Skólavarðan


Skólavarðan - 2019, Page 49

Skólavarðan - 2019, Page 49
VOR 2019 SKÓLAVARÐAN 49 Ferðasaga / RADDIR er kannski einfaldari en ekki minna mikilvæg. Fyrstu árin í grunnskóla snúast að mínu mati að miklu leyti um að byggja sterkan grunn fyrir komandi skólaár þegar námið verður flóknara. Í svona ferðalagi gefst tækifæri til að hafa grunninn sterkan og um leið margþættan. Ég er viss um að kennarar eru sammála mér um kosti þess að hafa námið skemmtilegt og ef manni tekst að vekja áhuga nemanda og forvitni er námið og skólavinnan auðveldari. Heimaskóli fyrri part dags Við fengum mjög góð viðbrögð frá kennurum og stjórnendum Varmár- skóla þegar við komum með hug- myndina að ferðalaginu til þeirra. Þau sáu tækifærin í því að nemandi væri á ferðalagi um heiminn og við erum dugleg að hjálpa Snorra við að senda tölvupósta og myndir til bekkjarins. Kennari Snorra les svo póstana upp fyrir bekkinn, þau skoða á hnetti hvar hann er staddur og ræða staðina. Við tókum nokkrar skólabækur með í ferðina sem við vinnum reglulega með, en skilaboðin sem við fengum fyrir þessa ferð (og reyndar einnig stóru ferðina fyrir tíu árum!) var að mikil- vægast væri að drengurinn héldi góðum grunni í stærðfræði og íslensku. Við höfum yfirleitt heimaskóla fyrri part dags. Tökum einn til tvo tíma í vinnu. Ég set stundum upp lista yfir verkefni sem Snorri á að leysa. Hef ferning fyrir framan hvert atriði sem hann svo krossar við þegar það er leyst. Þessi aðferð hefur reynst honum vel. Dæmi um slíkan lista getur verið að klára ákveðnar blaðsíður í stærðfræði, skrifa kafla í sögunni sem hann er að semja, æfa sig í krossgátu, telja flísarnar á baðinu og deila með tveimur, leysa rúbikskubbinn einu sinni og lesa upphátt um letidýr á Vísindavefnum. Auk íslensku og stærðfræði snýst heimaskólinn sem sagt mikið um það sem við erum að upplifa á hverjum stað. Við fórum til dæmis í ferð um regnskógana með leiðsögumanni til að skoða letidýr. Eftir þá ferð fékk Snorri það verkefni að gera litla ritgerð um letidýr, hvað þau verða stór, hvar þau búa, hvað þau borða og svo framvegis. Þar byggði hann á skoðunarferðinni og því sem hann sá. Ég notaði tækifærið og kenndi honum að googla til að bæta við upplýsingarnar. Hann æfði ritun með því að skrifa þetta niður, lærði um uppsetningu ritgerðar og kynntist Vísindavefnum, sem hann er afskaplega hrifinn af. Allt í einum pakka. Margt af því sem við lærum og gerum í heimaskólanum er þannig. Við löbbum mikið og skoðum umhverfið, dýrin og blómin og fáum þannig innlit í náttúrufræði og líffræði. Þegar við kaupum hluti hér á mörkuðum eða í búðum fær Snorri Valur það verkefni að reikna úr innlendum gjaldmiðli yfir í krónur. Við skoðum skeljar og steina, skiptum þeim í tvo eða fleiri hópa, látum helminginn hverfa, skiptum þá afgangnum í þrennt og svo framvegis. Stærðfræðiæfingar geta leynst víða og í þessari nánu samveru sem við fáum með börnunum okkar skapast mörg tækifæri sem við annars myndum ekki sjá. Tíminn sem við erum saman skiptir þarna miklu máli, því við erum saman meira og minna allan sólarhringinn flesta daga. Mörgum þykir nóg um að vera með fjölskyldunni allan sólar- hringinn í nokkurra daga fríi, en þetta verður öðruvísi þegar um lengri ferð er að ræða. Ákveðið jafnvægi skapast, venjur myndast og rútína þar sem allir fá sitt rými kemur oft af sjálfu sér. Hugmyndaflugið skiptir miklu máli Snorri Valur er mjög hress átta ára drengur og eins og mörg börn er hann afskaplega málgefinn, sísyngjandi og trallandi. Hann er að gera sér betur grein fyrir mikilvægi þess að skapa vinnufrið þegar aðrir eru að sinna verkefnum, að maður þurfi stundum að sitja í þögn og það sé allt í lagi þegar aðrir þurfa stundarfrið. Þegar tíminn er meiri og streitan minni finnum við fullorðnu líka eigin ró til að hjálpa honum að venjast því að dunda sér sjálfur. Hann var reyndar mikill dundari þegar hann var minni en við höfum fundið það síðustu árin að tæki og tölvur voru farin að vera of stór hluti af daglegu lífi hjá stubbnum. Því hefur það einnig verið mark- mið í ferðinni að hjálpa honum að finna leiðir til að njóta þess að dunda sér í friði og ró án þess að hafa einhver tæki til að sökkva sér í. Hann hefur lært að leggja kapla, lært að leysa rubikskubb- inn, lesa sér til ánægju eða búa til leiki. Hann hafði mjög lítið af leikföngum með í ferðina, en nokkrar léttar (ekki þungar í kílóum) bækur, fótbolta- möppu, fótboltaspjöld, teikniblokk, nokkur ferðaspil og rubikskubb. Þessa hluti hefur hann notað bæði til leiks og til þess að læra. Hugmyndaflug kennarans (ég) skiptir þar miklu og hér gildir, eins og í svo mörgu öðru, að hafa gaman af þessu, nálgast verkefnin með jákvæðni, hugsa út fyrir kassann, hlæja, leika og njóta :) Fjölskyldan fer mikið í sjóinn þegar tækifæri gefst. Snorri er mjög öruggur í öldunum enda búinn að læra að standa á brimbretti. Fótbolti á ströndinni við sólarlag er líka öfl- ug minning en hér eru það Patrekur Orri og Guðjón faðir hans sem sparka bolta. Samverustundirnar eru líklega stærsti kosturinn við svona ferðalag. Við höfum bara hvert annað og gæðastundirnar eru því mjög margar.

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.