Morgunblaðið - 22.08.2020, Qupperneq 12

Morgunblaðið - 22.08.2020, Qupperneq 12
12 DAGLEGT LÍF MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. ÁGÚST 2020 Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur Reykjavíkurborg auglýsir hér með eftir óbirtu handriti að skáldverki fyrir börn eða unglinga, frumsömdu á íslensku, til að keppa um Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Verðlaununum verður úthlutað í þriðja sinn að vori 2021. Verðlaun að upphæð 1 milljón króna verða veitt fyrir eitt handrit. Þriggja manna dómnefnd metur verkin og eru meðlimir hennar tilnefndir af menningar-, íþrótta – og tómstundaráði Reykjavíkurborgar, Rithöfundasambandi Íslands og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Útgáfuréttur verðlaunahandrits er í höndum höfundar eða þess forlags sem hann ákveður að starfa með. Sé dómnefnd á einu máli um að ekkert innsent handrit fullnægi þeim kröfum sem hún telur að gera verði til verðlaunaverka má fella verðlaunaafhendinguna niður það árið. Handritum skal skilað í þríriti og undir dulnefni, en nafn og símanúmer höfundar fylgi með í lokuðu umslagi. Ef um myndskreytt handrit er að ræða er ekki tekið á móti frummyndum, aðeins ljósritum. Handrit berist í síðasta lagi 11. janúar 2021. Utanáskrift: Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur b.t. Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, 101 Reykjavík Í apríl 2018 samþykkti borgarráð að frá 2019 verði Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur veitt árlega að vori fyrir handrit að nýrri barna eða ungmennabók. Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir hlutu Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 fyrir handrit sitt að bókinni Blokkin á heimsenda. Við Strandgötu í Hafnarfirði hefur verið sett upp ljósmyndasýningin 30 samvinnuhús í Hafnarfirði. Sýnt er á auðri lóð vestan við menningar- miðstöðina Hafnarborg, en þar stóð eitt sinn verslunarhús Kaupfélags Hafnfirðinga. Fjölbreytt starfsemi og fimm- tán sýningarspjöld Myndirnar eru af byggingum sem á 20. öldinni hýstu samvinnu- starfsemi, svo sem á vegum kaup- félaga eða annarra almanna- samtaka. Þarna má nefna mjólkurbú, leigubílastöð, kaupfélagsbúðir af ýmsum toga, mjólkurbúðir, olíustöð, matvælavinnslu, samvinnuútgerð, pöntunarfélag og banka. Starfsemi þessi var í húsum sem mörg hafa verið rifin en öðrum hefur verið breytt. Segja má að samvinnuhúsasýn- ingin varpi fróðlegu og skemmtilegu ljósi á Hafnarfjörð frá fyrri tíð og fram til dagsins í dag. Kaupfélag Hafnfirðinga var til dæmis mikill frumkvöðull í verslun hér á landi. Þar sem ljósmyndasýningin stendur nú, var opnuð fyrsta kjörbúð landsins og litlu síðar rak Kaupfélag Hafnfirð- inga einnig fjóra kjörbúðarbíla, þá fyrstu á Íslandi. Ljósmyndir á sýningunni í Hafnar- firði eru á alls fimmtán spjöldum, en á hverju þeirra segir frá afmörk- uðum efnisþáttum. Sýningin stendur til septemberloka. „Í raun mætti setja upp svona sýningar í flestum bæjum landsins. Samvinnuhreyfingin er veldi sem var og kaupfélögin voru burðarásar at- vinnulífsins víða úti um land. Því er stefan sú að setja upp sambærilegar sýningar víðar á næstu misserum,“ segir Reynir Ingibjartsson sem er í forsvari fyrir félagið Fífilbrekku. Á þess vegum hefur Reynir farið víða um landið á síðustu árum og skráð og myndað hús sem tengdust sam- vinnuhreyfingunni og sögu hennar. Byggingar fá alltaf nýtt hlutverk við hæfi „Ljósmynduð voru 1.625 hús sem í dag hýsa margvíslega starfsemi. Í þeim eru nú meðal annars söfn, veit- ingastaðir, hótel, upplýsinga- miðstöðvar og margt fleira. Æði margt af þessu tengist með öðrum orðum sagt ferðaþjónustu í einhverri mynd. Slíkt segir okkur að góðar og vel staðsettar byggingar fá alltaf nýtt hlutverk við hæfi,“ segir Reynir sem er í mun að saga sam- vinnuhreyfingarinnar á Íslandi varð- veitist, þótt aðstæður og svipmót tímans hafi breyst. sbs@mbl.is 30 samvinnuhús í Hafnarfirði Byggingar sem hýstu mjólk- urbúð, banka, olíustöð og fleira Morgunblaðið/Sigurður Bogi Samvinnumaður Reynir Ingibjartsson hér við skilti á ljósmyndasýningunni sem er í sundi milli Hafnarborgar og Pennans í Strandgötu í Hafnarfirði. Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Hlaup eru góð þjálfun, segir Þórey Edda El-ísdóttir íþróttakona. „Ég hef alla tíð veriðmikið í íþróttum og þurft að hreyfa mig mik-ið. Hins vegar var það fyrst nú í vor sem ég byrjaði að hlaupa nokkuð skipulega og þá helst fjórum til fimm sinnum í viku. Mest hef ég verið hér innanbæjar en nú þegar leið á sumarið fór ég að reyna mig í brekkunum hér í kring, sem eru góðar til úthaldsæfinga.“ Á þrennum Ólympíuleikum Þórey Edda Elísdóttir stangarstökkvari var um langt árabil einn af þekktari frjálsíþróttamönnum lands- ins. Hún sveif hátt yfir rána og var meðal fulltrúa Ís- lands á þrennum Ólympíuleikum, það er árin 2000, 2004 og 2008. Bestum árangri náði Þórey á ÓL í Aþenu í Grikklandi árið 2004; þegar hún stökk 4,55 metra og náði fimmta sæti. Þá átti hún Norðurlandametið í stangar- stökki í ellefu ár og keppti fimm sinnum á heimsmeist- aramótum í greininni. Stangarstökk var íþrótt sem at- hygli margra beindist að á fyrstu árunum eftir aldamót, sem helgaðist af þeim góða árangri sem Vala Flosadóttir og Þórey Edda náðu. „Ég hef aldrei verið góð í íþróttum sem krefjast út- halds, sem nú er smám saman að byggjast upp og þetta er afar gaman. Hlaup eru líka afar fyrirhafnarlítil íþrótt. Ekki er annað að gera en reima á sig skóna og hlaupa af stað,“ segir Þórey Edda um hlaupin sem séu nokkuð ólík öðrum greinum íþrótta sem hún hefur lagt fyrir sig, sem eru blak, fjallaskíði og lyftingar svo eitthvað sé nefnt. „Tilviljun réð því að ég lagði stangarstökkið fyrir mig á sínum tíma. Ragnheiður Ólafsdóttir sem varð síðar einn þjálfara minna hjá FH hafði samband við mig og spurði mig hvort ég hefði áhuga á að prófa þessa grein, ég sló til og úr þessu varð heilmikið ævintýri. En þá ber líka að taka fram að íþróttin krefst mikils af þátttak- endum og æfingarnar eru fjölþættar. Þú tekur ekki bara stöngina, ferð út á völl og sveiflar þér upp í loftið. Margt fleira þarf til,“ segir Þórey sem jafnhliða stífum æfingum á sínum tíma las verkfræði við Háskóla Íslands. Er með BS-gráðu í bygginga- og umhverfisverkfræði og meist- arapróf í síðarnefndu greininni. Verkfræðingur hjá Ráðbarði Sex ár eru síðan Þórey Edda flutti á Hvammstanga. Kom þar til að eiginmaður hennar, Guðmundur Hólmar Jónsson, er sveitapiltur af svæðinu og vildi norður. Þór- ey segist hafa verið treg til í byrjun en látið slag standa þegar hún fékk vinnu í sinni grein. Starfar í dag hjá verkfræðistofunni Ráðbarði á Hvammstanga og þunginn í verkefnum þar er þjónusta við byggingastarfsemi í hér- aði. „Hér er mikið byggt og nóg að gera,“ segir Þórey sem jafnhliða þjálfar krakka á staðnum í fimleikum og frjálsum íþrótttum. Guðmundur maður hennar er tón- listarkennari á svæðinu jafnhliða því að sinna þjálfun af- reksfólks í frjálsum íþróttum. „Ég komst nokkuð fljótt inn í samfélagið hér á Hvammstanga sem tekur vel á móti fólki sem flytur hingað,“ segir Þórey Edda sem með Guðmundi manni sínum á þrjá drengi sem eru þriggja, 9 og 11 ára. Í tengslum við skólagöngu þeirra hafa svo myndast marg- vísleg tengsl við fólkið í byggðarlaginu og af þeim sökum komu afskipti af sveitarstjórnarmálum nánast af sjálfu sér. Allir geta haft áhrif „Já, ég hef gaman af pólitík og hef skoðanir á mál- um. Hér fyrir norðan var ég fyrir síðustu kosningar á lista Nýs afls hér í Húnaþingi vestra og er varamaður í sveitarstjórn. Mörg spennandi mál eru þar í deiglunni, enda þótt ekki sé mikill pólitískur ágreiningur um verk- efni sem eru í gangi á hverjum tíma, svo sem stækkun grunnskólans og hitaveitumálin. En menningin hér er einfaldlega þannig að allir geta látið rödd sína heyrast, komið sjónarmiðum á framfæri og haft áhrif. Að búa í slíku samfélagi er mikill kostur,“ segir Þórey Edda að síðustu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi Morgunskokk Þórey Edda á hlaupum árla dags. Brekkurnar á þessum slóðum segir hún góðar til úthaldsæfinga. Hlaup eru góð og úthaldið að aukast Tekið á rás! Þórey Edda Elísdóttir var afrekskona í stangarstökki. Í dag býr hún á Hvammstanga, er verkfræðingur og þjálfar börn í frjálsum íþróttum. Fer svo út að skokka, fyrirhafnarlaust. Landsbyggðarkona Þórey Edda við skilti við bæj- armörk, en hún hefur búið á Hvammstanga sl. sex ár. Morgunblaðið/Golli ÓL Í Aþenu árið 2004 þar sem Þórey Edda fór á stöng- inni yfir rána í 4,55 m hæð og náði fimmta sæti.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.