Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 49
en [, , ] þau sjaldgæfustu.6 Hljóð sem eru algeng í tungumálinu heyra
börn aftur og aftur og þau æfa sig einnig oftar að bera þau fram. Þó er
ekki alltaf hægt að skýra málhljóðatileinkun út frá tíðni. Sem dæmi lærist
/r/ seint þrátt fyrir að vera fimmta algengasta hljóðið í íslensku. Í því til-
felli hefur „flækjustig“ hljóðsins meiri áhrif því talfærin þurfa mikla
æfingu til að mynda /r/ (Þóra Másdóttir og Stokes 2016:117). Hins vegar
lærist /ð/ snemma í íslensku þrátt fyrir að vera 16. algengasta málhljóðið.
Íslenskt [ð] er hálfgert nándarhljóð (hefur eiginleika hálfsérhljóðs) sem
auðveldar framburð þess, en það er einnig í fyllidreifingu við [θ] svo þar
með fæst hærri tíðni og „meiri æfing“ en í öðrum tungumálum (Þóra
Más dóttir og Stokes 2016:117–118).
Indriði Gíslason o.fl. (1986) gera nokkuð nákvæma grein fyrir þeim
frávikum sem koma fyrir í máli fjögurra og sex ára íslenskra barna. Al -
geng asta tegund frávika á /r/ er skiptihljóðun. Það er nokkuð misjafnt
hvað sett er í stað /r/ en svo virðist sem barn „velji“ sér tiltekið skipti-
hljóð, þ.e. noti eitt ákveðið hljóð oftast í stað /r/. /r/ er oftast skipt út
með rödduðu [ð] eða órödduðu [θ]7 en einnig koma fyrir /r/-afbrigðin
[ʀ], [ɾ] og [ɹ], einkum í framstöðu. [l] er algengt skiptihljóð fyrir /r/ í
mörgum tungumálum en íslensk börn nota það ekki mikið sem slíkt
(Indriði Gíslason o.fl. 1986:62). Skiptihljóðið [j] kom hlutfallslega mjög
sjaldan fyrir (í um 1% tilvika) hjá fjögurra ára börnum og aldrei hjá sex
ára börnunum (Indriði Gíslason o.fl. 1986:62). Brottfall á stöku /r/ var
óalgengt nema hjá yngri aldurshópnum í bakstöðu einkvæðra orða á eftir
áherslusérhljóði (t.d. í skór, tvær og þrír) (Indriði Gíslason o.fl. 1986:62,
103).8
Þróun /r/ í máltöku Fíu 49
6 Samkvæmt Þóru Másdóttur og Stokes (2016:115) er raddað [r] mjög algengt í máli
barna og lærist því fyrr en óraddaða afbrigðið [], sem er sjaldgæfara.
7 Þetta eru í raun sömu skiptin nema hvað röddun skiptihljóðsins er mismikil (Indriði
Gíslason o.fl. 1986:62). Ef til vill væri hægt að nota eitt tákn yfir slík skiptihljóð, þ.e.
hljóðanið /ð/. Í greininni eru skiptihljóð hins vegar oftast táknuð með hornklofa því átt er
við það hljóð sem algengast er að berist okkur til eyrna í stað hljóðsins (eða hljóðansins)
sem þar ætti að vera. Ekki er tekin afstaða til þess hvort skiptihljóðun feli í sér að
hljóðbrigði eins hljóðans sé skipt út fyrir hljóðbrigði annars hljóðans eða hvort bæði hljóðin
sem um ræðir, t.d. [r] og [ð], séu hljóðbrigði eins og sama hljóðansins í huga mælanda (sjá
þó neðanmálsgrein 15). Sambærilegum hugmyndum um baklægar gerðir hljóða er velt upp
í kafla 6.2.
8 Indriði o.fl. (1986) fjalla ekki sérstaklega um framburð /r/ í áherslulausum at -
kvæðum í enda tví- eða þríkvæðra orða en hafa það stundum innan sviga í hljóðritun sinni.
Sigurður Konráðsson (1981) hafði áður gert grein fyrir því að í áherslulausu beygingarend-
ingunum -ar og -ur fellur /r/ gjarnan brott.