Iðjuþjálfinn - 01.01.2018, Blaðsíða 10

Iðjuþjálfinn - 01.01.2018, Blaðsíða 10
10 aðkoma notenda getur verið af ólíkum toga. Sem dæmi má nefna að sækja fræðslu sem veitt er af fagmanni, vera í sjálfhjálparhópi án aðkomu fagaðila eða vera ráðgefandi fyrir fagfólk. Hlutverk notenda og fagfólks eru samofin og breyting á valdastöðu notenda hefur ótvíræð áhrif á starf þeirra sem þjónustuna veita, sumum gæti jafnvel fundist fagímynd sinni ógnað. HUGMYNDIR OG KENNINGAR Í IÐJU- VÍSINDUM OG IÐJUÞJÁLFUNARFRÆÐI Sjálfstæði og sjálfbærni fræðigreina er háð hugmyndafræðilegum bakgrunni þeirra og hefur meðal annars þann tilgang að skilgreina þær og aðgreina frá öðrum. Fræðafólk innan iðjuvísinda og iðju- þjálfunarfræði hefur lagt mikið upp úr samstöðu um fræðilegar undirstöður. Núverandi iðjuhugmyndir og -kenningar hafa nær eingöngu verið settar fram af vestrænum fræðimönnum sem flestir virðast telja að þær geti gilt um heim allan. Hammell hefur gagnrýnt þessar einhliða áherslur harðlega og minnir á að einungis 17% jarðarbúa tilheyra vestrænum samfélögum. Hún líkir þessu við nýlendu- stefnu þar sem ákveðnar hug myndir eru leyfðar og aðrar kæfðar í fæðingu. Slíkar ákvarðanir byggja þó ekki á yfirburðum eða sannleiksgildi hugmynd anna sem um ræðir heldur ójafnri valdastöðu þeirra sem setja þær fram (Hammell, 2009, 2011). Ekki sé hægt að ganga að því vísu að kenningar, líkön og flokkunarkerfi sem þróuð eru á Vesturlöndum séu alhliða og gildi fyrir alla. Þvert á móti geta þau átt þátt í að viðhalda kúgun og undirokun tiltekinna þjóða eða þjóðarbrota (Hammell, 2011). Hún bendir á að margt af því sem við tökum sem gefnu í iðjuþjálfun mótist af vestrænum miðstéttar- gildum sem eru okkur svo runnin í merg og bein að við sjáum þau ekki. Hún hvetur iðjuþjálfa til að rýna í viðurkennd viðhorf með gagnrýnum augum og hafa hugfast að oft er ekki allt sem sýnist. Þetta var eitt megininntakið í aðalfyrirlestri Hammell á heimsþinginu í Höfðaborg 2018, en saga Suður-Afríku og aðstæður þar gáfu orðum hennar aukna merkingu. Í grein frá 2013 leggur Hammell áherslu á menningarlega auðmýkt (e. cultural hu- mility). Hún minnir á að í hugtakinu menn- ing felst ekki aðeins þjóðerni og kynþáttur heldur einnig stétt, kyn, kynhneigð og færni. Með áherslu sinni á menningarlegt sjónarhorn vill Hammell vinna gegn áherslum þjóðernishyggju, nýlendustefnu og einokunar (Feiring, 2014). Hún vekur jafnframt athygli á að öll þekking er aðstæðubundin og því sé þörf fyrir mis- munandi hugmyndir og kenningar til að spanna menningarlegan fjölbreytileika. Að öðrum kosti sé stór hluti mannkyns útilokaður frá fræðilegu sjónarhorni iðjuvísinda og sem notendur iðjuþjálfunar (Hammell, 2011). Fyrirbæri eins og þarfir, færni og velferð einstaklinga hafa litla merkingu þar sem félagsleg tengsl, gagnkvæmni og það að deila með öðrum eru sett í forgang (Hammell, 2015e). Einnig skipta einstaklingsmiðuð hugtök eins og viljastyrkur, sjálfræði, trú á eigin áhrifamátt og líkamlegt og andlegt atgervi – sem eru áberandi í vestrænum iðjukenningum – litlu fyrir fólk sem býr við valdbeitingu og samfélagslegt misrétti sem viðgengst víða um heim (Hammell, 2011, 2015e). Niðurstaða hennar er því sú að hug- myndirnar sem kenningar iðjuþjálfunar byggja á séu sértækar fyrir ákveðna menningu og útvalda félagslega hópa sem standast tiltekinn færnistaðal. Auk þess skorti verulega á að rannsóknir liggi að baki hugmyndunum (Hammell, 2011, 2015b). RÉTTUR TIL IÐJU Allt frá árinu 2008 hefur rétturinn til iðju (e. occupational rights) verið eitt meginstefið í skrifum Hammell. Hugtakið vísar til þess að allir eigi rétt á að stunda iðju sem er þeim mikilvæg og stuðli að velferð þeirra og samfélagsins í heild. Það geti haft alvarleg áhrif á heilsu og velsæld fólks ef það hafi ekki tækifæri til að