Morgunblaðið - 28.11.2020, Blaðsíða 52
52 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. NÓVEMBER 2020
Þeir settu nöfnin í skál og tóku að
draga þau upp úr henni. Tíu nöfn,
tíu stúlkur. Stúlkurnar skulfu eins
og kettlingar undir krana sem drop-
ar úr. Ekki var von á góðu. Karl-
arnir sem drógu bréfmiðana úr skál-
inni voru hermenn Íslamska ríkisins
og hver og einn þeirra tæki eina
stúlku og gerði
hana að ambátt
sinni.
Naima starði á
hendur sínar og
það suðaði fyrir
eyrum hennar.
Stúlkan við hlið-
ina á henni var
yngri en hún, um
það bil fjórtán
ára. Hún kjökraði af hræðslu, en
þegar Naima reyndi að halda í hönd-
ina á henni sló einn karlanna á hend-
ur þeirra til að koma í veg fyrir það.
Sá var eldri og stærri en hinir.
Naima giskaði á að hann væri um
sextugt. Ístran á honum féll eins og
foss yfir buxnastrenginn og illúðlegt
glott lék um varir hans. Hún hafði
nú verið fangi ISIS í níu mánuði.
Hún vissi að enginn karlanna væri
góðmenni en bað þess að þessi mað-
ur drægi ekki nafnið hennar.
„Naima.“ Maðurinn sem las nafn-
ið var Abu Danoon. Hann leit úr fyr-
ir að vera yngri, næstum eins og
bróðir hennar. Skeggið á hökunni
var enn bara hýjungur og ef til vill
væri hann ekki Jafn illa innrættur.
Drátturinn hélt áfram. Feiti mað-
urinn dró ungu stúlkuna við hliðina
á henni. En svo sagði hann eitthvað
við hina á arabísku, dró upp tvo
splunkunýja hundrað dollara seðla
og skellti þeim á borðið. Abu Dano-
on yppti öxlum, stakk seðlunum í
vasann og rétti þeim feita bréfsnep-
ilinn sinn.
Nokkrum mínútum síðar ýtti feiti
maðurinn henni inn í svartan Land
Cruiser og ók af stað um stræti Mó-
súl, borgar sem hana hafði eitt sinn
dreymt um að koma til en var nú
höfuðborg þessara skrímsla sem
ruddust inn í landið hennar og
rændu henni og sex af systkinum
hennar auk þúsunda annarra.
Hún starði út um reyklita rúðuna.
Gamall maður sat á vagni og sló í
asna sem drattaðist áfram. Fólk var
á ferli til að versla, en einu kon-
urnar á götunum voru með svarta
andlitsblæju. Undarlegt var að sjá
annað fólk halda áfram sínu daglega
lífi, næstum eins og að horfa á bíó-
mynd.
Maðurinn var Íraki að nafni Ab-
dul Hasib og hann var íslamskur
fræðari, mullah. Þeir trúuðu voru
verstir.
„Hann gerði allt við mig,“ sagði
hún síðar. „Hann barði mig og svo
komu kynmökin, dró mig á hárinu
og svo komu kynmökin, allt […] Ég
streittist á móti svo hann þvingaði
mig og barði mig. Hann sagði: „Þú
ert sabaya“ – ambátt mín.“
Eftir það lá ég bara þarna og
reyndi að láta hugann svífa yfir lík-
amanum eins og þetta væri að koma
fyrir einhverja aðra. Þetta gerði ég
til þess að hann gæti ekki stolið mér
allri.
„Hann átti tvær eiginkonur og
dóttur en þær gerðu ekkert til að
hjálpa mér. Á milli þess sem ég varð
að láta að vilja hans þurfti ég að
vinna öll húsverkin. Eitt sinn þegar
ég var að vaska upp kom önnur eig-
inkona hans og neyddi mig til að
taka töflu – einhvers konar Viagra.
Þær létu mig líka fá getnaðarvarn-
ir.“
Einu hléin komu á tíu daga fresti
þegar hann fór til Sýrlands til að
hitta aðra úr Kalífatinu.
Eftir um það bil mánuð seldi Ad-
bul Hasib hana öðrum Íraka að
nafni Abu Ahla fyrir fjögur þúsund
og fimm hundruð dollara, með tölu-
verðum ágóða. „Abu Ahla átti sem-
entsverksmiðju, tvær eiginkonur og
níu börn. Tveir sona hans börðust
með ISIS. Þarna sat við það sama.
