Iðjuþjálfinn - 01.01.2018, Side 8
8
meðal annars í faglíkönum sem algengt er
að íslenskir iðjuþjálfar styðjist við í starfi,
svo sem líkani Kielhofner um iðju mannsins
(Taylor, 2017) og kanadíska líkaninu um
færni og hlutdeild í iðju (Townsend og
Polatajko, 2013). Hammell varpar fram
ögrandi spurningu þegar hún spyr hverjir
eigi að skilgreina og flokka iðju, fræðafólkið
sem alla jafna fjallar um efnið eða
notendurnir sjálfir, sem fræðafólkið er
oftast að fjalla um. Á sama hátt veltir hún
upp spurningunni frá hvaða sjónarhóli sé
eðlilegt að ræða iðju og gildi iðjuþjálfunar,
út frá einstaklingshyggju með áherslu á
sjálfstæði og framleiðni, eða út frá
félagshyggju með áherslu á samhjálp,
gagnkvæmni og tengsl (Hammell, 2009).
Hammell hefur um langa hríð gagnrýnt
hina hefðbundnu flokkun iðju í eigin umsjá,
störf og tómstundaiðju og telur hana
endurspegla sjónarhorn þeirra sem eru
sjálfbjarga, sjálfstæðir og færir um að
stunda atvinnu. Um leið útiloki flokkunin,
jaðarsetji (e. marginalizes) og geri lítið úr
þeim sem ekki leggja eitthvað fram til
samfélagsins með beinum hætti og eru
öðrum háðir (Hammell, 2004, 2009). Auk
þess sé ekkert í þessum hugtökum sem vísi
til þess sem alla jafna hefur mesta merkingu
fyrir fólk, svo sem að tjá ást sína, annast þá
sem því þykir vænt um eða njóta líðandi
stundar án þess að gera eitthvað sem hefur
augljósan tilgang. Einnig vilji gleymast að
iðju sé ætlað að mæta innri þörf fólks fyrir
að vera það sem það er (e. self-maintenance),
tjá tilfinningar sínar og njóta lífsins
(Hammell, 2004; Law o.fl., 1996). Hammell
bendir auk þess á að rannsóknir hafi sýnt
að hlutdeild í iðju, sem hefur persónulega
merkingu fyrir fólk, stuðli að því að það
upplifi aukna færni, möguleika og sjálfsvirði
(e. self-worth) og þar með velsæld og lífs-
gæði (Hammell, 2004, 2017).
Við óvænta atburði eins og að greinast með
langvinnan sjúkdóm eða skerðingu (e.
impairment) verður rof í lífssögu fólks.
Rannsóknir, sem gerðar hafa verið meðal
þeirra sem hafa reynslu af slíku rofi, styðja
ekki flokkun iðju í eigin umsjá, störf og
tómstundaiðju, heldur kýs fólk að skilgreina
iðju í ljósi þeirrar merkingar sem hún hefur.
Hammell (2009, 2014) hefur rýnt í og
samþætt niðurstöður eigindlegra rann-
sókna meðal fólks með ólíkan
heilsufarsvanda eða skerðingar og komist
að því að þátttakendur lýsa reynslu sinni af
jákvæðum áhrifum iðju í fjórum
mismunandi víddum. Heilsu- og
lífsgæðavíddin (e. restorative occupation)
nær yfir iðju sem eflir heilsu og vellíðan, til
dæmis með því að veita jákvæða upplifun,
útrás eða slökun án þess þó endilega að
aðhafast eitthvað ákveðið. Tengslavíddin
(e. occupation fostering belonging,
connecting, and contributing) snýst um iðju
sem tengir fólk saman og gefur því
tilfinninguna að tilheyra, meðal annars
með því að aðstoða og annast aðra.
Framkvæmdavíddin (e. engaging in doing
occupations) lýsir hlutdeild í iðju sem gefur
möguleika á að finna merkingu og tilgang í
því sem maður gerir og styrkir þannig
sjálfsvirði manns. Að lokum er það
tímavíddin (e. occupation reflecting life
continuity and hope for the future) sem vísar
til iðju sem tengir saman fortíð, nútíð og
framtíð og gefur von um betra líf. Hammell
bendir á að þessi vitneskja sé reyndar ekki
ný af nálinni því þessar fjórar víddir hafi
sterkan samhljóm við kenningu Wilcock
(1998) um flokkun byggða á merkingu iðju,
það er að gera (e. doing), vera (e. being) og
verða (e. becoming). Rannsóknir Rebeiro
(2001) meðal fólks með geðræna erfiðleika
studdu þessar hugmyndir, auk þess að
bæta við flokknum að tilheyra (e.
belonging). Hammell hvetur iðjuþjálfa því
eindregið til að skoða og efla iðju í samræmi
við þá merkingu sem hún hefur fyrir
notendur því slík iðja er líklegust til að auka
lífsgæði þeirra.
