Skólavarðan - 2019, Side 53
VOR 2019 SKÓLAVARÐAN 53
Dagur leikskólans / UMFJÖLLUN
A far góð þátttaka var í ritlistar-samkeppni meðal
leikskólabarna sem hleypt var
af stokkunum í fyrsta sinn fyrr
á þessu ári. Tilefnið var Dagur
leikskólans sem er haldinn
hátíðlegur 6. febrúar ár hvert. Vel
á annað hundrað ljóð, textar og
örsögur bárust í keppnina og voru
efnistök frjáls.
Ritlistarsamkeppnin bar
yfirskriftina Að yrkja á íslensku
og var liður í vitundarvakningu
um mikilvægi íslensks máls sem
Kennarasambandið efndi til á Al-
þjóðadegi kennara síðasta haust.
Bjarkey Sigurðardóttir,
nemandi í leikskólanum Jötun-
heimum á Selfossi, fékk fyrstu
verðlaun fyrir ljóð sitt Sumar.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
afhenti Bjarkeyju verðlaunin á
hátíðarathöfn sem fram fór í leik-
skólanum Brákarborg að morgni
Dags leikskólans.
Verðlaunaljóð Bjarkeyjar
ber titilinn Sumar. Önnur
verðlaun komu í hlut Hersteins
Snorra, leikskólanum Ásgarði í
Húnaþingi, fyrir ljóðið Skipstjór-
inn.
Þau Maceij, Indiana Alba,
Katla Sól, Helga Katrín og Arnlaug
Fanney, leikskólanum Akraseli á
Akranesi, fengu þriðju verðlaun
fyrir ljóðið Ævintýri.
Sólblítt sumar og snakk
Efnt var til hátíðarhalda í leikskólanum Brákarborg á Degi leikskólans. Borgarstjóri og menntamálaráðherra
voru meðal gesta. Veitt voru verðlaun í ritlistarsamkeppni leikskólabarna.
Sumar
Sumar er sólblítt,
gaman er þá.
Að dansa í sumarkjólnum
og borða snakk.
Umsögn dómnefndar: Haglega samið ljóð í ætt við
ferskeytlu að formi og fjallar um þá tilfinningu þegar
sumarið hellist yfir mann af fullum þunga. Orðið „sólblítt“
er ljóðrænt og sérstaklega skemmtilegt og bendir til
myndrænnar og skapandi hugsunar ljóðskáldsins.
Skipstjórinn
Einu sinni var skipstjóri
og lét hann alla gera allt í skipinu
en skipstjórinn stýrði bara allan tímann.
Skipstjórinn dó
og flutti upp í skýin
og til Guðs.
Maðurinn sem drap skipstjórann var vondur
og hann fór til helvítis.
Umsögn dómnefndar: Í ljóðinu Skipstjórinn er sögð
saga af lífsbaráttu um borð í skipi, kannski fiskitogara
sem aflar þjóðartekna. Illvirki er framið og morðingi
fær makleg málagjöld. Mynd af himnaríki og helvíti er
raunveruleg í huga ljóðmælanda og munur á réttu og
röngu afdráttarlaus, ef allt væri svona skýrt í heimi hér
væri gaman að lifa. Ískaldur raunveruleiki úr sjávarþorpi.
Ævintýri
Það er gaman að fá kakó og kex.
Það er gaman að gefa fuglunum og skauta á klaka
og finna prik og köngla,
finna tyggjó og rusl.
Finna eggjaskurn.
Finna stór prik.
Það er gaman að gefa fuglunum brauð og eiga fugla.
Fullt af fuglum.
Kannski getum við klifrað í trénu?
Umsögn dómnefndar: Mjög glaðlegt og leitandi ljóð með
æsispennandi endi sem skilur lesandann eftir hugsi og
skapar eftirvæntingu um að enn meira fjör sé í vændum.
Dómnefnd var skipuð Haraldi Frey Gíslasyni, rithöfundi og formanni Félags
leikskólakennara, Steinunni Ingu Óttarsdóttur, gagnrýnanda og sérfræðingi hjá
Félagi framhaldsskólakennara, og Sigrúnu Birnu Björnsdóttur, formanni Samtaka
móðurmálskennara og sérfræðingi í jafnréttis- og vinnuumhverfismálum hjá KÍ.
Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla veittu leikskólum barnanna
sem unnu til verðlauna viðurkenningarvott í formi fjár.
Leikskólinn Jötunheimar fékk 40 þúsund krónur og Ásgarður og Akrasel 20
þúsund krónur hvor.
Börnin í Brákarborg glöddu gesti með söng og fallegri framkomu. Nokkur þeirra stilltu sér upp með Haraldi Frey Gíslasyni, formanni FL, Lilju Dögg Alfreðs-
dóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Ragnari Þór Péturssyni, formanni Kennarasambands Íslands.