Skólavarðan


Skólavarðan - 2019, Side 28

Skólavarðan - 2019, Side 28
28 SKÓLAVARÐAN VOR 2019 VIÐTAL / Helga Hauksdóttir mennta kennara betur, þannig að þeir geti sinnt þessum hópi. Mín skoðun er sú að kennarar þurfi oft meiri aðstoð inni í kennslustofunni í upphafi og langbest væri ef við gætum haft kennara í nokkurs konar verkefnastjórastarfi, þannig að það þurfi ekki að telja kennslustundir og þeirra hlutverk væri að styðja við kennsluna og fylgja krökk- unum eftir fyrstu mánuðina, þannig að við séum ekki henda þeim beint í djúpu laugina,“ segir Helga. Hún bendir á að erlendir nemend- ur sem koma hingað þurfi mikla aðstoð fyrstu mánuðina og þetta eigi til dæmis við kvótaflóttamenn sem hafa sest að á Akureyri. „Við kenndum sýrlensku fjölskyldunum sem hingað komu með því að skipta þeim í tvo hópa fyrstu vikurnar; börn og fullorðna. Það gekk ágætlega, við höfðum túlk, og það var gaman að sjá hvað krakkarnir sérstak- lega voru fljótir að læra að bjarga sér.“ Aðferðir og leiðir við íslensku- kennsluna hafa breyst töluvert á síðustu árum, segir Helga. „Blessunarlega leggjum við alltaf meira og meira upp úr tjáningu; að hvetja krakka til að tala. Það er svo mikilvægt að þau leggi í að biðja um orðið og segja sína skoðun og skiptir engu þótt þau tali ekki kórrétt mál. Við þurfum á sama tíma að brýna fyrir íslensku krökkunum að tala ekki ensku við erlenda nemendur. Ég reyni sífellt að benda íslensku krökkunum á að þeir séu líka íslenskukennarar og þurfi að hjálpa erlendu krökkunum að byggja upp sinn orðaforða.“ Helga segir erlenda nemendur oft- ast fá að sleppa við dönsku og í staðinn fái þau sitt eigið móðurmál metið og aukna íslenskukennslu. Það sem hefur breyst, að sögn Helgu, er að áður fyrr voru erlendir krakkar mest teknir úr tímum þegar lesgreinar voru á dagskrá – og settir í íslenskutíma í staðinn. „Nú reynum við að hugsa þetta öðruvísi. Þessi börn eins og önnur þurfa að koma sér upp faglegum orðaforða og við megum ekki ræna þau þeirri þekkingu sem boðið er upp á í greinum á borð við sögu, líffræði og samfélags- fræði. Við verðum að halda áfram að þróa leiðir svo þessi börn fái notið þessara kennslustunda, þau skilji hvað fram fer og geti í framhaldinu aflað sér frekari þekkingar – til dæmis með því að lesa sér til á sínu eigin móðurmáli eða ensku, á netinu. Ég sé líka marga kennara fara skemmtilegar leiðir, eins og að nota quiz forrit með nemendum í kennslu hugtaka námsgreina.“ Að tala og hlusta Helga segir mikla vinnu að baki í að aðlaga ýmiss konar námsefni – til dæmis hafi verið gerðir útdrættir og orðalistar á pólsku í mörgum lesgreinum á unglingastigi. Þar hafi margir kennarar lagt hönd á plóg og verið mjög duglegir við að deila vinnu sinni, svo að hún nýtist sem flestum. „Við reynum líka að útvega samsvarandi námsefni á öðrum tungumálum þegar það er hægt. Þá geta erlendir nemendur verið með íslensku kennslubókina en haft stuðning af sambærilegri bók á sínu móðurmáli eða ensku. Ég tel að okkur sé að fara fram í þessu og kennarar leita fleiri leiða en áður – auðvelda leiðin að taka þessa krakka út úr kennslustund er ekki lengur gild. Ég hef séð kennara auka við verklegt nám og efna oftar til umræðna um námsefnið, hvort tveggja hjálpar erlendu nemendunum,“ segir Helga og bætir við að vissulega sé þetta allt hægara sagt en gjört – en við séum vonandi á réttri leið. „Þetta er mikil vinna fyrir kennara, þeir þurfa þjálfun og æfingu til að byrja með en á móti kemur að þetta er líka gefandi og skemmtilegt.