Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 87
Good bye, sem eins og áður er nefnt er samdráttarmynd setningarinnar
God be with you (Arnovick 1999), eða norsku kveðjunnar Ha det þar sem
brottfall hefur átt sér stað á fylgilið sagnarinnar, þ.e. upphaflega var kveðjan
Ha det godt/bra/fint (Rygg 2017).
Ef þetta er raunin um íslensku kveðjuna Góðan dag, þ.e. að sögn sem
úthlutar þolfalli hafi fallið brott, mætti velta fyrir sér hvernig kveðjan
hefur upphaflega verið hugsuð. Nokkrar tillögur eru tilgreindar í (11), en
þær eru byggðar á því að sagnirnar gefa, eiga og hafa stýra þolfalli og geta
komið fyrir í óskum og kveðjum.16 Athugið að það sem fellt hefur verið
brott er haft innan hornklofa.
(11) a. [Megi Guð gefa þér] góðan dag.
b. [Ég gef þér] góðan dag. (sbr. Falk og Torp 1900:30)
c. [Ég óska þess að þú eigir/hafir] góðan dag.
d. [Hafðu/Eigðu] góðan dag.
Tillögurnar í (11) falla einnig vel að hugmyndum um uppruna þolfallsins
í sambærilegum kveðjum í skyldum málum. Þannig hefur þýska heilsanin
Guten Morgen ‘Góðan morgun’ verið rakin til miðháþýsku, Got gebe dir
guoten morgen ‘Guð gefi þér góðan morgun’ (Kadzadej 2003:150, Miodek
1994:54), og þakkarkveðjan Schönen Dank til segðar sem innihélt sögn,
þ.e. Habe schönen Dank ‘Hafðu kærar þakkir’ (Behaghel 1928:459). Þá
telja Falk og Torp (1900:30) að kveðjan God dag í Norðurlandamálunum
sé komin úr forníslensku, Ek gefi yðr góðan dag, en þó er ekki ljóst hvort
tilgáta þeirra byggi á varðveittum dæmum.
Frekari stuðningur fyrir því að sögn hafi upphaflega fylgt kveðjunni í
íslensku fæst þegar sögulegar heimildir eru athugaðar. Allt frá 13. öld eru
dæmi um orðasambandið Góðan dag í fornnorrænu ásamt sögn sem stýrir
þolfalli, t.d. bjóða (12) og hafa (13).17 Ekki eru dæmi um kveðjuna með
sögninni eiga.
(12) En ef það er svo árla um morgna að þú hefir hann eigi fyrr fundið
þá bjóð honum góðan dag. (Konungs skuggsjá, um 1275)
„Haf góðan dag“ 87
16 Sagnirnar hafa og eiga koma fyrir í brottfararkveðjunni Hafðu/Eigðu góðan dag í
nútímamáli. Sögnin gefa getur komið fyrir í óskum þar sem Guð er frumlag en einnig
mætti hugsa sér að mælandi geti verið frumlagið líkt og Falk og Torp (1900) stinga upp á
(11b).
17 Öll dæmi úr fornu máli eru með samræmdri stafsetningu nútímamáls. Þau eru
fengin úr Ordbog over det norrøne prosasprog og miðast tímasetning dæmanna við tímasetn-
ingu handrita sem þar eru skráð.