Hann neyddi mig til kynmaka en svo
fór hann með mig í hús Abus Su-
leiman, vinar síns, og seldi mig fyrir
átta þúsund dollara. Abu Suleiman
seldi mig Abu Feisal sem bjó til
sprengjur í Mósúl. Hann hélt mér í
tuttugu daga af endalausum nauðg-
unum og seldi mig síðan Abu Badr.“
Alls var hún seld tólf mismunandi
körlum. Hún telur þá upp hvern á
fætur öðrum, nom de guerre þeirra
og raunveruleg nöfn. Hún lagði jafn-
vel nöfn barna þeirra á minnið
vegna þess að hún var staðráðin í að
gera upp sakirnar við þá.
„Verst var að vera seld hverjum
manninum af öðrum eins og við vær-
um geitur,“ segir hún. „Ég reyndi að
fyrirfara mér, kasta mér út úr bíl. Í
annað sinn fann ég töflur og tók þær
allar. En ég vaknaði samt. Mér leið
eins og ekki einu sinni dauðinn vildi
mig.“
Ég er að skrifa bók um nauðganir
í stríði. Þær eru ódýrasta vopn sem
maðurinn þekkir. Þær tortíma fjöl-
skyldum og sundra þorpum. Þær
gera ungar stúlkur að úrhrökum
sem óska þess að lífi þeirra ljúki
þegar það er varla hafið. Þær leiða
til fæðinga barna sem minna mæður
sínar á hverjum degi á þjáningar
sínar og samfélög hafna þeim oft
sem „illu blóði“. Og næstum alltaf er
litið fram hjá þessu í sagn-
fræðiritum.
Í hvert sinn sem ég held að ég
hafi heyrt það versta sem hægt er
að heyra hitti ég einhverja eins og
Naimu. Í gallabuxum, köflóttri
skyrtu og svörtum strigaskóm með
hnotubrúnt hárið greitt frá fölu and-
liti og tekið saman í tagl lítur hún út
eins og unglingur. En hún er tutt-
ugu og tveggja ára og var átján ára
þegar hún var tekin til fanga. Við
sátum á púðum í snyrtilegu tjaldi
hennar í Khankebúðunum í ná-
grenni borgarinnar Dohuk í norður-
hluta Íraks, einu af mörgum tjöldum
í röðum af hvítum tjöldum sem voru
orðin eins konar heimili mörg þús-
und jasída. Við töluðum saman í
margar klukkustundir. Þegar hún
byrjaði að segja frá gat hún ekki
hætt. Og þótt hún hafi stundum
hlegið þegar hún sagði mér frá smá-
vægilegum hefndaraðgerðum sem
henni tókst að beita kvalara sína
brosti hún aldrei.
Áður en ég fór rétti hún mér sím-
ann sinn til að sýna mér vegabréfs-
mynd innan á lokinu á símanum
hennar. Myndin var af henni sem
brosandi skólastúlku og hún var hið
eina sem hún átti frá barnæskunni,
frá þeim tíma þegar hún hafði aldrei
heyrt orðið nauðgun. „Ég verð að
trúa því að ég sé enn þessi stúlka,“
sagði hún.
Ef til vill hugsið þið um nauðgun
sem eitthvað sem „alltaf hefur átt
sér stað í stríði“, sem fylgifisk rána
og gripdeilda. Allt frá því menn fóru
fyrst í stríð hafa þeir lagst á konur,
ýmist til að auðmýkja óvininn, hefna
sín, svala eigin losta eða einfaldlega
vegna þess að þeir gátu það —
nauðganir eru svo algengar í stríði
að þegar við tölum um eyðileggingu
borga segjum við oft að þeim hafi
verið nauðgað.
Ég er ein af fáum konum í starfi
sem aðallega er sinnt af karl-
mönnum og lenti í því fyrir slysni.
Það voru ekki skothvellirnir sem ég
hafði áhuga á heldur það sem gerð-
ist utan víglínanna — á því hvernig
fólki tókst að halda áfram að lifa líf-
inu, sjá börnum sínum fyrir mat,
húsaskjóli og menntun og vernda
gamla fólkið á meðan allt var að fara
til helvítis allt í kringum það.
