafi valið að deyja á hrekkjavökunni. „Honum fannst það smart dánar- dagur og fékk það samþykkt. Hann gat ekki lengur andað án aðstoðar og gat ekki hugsað sér að fram- lengja lífið í öndunarvél.“ Mikill meirihluti þeirra sem þegið hafa dánaraðstoð hjá Guðlaugu og teymi hennar eru karlmenn, allt að 80%, að hún telur. Flestir á aldr- inum 35 til 60 ára. Sá yngsti var 23 ára og sá elsti 76 ára. Guðlaug segir að í 80% tilvika sé með líknandi meðferð hægt að fjar- lægja einkenni og láta dauðvona fólki líða bærilega áður en það kveð- ur þennan heim. „Allt snýst þetta um lífsgæði og að mínu mati er ekki mannúðlegt að draga dauðastríð fólks á langinn, bara vegna þess að það er hægt. Í slíkum tilfellum er verið að hugsa um aðstandendur en ekki hinn sjúka. Hagsmunir sjúk- lingsins eiga alltaf að vera í öndvegi og dánaraðstoðin gefur fólki val- kost.“ Langoftast er fjölskylda sjúk- lingsins viðstödd þegar hann kveður enda þótt ekki hafi verið auðvelt að koma því við undanfarið vegna kór- ónuveirufaraldursins. Um tíma þurftu aðstandendur að fylgjast með á netinu sem var auðvitað mjög erf- itt. „Á móti kemur að við getum ekki frestað dánaraðstoð vegna ástands- ins í samfélaginu. Hagsmunir sjúk- lingsins hljóta alltaf að koma fyrst. Sorgarráðgjöf er hins vegar hluti af mínu starfi, þannig að ég veit hvað þetta getur verið erfitt.“ Erfitt fyrir kaþólikka Ágæt reynsla er komin á dánar- aðstoð í Kanada og Guðlaug er ekki sú eina sem breytt hefur um afstöðu gagnvart henni. Hún nefnir í því sambandi kaþólskan lækni sem kennir með henni en hann var mjög andvígur dánaraðstoðinni til að byrja með á trúarlegum forsendum og vildi alls ekki koma að henni. „Viðhorf hans hefur breyst mikið, ekki síst gagnvart trúnni og í dag er hann til taks vegna seinna álits, það er leggur mat á umsókn á eftir öðr- um sérhæfðum lækni. Hann gerir sér grein fyrir því að með þessari aðstoð er ekki verið að deyða mann, heldur lina þjáningar hans. Það er tvennt ólíkt.“ Flestir sjúklingar Guðlaugar eru af erlendu bergi brotnir, mikið Kín- verjar, Indverjar og ekki síst Ítalir. „Þetta ferli er mjög erfitt fyrir Ítalina enda eru þeir upp til hópa mjög trúaðir og kaþólska kirkjan alfarið á móti dánaraðstoð. Eins getur þetta verið mjög strembið fyrir gyðinga. Við höfum líka lent í því að þurfa að skipta út hjúkr- unarfræðingi þegar sjúklingur ósk- aði eftir dánaraðstoð vegna þess að hún er kaþólsk og má ekki koma að þessu ferli. Það var mjög erfitt enda hafði hún hlúð lengi að við- komandi sjúklingi og trún- aðarsamband á milli þeirra.“ Guðlaug segir umsóknir um dán- araðstoð alltaf vandmeðfarnar en eins og kom fram í Sunnudags- blaðinu um liðna helgi eru aðeins um 40% þeirra samþykkt. Mikið veltur á sjúkdómnum. „Það er auðveldara að taka afstöðu ef viðkomandi er með krabbamein enda vitum við vel hvernig það hagar sér og þróast. Ef sjúklingur er kominn með fjórða stigs krabbamein og í líknandi með- ferð er einsýnt í hvað stefnir. Þetta er flóknara þegar um til dæmis hjarta- og lungnasjúkdóma er að ræða enda ekki alltaf eins fyrir- sjáanlegt hvernig þeir sjúkdómar haga sér. Aðalatriðið er að við verð- um að vera alveg viss um að sjúk- lingurinn sé deyjandi áður en dán- araðstoðin er samþykkt.