Börn og menning - 01.04.2006, Blaðsíða 18

Börn og menning - 01.04.2006, Blaðsíða 18
18 Börn og menning María Bjarkadóttir Fíasól og Karen Karlotta - sjálfstæðar stelpur sem læra af reynslunni Eftir að bækurnar um Harry Potter komu fram á sjónarsviðið hefur mikið verið fjallað um það hversu ríkjandi sé að aðalpersónur í barnabókum séu strákar. Oft er talað um hvernig strákarnir eru gerðir að hetjum sem kljást við alls konar vandamál og leysa þau farsællega á meðan stelpurnar horfa á, aðgerðarlausar. Stöku sinnum fá stelpurnar að gegna hlutverki skynseminnar eða samvisku strákanna, sem taka þó yfirleitt lítið mark á þeim. Hlutverk Hermione, vinkonu Harry Potters, hefur til að mynda verið gagnrýnt í ófáum fræðigreinum og þykir það þá heldur rýrt miðað við hlutverk strákanna. Þetta mynstur má svo sjá í ólíkustu bókum, allt frá hinum sívinsælu Ævintýrabókum Enid Blyton til bóka sem verið er að skrifa í dag. Þetta virðist þó ekki vera tilfellið í íslenskri barnabókaútgáfu, sem betur fer. Á síðustu árum og jafnvel áratugum, hefur fjöldinn allur af bókum þar sem stelpur eru í aðalhlutverki verið gefinn út hér á landi, bæði barna- og unglingabækur, raunsæisbækur og fantasíur, draugasögur og hversdagssögur, alvarlegar bækur og bækur á léttum nótum. Sem dæmi um velþekktar sögur má nefna Sitji Guðs englar, þríleik Guðrúnar Helgadóttur frá 9. áratugnum, Franskbrauð með sultu og fleiri bækur Kristínar Steinsdóttur, og bækur Ragnheiðar Gestsdóttur svo sem 40 vikur og Sverðberinn, en allar hafa þær hlotið mikið lof gagnrýnenda. í nýlegum bókum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, Fíasól í fínum málum og Fíasól í Hosíló og bókum Guðrúnar Helgadóttur um Karen Karlottu, Öðruvísi dagar og Öðruvísi fjölskylda eru aðalpersónurnar einnig stelpur. Þrátt fyrir að vera mjög ólíkar eru þessar stelpur báðar sjálfstæðar og ákveðnar og bjarga sjálfar þeim málum sem upp koma í lífi þeirra, í stað þess að láta einhvern annan gera það fyrir sig. Bæði Fíasól og Karen Karlotta eiga bestu vini sem eru strákar. Besti vinur Fíusólar er Ingólfur Gaukur sem býr á móti henni, og einn af bestu vinum Karenar Karlottu er Jöri bróðir hennar. Þessir strákar eru í aukahlutverkum en eru hvorki leiðinlegir né „ruglaðir". Þeir eru vinir stelpnanna og fullkomlega jafngildir öðrum vinum. En hvað geta stelpur eins og Fíasól og Karen Karlotta sagt jafnöldrum sínum? Hverju geta þær komið á framfæri?

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.