Skólavarðan - 2019, Qupperneq 15
VOR 2019 SKÓLAVARÐAN 15
Tækni / UMFJÖLLUN
Möguleikarnir endalausir
„Við þurfum alltaf að halda á lofti
umræðunni um hvaða áhrif tæknin
og samfélagsmiðlar geta haft á líf
okkar – og spyrja okkur hvort tæknin
sé til bóta eða hvort hún hefti okkur
á einhverjum sviðum, í námi til
dæmis. Þetta snýst um forvörn og er
kannski ekkert ósvipað og var talað
um tóbaksreykingar árum saman –
það hafði þau áhrif að mjög góður
árangur náðist í að halda unglingum
reyklausum.“
Anna María segir að á meðan börn
séu frædd um tölvutæknina þá sé ekki
ástæða til að banna síma í skólum.
„Ég er ekki hlynnt slíku banni. Það er
nefnilega þannig að ef við leggjum fram
áhugaverð verkefni, í hvaða námsgrein
sem er, þá vinna krakkarnir vel og
þau eru ekki að nota tölvur eða síma í
annað á meðan,“ segir Anna María og
bætir við að heilt yfir gangi þetta vel en
auðvitað hafi líka komið upp vandamál
sem tengist tölvunotkun. „Málið er að
taka á slíku strax, ræða við nemandann
og reyna að finna lausn.“
Anna María segir möguleikana
endalausa þegar snjalltæknin er annars
vegar. Hún segir þó að betra væri ef
fleiri öpp væru til á íslensku. „Það
má auðvitað gera mun betur í þessu
og einkum finnst mér vanta fleiri og
fjölbreyttari verkefni sem tengjast
lesskilningi. Ég hef heyrt nemendur
á unglingastigi tala um að þeir vilji
ná meiri árangri þar en því miður er
ekki margt í boði fyrir unglingana. Þó
vil ég segja að það er margt gott að
finna á vef Menntamálastofnunar – til
dæmis Viskuveituna sem er eldgamalt
námsefni en kennir með ágætum
hætti hvernig á að nota bókasafn og
tölvur sem hluta af hugmynd um
margmiðlunarver.“
Spjaldtölvuvæðingin hefur verið
hröð síðustu árin, ekki síst í skólastarfi.
Kennarar þurfa að fylgjast gríðarvel
með og vera í stakk búnir að nota
þessi tæki. En eru þeir það? „Já, engin
spurning. Þeim fer fækkandi sem eru
óöruggir en að sjálfsögðu þurfa þeir
að njóta stuðnings við innleiðingu
tækni og í framhaldinu. Við búum afar
vel hér hvað þetta varðar; erum með
tölvuumsjónarmann innan skólans
og svo fáum við spjaldtölvuteymi
Kópavogs reglulega í heimsókn.
Stuðningur þarf að vera markviss
og eins þarf skólinn að hafa skýr
markmið í þessum efnum. Við fengum
til dæmis lista yfir þau öpp sem
spjaldtölvuteyminu fannst að allir
kennarar ættu að kunna á. Listinn var
sendur á kennara og þeir merktu við
þau forrit sem þeir þekktu og fengu svo
kennslustund í hinum.“
Anna María er sjálf dugleg að
fylgast með þróuninni. „Já, ég er á kafi
í þessu og reyni að deila öllu sem mér
þykir markvert á blogginu mínu eða
á Twitter. Svo eru kennarar og aðrir
líka duglegir að segja mér frá forritum
og öðru sem þeir rekast á. Þannig
hjálpumst við að í þessu.“
Nemendur í
Hörðuvallaskóla
fá spjaldtölvu til
einkanota.