“ Helgu er hugleikið að efla sam- ræðulist í grunnskólanum. Spjaldtölvur eru í boði í grunnskólum Akureyrar og nýtast þær til margra hluta í náminu. „Við verðum samt að gæta að því að setja krakka ekki of mikið fyrir framan tölvur, sem getur verið þægilegt á ýmsan máta, en þá missa þau af tæki- færinu til að tala saman og ekki síður tækifærinu til að hlusta á íslensku. Ég reyni alltaf að tala eins mikið og ég get við erlenda nemendur sem ég hitti. Það dugir oft að spyrja einfaldra spurninga eins og hvað ætlarðu að gera eftir skóla í dag? Eða þótti þér gaman í fótboltanum í gær? Það er nefnilega svo mikill sigur fyrir sjálfstraust þessara barna að geta tjáð hugsanir sínar og hafa svo hugrekki til að rétta upp hönd og segja: ég skil ekki,“ segir Helga. Bækur í staðinn fyrir útlanda- -súkkulaði Nemendur með annað tungumál en íslensku búa misvel þegar kemur að kennslu í þeirra eigin móðurmáli. Kennsla af þessu tagi er ekki lögbundin og segir Helga að þetta sé misjafnt eftir stöðum en langoftast sé þessi tungu- málakennsla í höndum sjálfboðaliða, oft foreldra barnanna. Sveitarfélög styðji oft við þessa kennslu með því að láta í té í húsnæði og kennslugögn. Þannig sé staðan til dæmis á Akureyri og boðið sé upp á kennslu í pólsku einu sinni í viku og eins fer fram kennsla í arabísku einu sinni í viku í einum grunnskóla bæjarins. „Við höfum aðstoðað eftir megni, þau fá að ljósrita hjá okkur og fleira í þeim dúr.“ Helga kveðst brýna fyrir foreldrum erlendra barna að tala móðurmálið heimavið. „Það er mikilvægt að það sé lesið fyrir börnin á þeirra móðurmáli, þau heyri málið og við hvetjum krakka til að hafa skemmtilega bók á sínu móðurmáli í töskunni. Það er hluti af yndislestri sem felur í sér að krakkar lesa sér til skemmtunar. Það er ekki sanngjarnt að á meðan íslensku krakkarnir lesa spennandi bækur þá séu erlendu nemendurnir kannski að lesa einhverja byrjendabók með efni sem ekki höfðar til þeirra. Þau þurfa líka að njóta yndislestrar og geta gert það á sínu eigin móðurmáli,“ segir Helga. Framboð af barna- og unglingabókum á erlendum tungumálum hefur aukist að sögn Helgu. Pólski sendiherrann kom til dæmis færandi hendi í fyrra og gaf fjölda bóka. Þær voru allar skráðar í Gegni og ganga nú barna á milli með milligöngu skólasafnanna. „Almenningsbókasöfnin standa sig ágætlega og ég hef átt gott samstarf við bókasafnið í Árborg en það er móðursafn þegar kemur að pólskum bókum. Þaðan er hægt að fá bækur um hvaðeina; kennslubækur og líka skáldsögur og ævintýrabækur á pólsku,“ segir Helga. Hún segir suma kennara á Akureyri líka hafa tekið upp á þeirri nýbreytni að koma með barnabók frá útlöndum í stað þess að koma með súkkulaði á kaffistofuna að lokinni utanferð. Kiddi klaufi á pólsku barst einmitt með þessum hætti til Akureyrar nú fyrir skemmstu. „Við eigum að bera virðingu fyrir móðurmáli okkar erlendu barna. Með því að bjóða þeim að koma með bækur á sínu máli inn í skólann erum við að sýna þeim og uppruna þeirra virðingu. Um leið viðurkennum við að skólinn er ekki lengur einsleitur og að við búum í samfélagi fjölmenningar,“ segir Helga Hauksdóttir. Blessunarlega leggj- um við alltaf meira og meira upp úr tjáningu; að hvetja krakka til að tala. Á vefnum erlendir.akmennt.is er að finna margt fróðlegt og áhugavert efni sem lýtur að kennslu barna með annað móðurmál en íslensku en vefur- inn og viðhald hans er einnig hluti af starfi Helgu.

x

Skólavarðan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.