Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Side 54
Dæmin í töflu 2 benda einnig til þess að Fía sé með hljóðanið /r/ í bak lægri
gerð en ekki /j/. Ef Fía notaði skiptihljóðið [j] eða [ç] (hj) í þessu umhverfi
væri það hins vegar skýr vísbending um að hún hefði /j/ í stað /r/ í baklægri
gerð jafnt sem yfirborðsgerð. Talfæri hennar ráða ekki enn við að mynda
sveifluhljóð og þess vegna birtist skiptihljóðið /j/ í orðum eins og í töflu 1.
Hér er vert að nefna að [θ] og [ð] koma heldur seint fram í máli Fíu
ólíkt meirihluta íslenskra barna (sbr. Þóru Másdóttur og Stokes 2016).
Fía meðhöndlar [θ] líkt og [] en meginregla hennar er sú að [h] kemur í
stað [θ] í framstöðu, t.d. þessi [hɛsːɪ], þú [huː], óþekk [ouːhehk] o.s.frv. Þar
sem klasinn /þr/ stendur í framstöðu notar hún einnig [h], t.d. þrír [hiː],
þröngur [hœiŋkʏ], þrettán [hɛhtaun]. Þetta gerir hún allt upptökutímabilið
en þegar upptökum lýkur hefur hún enn ekki náð tökum á myndun [θ].
Þegar [r] er hluti af samhljóðaklasa í framstöðu og stendur næst á eftir
lokhljóði fellir Fía það yfirleitt brott. Í (2) er þessu lýst með hljóðkerfis-
reglu, en mínusgildi á þáttunum hljómandi og samfellt greina lokhljóð frá
öðrum samhljóðum (C).
(2) [r] → Ø / C[–hljómandi,–samfellt] __
Þessi regla verkar á tveggja samhljóða framstöðuklasana /gr, kr, br, pr, dr,
tr/ (t.d. grænn [kait], krús [kʰuːs], Brynhildi [pɪːnɪtːɪ], príla [pʰiːla], dreki
[tɛːcɪ], tröppur [tʰœhpʏ]) og þriggja hljóða framstöðuklasana /str/ og
/skr/ (t.d. strax [staks], skrifaðu [scɪːvajʏ]). Sambærileg regla og í (2) á í
raun einnig við um það þegar [r] stendur næst á eftir önghljóðunum [f]
eða [θ], /fr/ og /þr/, því þá fellur [r] einnig brott hjá Fíu (t.d. frammi
[famːɪ], þramma [hamːa]).
Stundum er talað um að hljóð hafi mismikinn „styrk“. Lokhljóð og
órödduð önghljóð (eins og [f] og [θ]) eru til að mynda „sterkari hljóð“ en
hljómendur (t.d. [r]) samkvæmt styrkleikaskala Hymans (1975) (sjá einnig
Kristján Árnason 2005:165). Þegar tvö samhljóð standa saman er líklegra
að veikara hljóðið falli brott en það sterkara. Það má því gera ráð fyrir að
þegar einfalda þarf samhljóðaklasa þar sem /r/ stendur með lokhljóði eða
órödduðu önghljóði þá falli það brott líkt og hjá Fíu.17
Í innstöðu er brottfallsregla ríkjandi hjá Fíu til að byrja með (sjá einnig
Þóru Másdóttur 2008). Í töflu 3 má sjá dæmi um brottfall [r] þegar það
stendur stakt á milli tveggja sérhljóða.
Kristín Þóra Pétursdóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir54
17 Í rannsókn Indriða Gíslasonar o.fl. (1986) var skiptihljóðun algengasta frávikið í
samhljóðaklösum með [r] í framstöðu (sbr. 4. kafla). Við þær aðstæður fellir Fía [r] hins
vegar alltaf brott á þessu stigi enda er hún yngri en börnin í rannsókn Indriða og félaga.