Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Side 100
þátt í því mynstri að langt samhljóð merki karlkyn. Raunar tekur rr við af
r í fleiri beygingarmyndum þessara lýsingarorða á 14. öld því að nýri,
nýrar og nýra viku fyrir nýrri, nýrrar og nýrra og sú breyting er gengin í
gegn í Möðruvallabók (de Leeuw van Weenen 2000:184). Hins vegar er
r-ið ekki endurtúlkað sem hluti af stofninum, ég þekki engin dæmi um
myndir eins og *nýran eða *nýrir í stað nýjan eða nýir.
(2) a. nýr → nýrr stórr, ljóss, sæll, beinn
b. nýri → nýrri stórri, ljóssi, sælli, beinni
c. nýrar → nýrrar stórrar, ljóssar, sællar, beinnar
d. nýra → nýrra stórra, ljóssa, sælla, beinna
Hvers vegna ætti nýr að verða nýrr á 14. öld fremur en fyrr? Eitt sem
vænta má að hafi liðkað til fyrir breytingunni er tilkoma stoðhljóðsins u
um 1300. Orð sem áður höfðu greinilega r sem beygingarendingu fengu
þá flest endinguna ur í staðinn. Meðan myndir eins og góð-r voru fyrir
hendi gátu þær stutt það að myndir eins og ný-r væru túlkaðar sem svo að
þær hefðu nefnifallsendinguna r. Eftir breytinguna í góð-ur hefur tilfinn-
ingin fyrir r sem nefnifallsendingu karlkyns dofnað og samanburðurinn
við myndir eins og stórr þá orðið nærtækari en áður var.
Mjög svipaða sögu má segja um nafnorð eins og sjór. Aftur má sjá fyrir
sér áhrifsþrýsting til að tvöfalda samhljóðið í nefnifalli vegna fordæmis
orða eins og byrr og Þórr og jafnvel líka áss, þjónn og þræll. Og aftur hefur
stoðhljóðsinnskotið deyft tilfinninguna fyrir því að stakt r í sjór væri
nefnifallsending með breytingum eins og að hestr varð hestur. Athyglisvert
er að í sumum orðum var það ekki aðeins nefnifallið sem samlagaðist
beygingarmynstrinu sem orðið Þórr er fulltrúi fyrir heldur einnig þol-
fallið. Þannig má finna Freyr og Týr sem þolfallsmyndir.
(3) a. Freyr → Freyrr Þórr, áss, þjónn, þræll
b. nf. et. Þórr : þf. et. Þór
nf. et. Freyrr : þf. et. X; X = Freyr
Í sagnmyndum eins og deyr virðist tvöföldun samhljóðsins ekki hafa verið
jafn-útbreidd. Eins og nánar er greint frá hér á eftir finnast myndir eins
og deyrr í Skarðsbók en ekki í Möðruvallabók. Breytinguna má eigi að
síður útskýra á svipaðan hátt og hinar sem áhrifsbreytingu frá myndum
eins og ferr, ríss, vill og skínn þar sem tvöfalt samhljóð merkir aðra og
þriðju persónu eintölu. Þessar myndir voru þó tiltölulega fáar. Aftur má
segja að stuðningur við r sem endingu minnki við að stoðhljóð kemur inn
Haukur Þorgeirsson100