“ Vilja víkka löggjöfina út Að sögn Guðlaugar vilja ýmsir víkka löggjöfina út þannig að hún nái einn- ig til alzheimer og annarra heila- tengdra sjúkdóma og telur hún ekki ólíklegt að greidd verði um það at- kvæði á næstu tveimur árum. „Það myndi þó kalla á snúnari útfærslu enda þarf sjúklingurinn að vera 100% skýr í kollinum þegar hann óskar eftir dánaraðstoðinni. Maður skilur þó vel að einhverjir vilji kveðja áður en þeir hverfa inn í var- anlegt óminnisástand.“ Á hinn bóginn sér hún Kanada- menn ekki samþykkja að löggjöfin komi til með að ná yfir geðsjúkdóma og fötlun. – Finnst þér að við ættum að taka upp sambærilega löggjöf á Íslandi? „Já, ég er hlynnt því. Löggjöfin hefur gefið góða raun hér í Kanada og kannanir sýna að yfir 80% lands- manna styðja löggjöfina og yfir 70% vilja skoða að ganga ennþá lengra, eins og að taka heilahrörnunar- sjúkdóma inn í hana. Okkar reynsla er sú að það verða aldrei margir sem færa sér þennan möguleika í nyt en það skiptir eigi að síður svo ofboðs- lega miklu máli að hafa þennan kost. Deyjandi fólk á að geta valið að þurfa ekki að þjást. Fólk í þeim sporum er annars vegar hræddast við verkina og þjáninguna og hins vegar við að ástvinir þeirra þurfi að horfa upp á þá þjást og veslast upp. Hvers vegna má þetta fólk ekki hafa val um það að kveðja með virðingu og reisn?“ Þarf að ræða þessi mál Guðlaug segir tímabært að þessi umræða fari fram af fullum þunga hér heima. „Það þarf að ræða þessi mál og hafa alla valkosti uppi á borðinu, annars komumst við ekki að neinni niðurstöðu. Það vantar fleiri sérfræðinga í líknarmeðferð heima. HERA, sérhæfð líkn- arheimaþjónusta Landspítala, er að gera frábæra hluti og læknirinn þar er gull af manneskju. En það vantar meira og bæta þarf þessari menntun við. Flestir mínir nemendur hér úti eru heimilislæknar en ég veit ekki til þess að þeir fái þessa fræðslu heima. Dánaraðstoð á að vera hluti af líknarmeðferð en ekki ein á ein- hverri eyju. Og sjúklingurinn á allt- af að vera miðlægur. Sjálf missti ég fjölskyldumeðlim nýlega heima á Ís- landi og hún var í meðferð alveg fram í andlátið og ekkert annað rætt. Ef ekki er hægt að lækna fólk er þá ekki rétt að skoða þann mögu- leika að draga í land og bjóða fólki upp á að fara á sinn hátt?“ – Erum við Íslendingar upp til hópa feimnari við dauðann en Kan- adamenn? „Já, í raun og veru má segja það. Dauðinn er alla jafna ekki mikið í umræðunni. Þess vegna er ég ein- mitt svo ánægð með að þessi um- ræða um dánaraðstoð sé aðeins að byrja þarna heima. Hvernig sem þetta fer þá skiptir svo miklu máli að fólk taki upplýsta ákvörðun þeg- ar kemur að dánaraðstoð. Fólk er of mikið að horfa til „sjálfsvígst- úrisma“ eins og gerist í Sviss og Hollandi. Ég veit að Íslendingar myndu aldrei samþykkja þá nálgun. Þannig er þetta hins vegar ekki hér í Kanada þar sem strangari reglur gilda. Fólk þarf að vita það. Enginn velur dánaraðstoð af léttúð. Ég hvet ykkur heima til að ræða þetta mál af fullri alvöru og taka púlsinn á þjóð- inni. Það er upphafið.“ AFP

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.