Íslenskt mál og almenn málfræði - 2020, Page 171
undirskipað öðru máli í tilteknu samhengi, t.d. vegna þess að það þyki
betur hæfa viðkomandi samhengi en meirihlutamálið, eða sé einfaldlega
ekki nothæft í þessu samhengi, t.d. vegna skorts á orðaforða eða af tækni-
legum ástæðum. Það samhengi sem hér um ræðir er ekki málumdæmi í
sama skilningi og nefnt var hér að framan og hefð er fyrir að ræða um
(sbr. Kristján Árnason 2001) heldur skarast við þau. Þá er hægt að tala um
stafræna minnihlutagervingu íslenskunnar, í þeim skilningi að hún sé
víkjandi fyrir ensku í stafrænu samhengi. Spurningin er svo hvort fyrir-
ferð ensku í stafrænu samhengi í ýmsum málumdæmum muni hafa áhrif
út fyrir hið stafræna umhverfi og breyta íslensku málsamfélagi sem fram
undir þetta hefur að mestu verið eintyngt í samskiptum innanlands.
Í þessu sambandi skiptir máli að huga að mállegu ílagi (e. input) sem
einstaklingar fá, sér í lagi börn og unglingar vegna þess að breytt málum-
hverfi hefur líklega mest áhrif á þau (Sigríður Sigurjónsdóttir 2019:48).
Með ílagi er átt við allt það máláreiti sem er í umhverfi einstaklinga og
þeir fá með hlustun, lestri, áhorfi og fleiru. Ílag er forsenda eðlilegrar mál-
töku — börn vinna úr því ílagi sem þau fá úr málumhverfi sínu og nota
það til að byggja upp eigið málkerfi (sjá t.d. Margréti Guðmundsdóttur
2008; Sigríði Sigurjónsdóttur 2019), en hugtakið máltaka barna er notað
um það ferli þegar börn tileinka sér móðurmál sitt í æsku (Sigríður Sigur -
jónsdóttir 2013:107). Kenning taugasálfræðingsins Erics Lenne bergs
(1967) gerir ráð fyrir markaldri (e. critical period) fyrir mál, sem einnig
hefur verið talað um sem næmiskeið eða máltökuskeið, en samkvæmt því
eru máltöku manna sett ákveðin tímamörk frá náttúrunnar hendi. Oftast
er talað um að máltökuskeið sé frá því að fóstur fer að heyra í móðurkviði
og fram á kyn þroskaaldur (Jörgen Pind 1997:135). Rannsóknir benda þó
til að næmnin haldist ekki sú sama út allt máltökuskeiðið heldur sé mest
fram til 7 ára aldurs og fari þá minnkandi, en leifa af máltökuhæfileikan-
um gæti allt til 17 ára aldurs (sjá t.d. Johnson og Newport 1989:78–79;
Hartshorne o.fl. 2018; og umfjöllun Sigríðar Sigurjónsdóttur 2019:51–
52).
Rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum ílags á máltileinkun al -
mennt sýna að magn, eðli og gæði ílagsins hafa mikið að segja. Þær sýna
að magn ílags leikur lykilhlutverk við máltileinkun og að því meira sem
máláreitið í umhverfi einstaklings er því líklegra er að hann nái góðum
tökum á málinu (sjá t.d. Hurtado o.fl. 2008). Samkvæmt Unsworth (2015:
157) hafa ýmsir þættir áhrif á gagnsemi ílags en þar skiptir mestu máli
hvaðan ílagið kemur, t.d. hvort það kemur frá fjölskyldumeðlimum og
vinum eða e.t.v. sjónvarpi eða öðrum tækjum, og þá hversu mikla færni
Stafrænt málsambýli íslensku og ensku 171