Á afgönsku móðurinni sem sagði
mér að hún hefði skrapað mosa af
steinum til að næra börnin sín á
þegar hún fór með þau yfir fjöllin á
flótta undan sprengjunum. Á mæðr-
unum í umsátrinu um gömlu borg-
ina Austur-Aleppo sem útbjuggu
brauðsneiðar fyrir börnin sín úr
steiktu hveiti og laufum sem þær
tíndu og héldu á þeim hita með því
að brenna húsgögn eða glugga-
karma á meðan sprengjuregnið var
að breyta strætunum allt í kring í
grátt duft. Á róhingjakonum sem
báru börnin sín í skjól í gegnum
skóga og yfir fljót þegar hermenn
frá Búrma stráfelldu eiginmenn
þeirra og brenndu kofana þeirra.
Nöfn þessara kvenna sjást aldrei
í sagnfræðiritum og ekki á þeim
stríðsminnisvörðum sem við göng-
um framhjá á járnbrautarstöðvum
og í miðborgum, en í mínum huga
eru þær sönnu hetjurnar.
Því lengur sem ég sinni þessu
starfi þeim mun meira angrar þetta
mig, ekki bara allt hið skelfilega
sem ég hef séð, heldur tilfinningin
um að við heyrum oft bara hálfa
söguna, ef til vill vegna þess að þeir
sem segja okkur hana eru aðallega
karlar. Karlar skrifa um karla. Og
stundum skrifa konur um karla.
Raddir kvenna fá sjaldan að heyr-
ast. Í fyrsta hluta Íraksstríðsins ár-
ið 2003 og þar til Saddam Hussein
var komið frá völdum var ég ein af
sex blaðamönnum í Írak sem skrif-
uðu fyrir The Sunday Times. Þegar
ég las fréttirnar eftir á sá ég að
hvorki þrír karl-kyns samstarfs-
menn mínir né önnur tveggja sam-
starfskvenna minna höfðu haft neitt
eftir einni einustu írakskri konu.
Engu var líkara en að þær hefðu
ekki verið þarna.
Það eru ekki aðeins þeir sem
skrifa sem líta á þessi stríðshrjáðu
lönd sem lönd karlmanna. Konum
er oft haldið fjarri samninga-
viðræðum um að binda enda á stríð
jafnvel þótt hver rannsóknin af ann-
arri hafi sýnt fram á að líklegra er
að friðarsamningar haldi ef konur
taka þátt í samningunum.
Ég var vön að halda að við sem
konur værum öruggari þegar stríð
geisa, að konum væri sýnd til-
hlýðileg virðing. En hryðjuverka-
hópar og illvirkjar sýna konum enga
virðingu. Augljóst virðist að hættu-
legt sé að vera kona á mörgum
átakasvæðum heimsins. Ég hef séð
meira af skelfilegri grimmd gagn-
vart konum í hverju landinu á fætur
öðru en ég hafði áður séð á þriggja
áratuga ferli sem fréttaritari er-
lendis.
Stúlkan sem
ég var áður
Bókarkafli | Í bókinni Líkami okkar, þeirra víg-
völlur lætur stríðsfréttaritarinn Christina Lamb
raddir kvenna heyrast og afhjúpar hvernig herir,
hryðjuverkamenn og vígasveitir beita nauðgunum
sem stríðsvopnum í nútímaátökum til þess að nið-
urlægja, hræða og stunda kynþáttahreinsanir.
Ljósmynd/ Rachel Unkovic/IRC
Stríðsglæpir Jasídastúlka með fjölskyldu sinni í flóttamannabúðum í Írak.
VIÐSKIPTA
Viðskiptapúlsinn er hlaðvarpsþáttur um viðskipti og
efnahagsmál. Þar setjast blaðamenn ViðskiptaMoggans niður
ásamt góðum gestum og ræða stærstu viðskiptafréttir vikunnar
hverju sinni og hvað um er að vera í íslensku viðskiptalífi.
Þættirnir fara í loftið á miðvikudögum í kjölfar útgáfu ViðskiptaMoggans og eru
í samstarfi við Arion banka. Hlaðvarpið má nálgast á iTunes, Spotify og á öðrum
hlaðvarpsrásum. Þættirnir eru einnig aðgengilegir á mbl.is
VIÐSKIPTAPÚLSINN
VIÐSKIPTAPÚLSINN
NÝTTU
TÍMANN OG
FYLGSTU MEÐ