gera það sem það þarf og vill gera. Í kjölfar greinarinnar frá 2008 hafa komið út nokkrar aðrar þar sem rétturinn til iðju er í brennidepli (Hammell og Beagan, 2017; Hammell, 2015b, 2017). Hammell skoðar málið frá ýmsum hliðum og tengir við mannréttindasáttmála af ýmsum toga. Hún telur mikilvægt að greina þegar brotið er á rétti fólks til iðju og vísar sérstaklega til þátta í umhverfinu í því sambandi, svo sem neikvæðra viðhorfa og félagslegs, fjárhagslegs og menningarlegs ójöfnuðar. Fyrir leikmenn virðist ýmislegt sammerkt með áherslum Hammell og frumkvöðla í iðjuvísindum sem fjalla um iðjuréttlæti (e. occupational justice) (Townsend og Wil- cock, 2004). Hins vegar bendir Hammell á að skilningur fólks á „réttlæti“ sé háður samhengi, aðstæðum og menningu og því sé erfitt að skilgreina og nýta hugtakið iðjuréttlæti. Sér í lagi telur hún að hugtökin sem eiga að lýsa óréttlæti með tilliti til iðju (e. occupational injustice) séu óskýr, svo sem svipting (e. occupational deprivation), útskúfun (e. occupational alienation), ójafn- vægi (e. occupational imbalance), jaðar- setning (e. occupational marginali zation) og aðskilnaður (e. occupational apartheid). Þau skarist líka oft og nýtist því illa til að leggja mat á það sem fram fer hverju sinni (Hammell og Beagan, 2017). Hammell telur þessi flóknu hugtök og skilgreiningar hvorki þjóna fræðunum né þeim sem njóta þjónustu iðjuþjálfa (Hammell og Beagan, 2017). Einnig gagnrýnir hún að talsmenn iðjuvísinda vísi takmarkað til þekktra félagsvísindakenninga þar sem fjallað er um svipaðar hugsmíðar og noti jafnvel skyld eða sömu hugtök án þess að skilningurinn að baki þeim sé endilega sá sami. Þetta sé ruglingslegt og torveldi skoðanaskipti innan fræðasamfélagsins. Hún tekur því undir með Durocher, Gibson og Rappolt (2014) sem hafa gagnrýnt óskýrt inntak hugtaksins iðjuréttlæti. Á heims- þinginu í Suður-Afríku stóð Hammell, ásamt fræðimönnum sem hafa iðjuréttlæti að leiðarljósi, að málstofu um iðjuréttlæti sem frelsi til að gera og vera (e. Occupational justice as the freedom to do and be: A conceptual tool for advocating for human rights). Tilgangur málstofunnar var að stuðla að sameiginlegum skilningi á tengslum hugtaksins við mannréttindi og mikilvægi þess að iðjuþjálfar nýti alþjóðlega mannréttindasáttmála og færninálgunina um réttlæti (sjá neðar) sem leiðarljós í starfi. FÆRNINÁLGUNIN Síðustu árin hefur Hammell vísað mikið í færninálgunina um réttlæti (e. capabilities approach) (Hammell, 2015c, 2017; Nussbaum, 2011; Sen, 2005). Færninálgunin er samspilskenning líkt og líkanið um samspil einstaklings, umhverfis og iðju (e. Person – Environment – Occupation) (Law o.fl., 1996), norræna tengslasjónarhornið á fötlun (Tøssebro, 2004; Ytterhus, Egilson, Traustadóttir og Berg, 2015) og ICF-líkanið (World Health Organization, 2001). Nálgun- in snýst um þá færni sem fólki er nauðsynleg til að geta lifað mannsæmandi lífi, orðið það sem það vill verða og gert það sem það vill gera. Lögð er áhersla á að færni tengist ekki eingöngu getu fólks heldur einnig frelsi þess og valkostum sem skapist af samspili persónulegra þátta og umhverfisþátta, til dæmis félagslegra, pólitískra og efnahags- legra. Lykilspurningar sem færninálgunin leitast við að svara eru meðal annars: Hvað er hver einstaklingur fær um að gera og vera? Hvaða valkosti hefur hann? Hvaða ytri og innri þættir standa í vegi fyrir því að hann hafi valkosti sem sanngjarnt er að standi fólki til boða og hvað hindrar að hann fái notið þeirra sem hann hefur (Nussbaum, 2011)? Æ fleiri benda nú á að færninálgunin nýtist vel til að greina sumt af því ranglæti

x

Iðjuþjálfinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðjuþjálfinn
https://timarit.is/publication/1164

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.