Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Blaðsíða 86
3.2 Heilsanin Góðan dag
Til að átta sig frekar á uppkomu og notkun kveðjunnar Hafðu/Eigðu
góðan dag í íslensku er gagnlegt að skoða aðra kveðju sem er bæði algeng
í nútímamáli og svipar til Hafðu/Eigðu góðan dag en gegnir aftur á móti
gagnstæðu hlutverki, þ.e. heilsanina Góðan dag.
Eitt af því sem vekur athygli við Góðan dag er að þar kemur fyrir
nafnliður í þolfalli, án sagnar. Þetta er ekki eina kveðjan í íslensku af
þessu tagi, því orðasambandið á sér hliðstæður í kveðjunum Góða nótt og
Góða helgi.14 Allar kveðjurnar eiga það sameiginlegt að vera stirðnuð
orðasambönd sem gegna afar skýrt afmörkuðu hlutverki í tungumálinu.
Raunar eru heilsanir af þessum toga ekki séríslenskt fyrirbæri því
sambærilegar kveðjur eru til í skyldum tungumálum. Í dönsku, norsku og
sænsku má finna God dag, í ensku Good day, í hollensku Goedendag og
þýsku Guten Tag.15 Af þessum kveðjum er þýska heilsanin sú eina sem
sýnir ótvírætt þolfall.
En einhver skýring hlýtur að vera á því að nafnliðirnir eru ekki í hinu
ómarkaða nefnifalli, þ.e. hvers vegna kveðjurnar í íslensku eru ekki *Góður
dagur, *Góð nótt, *Góð helgi o.s.frv. heldur Góðan dag, Góða nótt og Góða
helgi. Í fyrsta lagi gæti hér verið sérstök notkun á þolfalli í íslensku (og þá
einnig í þeim skyldmálum sem nefnd voru hér að ofan), sambærileg þol-
falli í setningum á borð við Hann sat úti allan daginn, þar sem það táknar
tíma (tímaþolfall). Önnur skýring, og að mínu mati líklegri, er að þolfallið
megi rekja til sagnar sem kemur ekki fyrir í kveðjunni í nútímamáli, til
dæmis sökum þess að hún hefur fallið brott á einhverjum tíma í sögu
íslenskunnar. Eins og fyrr hefur verið nefnt (sjá kafla 2.2) er slík þróun,
þ.e. að hluti orðasambanda sem gegna skýrt afmörkuðu hlutverki í tungu-
málinu falli brott eða breytist, vel þekkt. Mætti hér til dæmis nefna
orðasambandið Ég hef ekki grænan grun (um þetta), sem í óformlegu talmáli
verður oft og tíðum Ekki grænan, þar sem bæði frumlag og sögn, auk nafn -
orðs í fyllilið, hefur fallið brott. Einnig mætti líta til ensku kveðjunnar
Sigríður Sæunn Sigurðardóttir86
14 Hér mætti einnig nefna kveðjuna Gott kvöld eða Góða kvöldið. Þrátt fyrir að ekki sjá-
ist með skýrum hætti hvort fallið er nefnifall eða þolfall má telja líklegt að um þolfall sé að
ræða.
15 Hér eru aðeins nefndar kveðjur sem svipar til Góðan dag í íslensku, en þess má geta
að fleiri kveðjur eru til í öllum málunum sem eiga við mismunandi tíma dags, t.d. síðdegi
og kvöld. Þá má ennig nefna að enska kveðjan Good day er frábrugðin kveðjunum í hinum
málunum þar sem hún er notuð sem brottfararkveðja en ekki heilsan eins og sambærilegar
kveðjur í hinum málunum.