Einstaklingshyggjan sem Hammell telur
einkenna vestræn sjónarhorn í iðjuþjálfun
endurspeglast meðal annars í áherslunni á
sjálfstæði við athafnir, sér í lagi þegar kemur
að eigin umsjá sem ævinlega er tiltekin
fyrst í hinu hefðbundna flokkunarkerfi.
Þetta er sérstaklega áberandi í endur-
hæfingu þar sem árangur er gjarnan metinn
út frá því að hvaða marki fólk er fært um að
sjá um daglegar athafnir heima fyrir án
aðstoðar frá öðrum (Mackey og Nancarrow,
2006; Solvang og Slettebø, 2012). Það að sjá
fyrir sér og sínum er líka hátt skrifað og
jafnvel skilyrði þess að geta talist fullgildur,
borgaralegur þegn (Devlin og Pothier,
2006). Athafnir sem hafa skýran og
sýnilegan tilgang hafa því lengst af skipað
mikilvægan sess í þjónustu iðjuþjálfa, en
minni gaumur gefinn því hvernig fólk fer að
því að mæta tilfinningalegum og félags-
legum þörfum sínum (Hammell, 2017).
Þessi áhersla er meðal annars sýnileg í
þeim matstækjum sem iðjuþjálfar nota,
sem flest beinast ýmist að undirliggjandi
líkamlegri og andlegri starfsemi: Mini-
Mental State Examination - MMSE (Folstein,
1975); Box and Blocks (Matieowetz, Volland,
Kashman og Weber, 1985) og Bruininks-
Oseretsky Test of Motor Proficiency – BOT™2
(Bruininks og Bruininks, 2005) eða frammi-
stöðu við fyrirfram ákveðnar athafnir:
Barthel Index of Activities of Daily Living
(Mahoney og Barthel, 1965) og Pediatric
Evaluation of Disability Inventory – PEDI
(Haley, Coster, Ludlow, Haltiwanger og
Andrellos, 1992). Þótt samspil ein staklings
og umhverfis hafi verið í brennidepli í
iðjuþjálfunarkenningum um árabil eru
margir iðjuþjálfar enn uppteknir af því að
meta umfang skerðinga og frávik í þeim
dæmigerðu athöfnum sem ætlast er til að
fólk sinni og því er hætt við að þjónustan
verði frekar einhæf með áherslu á færni við
dæmigerðar athafnir og líkamsstarfsemi
(Hammell, 2017). Starfshættir geta líka
tengst viðteknu vinnulagi í þverfaglegum
teymum þar ákveðnar væntingar eru
ríkjandi, svo sem að iðjuþjálfar sjái um allt
sem lýtur að handbeitingu.
Hammell efast um að þessi mikla áhersla á
tilgangsbundnar athafnir sé í takt við það
sem notendur kjósa helst og bendir á að
víða sé þessu öðruvísi farið. Þegar leitað er
álits notenda skipar það að tilheyra,
aðstoða eða hjálpa öðrum gjarnan
mikilvægan sess og því er hægt að mæta
með iðju af ýmsum toga (Borell, Asaba,
Rosenberg, Schult og Townsend, 2006;
Hammell o.fl., 2008, Iwama, 2003).
Hugtakið “ubuntu” kemur úr fornri afrískri
heimspeki og merkir að fólk er manneskjur
vegna þess að það tilheyrir, tekur þátt og
deilir með öðrum. (e. “I am human because
I belong, I participate, I share“) (Murithi,
2007). Félagsleg tengsl eru því ekki einungis
mikilvæg undirstaða velsældar heldur
forsenda mannlegrar tilvistar (Hammell,
2014). Að gera eitthvað fyrir eða með öðrum
skapar og eflir félagsleg tengsl og við það
fær iðja sérstaka merkingu (Borell o.fl.,
2006). Hugtakið gagnkvæmni (e.
interdependence) lýsir merkingu sem
verður til þegar iðja er stunduð í sameiningu
og það getur líka átt við þótt annar aðilinn
sé að mestu sá sem þiggur og hinn sá sem
gefur, til dæmis þegar veitt er aðstoð við
persónulegar athafnir (van Nes, Runge og
Jonsson, 2009). Rannsóknir í ólíkum
menningarheimum benda eindregið til að
slík gagnkvæmni sé fólki nauðsynleg því
það er og verður alltaf í einhvers konar
tengslum við aðra. Tengsl eru þó ekki
eingöngu manna á milli því hjá sumum
hópum er einnig lögð áhersla á samband
einstaklinga við landið og náttúruna og
jafnvel við horfna forfeður sem ber að virða
(Hammell og Iwama, 2012).
Í alþjóðlega flokkunarkerfinu um færni,
fötlun og heilsu – ICF (World Health Organi-
zation, 2001) er hugtakið þátttaka skilgreint